29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (4355)

901. mál, límvatn til áburðar

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Það er náttúrlega hægt að framkvæma ræktunartilraunir eins og hv. þm. Barð. talaði um nú. Ef það væri svona einfalt að gera áburðartilraunir, þá þyrfti ekki annað en að reikna út, hvað bíllinn kostar, sem áburðurinn væri fluttur á, ásamt áburðinum. En ef ætti að gera tilraunir með þetta efni með vísindalegri nákvæmni, til þess að vita, hvernig visst áburðarmagn verkar af þessum áburði, þá þarf að gera tilraunir með þetta oft og lengi og við mismunandi skilyrði, svo sem t. d. undir regni, svo og án þess, að regn sé, er borið er á, og á ýmiss konar land og á mismunandi árstímum. Og þó að meðaltal áburðarmagnsins í þessu áburðarefni sé 1% köfnunarefni, þá er það líka nokkuð misjafnt. Og þegar við vitum, að áburðarmagnið er um 1%, þá er spurningin, sem þarf að svara, hvort það borgar sig að flytja þetta áburðarefni út á túnin og hvað borgar sig að flytja það langt. Og þetta er eins og það væri spurt um einhverja aðra áburðartegund, sem hefur ákveðið áburðarinnihald, hvort það borgaði sig að bera hana á. Og reikningsdæmið er þá alveg eins um flutningskostnaðinn. Og að geyma þetta áburðarefni í tönkum borgar sig ekki. Það er víst. Á stað eins og Akranesi, þar sem er fullt af þessu áburðarefni, þá er það vitað, að það eru takmarkaðar vegalengdir, sem borgar sig að aka því á tún, þannig að bíllinn kostar meira en áburðurinn er verður. Þetta er sannleikurinn. Hins vegar, ef Alþ. óskar eftir, að þessar tilraunir verði gerðar, þá er hægt að gera tilraunir og segja, að þegar áburðarmagnið er þetta, 1% t. d., þá er hægt að bera það á með góðum árangri, ef það kostar ekki meira að flytja það en eitthvað visst. En ef það á að setja þetta fram á þann hátt, að vísindalega sé að unnið, og segja til, hvaða árangri hægt er að ná með þessum áburði, eftir því, á hvaða tíma og undir hvaða skilyrðum er borið á, og eftir því, með hvaða áburðartegundum öðrum þetta áburðarefni er borið á, og svo eftir jarðvegi, þar sem borið er á, og eftir því, hve lengi borið er á visst land ár eftir ár þetta áburðarefni og við hvaða aðstæður og hvaða árangur er af að bera þetta á í ýmsum þessum aðstæðum, eftir því, hvort áburðarmagnið er yfir eða undir 1%, — ef á að vinna að rannsóknum þessa áburðarefnis með tilliti til þess, þá er málið ekki mjög einfalt. Hins vegar er það einfalt mál að athuga, hvað bíll kostar með þetta áburðarefni út á tún, og þá getur hver gert það sem er með því að spyrja um taxta hjá bílstjórum.