06.12.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í D-deild Alþingistíðinda. (4393)

907. mál, hvíldartími áhafna flugvéla

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, eru engar alþjóðareglur um þetta. Það eina, sem til er í alþjóðasamþykkt um þetta, er í flugmálasáttmálanum frá 1944, en það er á þessa leið:

„Loftferðafyrirtæki skulu setja reglur um takmarkanir á flugtíma áhafna. Takmarkanir þessar skulu vera þannig, að of langur flugtími áhafna annaðhvort í einni eða fleiri flugferðum eða yfir lengri tíma stofni ekki öryggi flugvélarinnar í hættu. Takmarkanir þessar skulu vera viðurkenndar af landi því, er lögskráð hefur flugvélina.“

Mér er tjáð, að það sé ekki kunnugt, að nokkurt land hafi sett nokkrar reglur um þetta og að flugfélög setji sér sínar eigin reglur um þetta, og munu íslenzk flugfélög fylgja sömu reglum og notaðar eru á Norðurlöndum. Hins vegar er til athugunar hjá alþjóðaflugmálastjórninni og í nefnd þar till. til að fá eitthvað fastákveðið í þessum efnum.

Ég er fyrirspyrjanda samþykkur um það, að setja verði fastar reglur um hvíldartíma flugmanna, því að á því byggist allt öryggi fyrir flugið. Ég hef rætt við flugráð um, að það gefi þessu máli fullan gaum og að það setji fram till. um það, hvað það telur heppilegast í þessu máli.