07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í D-deild Alþingistíðinda. (4419)

908. mál, Metzner og aðstoðarmaður hans

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort mér er úthlutað þeim heiðri að svara þeirri fyrirspurn, sem er beint til ríkisstj. Ég skal gera það eftir því, sem ég get.

Viðvíkjandi forsögu þessa máls hygg ég, að hún sé ágætlega upplýst með þeim tilvitnunum í ræðu fyrrverandi fjmrh., sem hv. þm. V-Húnv. las upp. Um síðari gang málsins er það að segja, að þessi maður kom hingað og útgerðarmenn tengdu vonir sínar við hann. Eftir því sem ég bezt veit, var langt komið með stofnun hlutafélags, sem átti að hafa það markmið að vinna eggjahvítuefni úr fiski. Ef ég veit rétt, þá var þessi maður annaðhvort aðal- eða annar aðaluppfyndingamaður þessarar aðferðar, sem notuð var í Þýzkalandi. Mun hann auk þess hafa leitt líkur að því, að hann þekkti enn ný gögn í málinu, þannig að auðið væri að vinna betri vöru úr fiski en með eldri þýzku aðferðinni. Á þessum vonum byggðist undirbúningur þessa félags. En eftir þennan undirbúning og þegar tryggar líkur virtust til þess, að hægt væri að ná verulegu hlutafé til þess að byggja verksmiðju, sem skyldi stunda þennan iðnað, kom afturkippur í málið. Um svipað leyti varð ég var við hjá manni, sem hafði höfuðáhugann og mikið með málið að gera, að hjá honum vöknuðu grunsemdir um, að hve miklu leyti þessi þýzki maður réði yfir nýrri þekkingu í þessum efnum. — Síðan fór þessi dr. Metzner utan, að líkindum aðallega til þess að koma tengdamóður sinni í betra loftslag til Suður-Ameríku. Frétti ég svo, að sá útgerðarmaður, sem hafði hvað mest með málið að gera, greindur og grandvar maður, væri í Ameríku og ætlaði að hafa fregnir af þessum þýzka manni. Allir útgerðarmenn, sem kynntust málinu, höfðu mikinn áhuga á því. Hygg ég, að það hafi ekki eingöngu verið þáverandi fjmrh. og útgerðarmenn, sem vildu hagnýta þekkingu hans. Hann hafði yfir sér einhvern frægðarljóma, og Háskóli Íslands bauð honum hingað. Voru það réttmætar vonir, sem voru tengdar við veitingu ríkisborgararéttarins, þó að nú hafi hún leitt til vonbrigða. Hvort úr rætist, veit ég ekki, en ég hef ekki mikla von. Mér fannst skrýtið, að þessi maður vildi á örlagastundu halda burt af landinu, og hann lagði ekki fram nein gögn. Það er ekki beinlínis hægt að ákæra manninn fyrir að vilja fara úr landinu. Það er ekki hægt að meina neinum að fara úr landi. Íslenzkur ríkisborgari er frjáls ferða sinna, ef hann hefur þau gögn, sem yfirvöldin krefjast. — Kann ég ekki frekari skil á þessu og vona, að flm. sætti sig við þessar upplýsingar.