09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (4235)

166. mál, atvinnuvandræði Bílddælinga

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki ræða þessa þáltill. neitt að ráði, en nokkur orð hv. þm. Barð. gáfu mér tilefni til að segja nokkur orð. Hv. þm. byrjaði á því að lýsa ánægju sinni yfir framkomnum till. frá þm. tveggja flokka um umbætur á atvinnumálum Barðstrendinga. En það virtist ekki nægja hv. þm., því að hann kallaði einnig eftir till. frá þriðja flokknum, Framsfl. Ég hafði ekki álitið mál þetta mjög alvarlegt, en það hlýtur að vera það, þegar hv. þm. Barð. hefur engar till. sjálfur um umbætur í kjördæmi sínu, en treystir á hjálp annarra flokka í því efni og kallar sérstaklega eftir hjálp Framsfl. og væntir góðra till. þaðan. — En þetta er ekki ástæðan til, að ég stóð á fætur, heldur starfssaga hans sjálfs á Bíldudal. Hann sagði, að kaupfélagið hefði tekið við verzluninni á staðnum með góðu leyfi hans sjálfs, en það hefði brugðizt skyldu sinni með því að draga úr höndum sparisjóðsins lausafé fólksins og flutt það til Sambandsins til ýmiss konar notkunar hér í Reykjavík.

Ég hef átt kost á því að sjá skýrslur ýmissa kaupfélaga á landinu og þar á meðal þessa félags, en það hefur ekki undir höndum meira fé en það þarf sjálft að nota, svo að það er rangt hjá hv. þm., að kaupfélagið á Bíldudal hafi ekki notað fé íbúanna þar til nauðsynlegra þarfa við rekstur sinn á hverjum tíma, og ég vil mótmæla því, að það hafi staðið fyrir heilbrigðum rekstri og atvinnulífi á staðnum með því að flytja sparifé íbúanna til Reykjavíkur. Slíkt er hreinn misskilningur hjá hv. þingmanni.