28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (4144)

111. mál, sjóveðskröfur síldveiðisjómanna

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf raunar ekki að svara hv. 8. landsk., því að mestöll ræða hans gekk út á það að afsaka framhleypni sína, er hann gaf út nál. í ósamræmi við gerðir fjvn. Annars er honum vel kunnugt um það, að hann minntist aldrei á þessi atriði í fjvn., sem hann afsakaði sig nú með, og við nm. urðum aldrei varir við aths. frá honum í þá átt. En það var eðlilegt, að meiri hl. vildi fá þær upplýsingar, sem nauðsynlegar voru til þess að hægt væri að afgreiða málið, áður en hann gæfi út sitt nál. Hitt er svo afar undarlegt, að þeir, sem þykjast vera fullir áhuga fyrir þessu máli, skuli ekki hafa neina hugmynd um, hve mikið er búið að greiða af þessum skuldum. Þeir tala um, að sjómenn hafi verið sviknir um sitt kaup þrjú síðustu árin. Þetta eru bara blekkingar og ekkert annað. Það er sýnilega búið að greiða mikinn hluta sjóveðskrafnanna frá 1949, en um óinnleystar sjóveðskröfur frá sumrinu 1950 eru engar upplýsingar til. Það þýðir því ekki að halda því fram, að sjómenn hafi verið sviknir um laun sín í 3 síðustu ár, og ég vil benda á, að þetta er að miklu leyti sjómönnunum sjálfum að kenna, þar sem þeir hafa ekki lýst eftir sínum kröfum. Stéttarsambönd þessara manna vita einu sinni ekki, hve miklar þessar óinnleystu sjóveðskröfur eru, og þeir menn hér á Alþ., sem gaspra mjög um þessi mál, hafa enn síður hugmynd um það. Formaður stjórnar skuldaskilasjóðs tilkynnti mér, að stjórnin vissi ekkert um, hve þessar kröfur næmu hárri upphæð frá sumrinu 1950. Hv. frsm. minni hl. sagði, að við hefðum verið að draga málið á langinn, til þess að það næði ekki fram að ganga á þessu þingi. Ég vil vísa þessum ummælum algerlega á bug, og ég veit ekki, hvaðan honum kemur heimild til að slá slíku fram. Enda hefði hann þá getað krafizt þess, að málið yrði tekið hér upp á þinginu. Sannleikurinn er sá, að þetta er of alvarlegt mál til þess, að hægt sé að gera það að pólitísku deilumáli hér á Alþ. Þá sagði hv. frsm. minni hl., að fskj. II væri innlegg til sönnunar því, að sjómenn hefðu verið sviknir um sitt kaup. Sannleikurinn er sá, að með þetta mál var farið mjög einkennilega af skilanefndinni, þar sem mönnunum var neitað um aðstoð vegna þess, að þeir áttu ekki skipin, sem þeir gerðu út, og eigendurnir fengu heldur enga aðstoð vegna þess, að þeir gerðu ekki sjálfir út skipin. Þessir menn hafa því orðið verst úti. En ég get þó upplýst, að þessar kröfur allar hafa ekki farið yfir 20 þús. krónur, eða um eitt þúsund á mann. Skipstjórinn tók sér það vald að taka af leigunni og borga skipshöfninni með því fé í heimildarleysi, því að aflahluturinn er ekki í veði, þótt skipið sé það. Þetta var ekki gert að ágreiningi á milli skipstjórans og eigendanna, en það var engin heimild til að fara svo að. Það var hins vegar hægt fyrir þessa aðila að ganga að skipinu eftir að dómur var fallinn, þótt þeir gætu ekki selt það. — Annars mun ég ekki ræða frekar við hv. frsm. minni hl., en ég vil hins vegar snúa mér að hv. þm. Ísaf., því að við hann er þó hægt að ræða um þessi mál. Ég get vel skilið, að það væri réttara að breyta niðurlagi brtt. í þeim tilgangi að fá hana skýrari, og skal ég gjarnan hafa samráð við hann um þetta atriði. En þegar sagt er í till. „jafnskjótt og uppgjör liggur fyrir“, þá hygg ég, að í því felist það, sem hv. þm. vill láta koma fram. Ég sé ekki ástæðu til að bíða með að greiða þær kröfur, sem viðurkenndar eru, og ég hygg, að þar sé meira um framkvæmdaratriði að ræða. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að óvefengjanlegar kröfur verði greiddar jafnóðum og þær koma inn, en ekki verði farið að bíða eftir skuldaskilum hinna ýmsu fyrirtækja. Eitt getur þó breytt þarna nokkru um, og það er, hvort viðkomandi aðili fer í skuldaskil eða ekki, og í því tilfelli er erfitt að ganga frá þessum málum, fyrr en öll gögn liggja fyrir. Þessari athugun verður ef til vill ekki lokið fyrir 1. júlí, og þá er hætt við, að allar kröfur verði ekki greiddar fyrir þann tíma. Svo ég vona, að það verði hægt, eftir að kröfurnar eru komnar inn, að afnema þessi mál. Nú liggur hér fyrir, að fyrir orðin: „uppgjör liggur fyrir hjá stjórn skuldaskilasjóðs“ komi: kröfulýsingar hafa borizt stjórn skuldaskilasjóðs fyrir greiðslukröfum, er hún metur gildar. — Ég hefði gjarnan viljað hafa það orðalag þannig: og skuldaskilum er það langt komið, að hægt sé að inna þessar greiðslur af hendi. — Það er ekki hægt að láta greiðslurnar fara fram fyrr en skuldaskilum er það langt komið, að hægt er að inna greiðslurnar af hendi. Ég vildi því leggja til, að niðurlaginu verði breytt þannig, og vona, að hv. þm. Vestm. fallist á það. Vil ég leyfa mér að leggja þessa brtt. fyrir hæstv. forseta. Ef ekki er hægt að koma á samkomulagi milli þeirra manna, sem ég veit, að vilja leysa þetta mál á eðlilegum grundvelli, þá vil ég óska eftir, að hæstv. forseti fresti umr., svo að við getum brætt okkur saman, því það er vilji meiri hl. og flestra þm., að þetta mál sé leyst þannig, að mennirnir fái þessar kröfur greiddar eins fljótt og kröfunum hefur verið lýst og féð er fyrir hendi til greiðslu.