07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í D-deild Alþingistíðinda. (4444)

910. mál, greiðsla á erfðafjárskatti með skuldabréfum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Fyrirspurnin er þannig: „Hvers vegna tók fyrrverandi fjmrh. skuldabréf til greiðslu á erfðafjárskatti frá erfingjum eins bús árið 1948, að upphæð kr. 101850.00, í stað þess að krefjast peningagreiðslu á skattinum eins og öðrum gjöldum til ríkissjóðs?“ Ég fól skrifstofustjóra ráðuneytisins að gera um þetta skýrslu í samráði við fyrrv. fjmrh. og ætla nú að lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Erfðafjárskattur í dánarbúi því, sem hér mun átt við, nam kr. 173715.00. Skiptagjald í búinu varð kr. 40840.00. Samtals til ríkissjóðs kr. 214555.00. Þar af greitt í peningum kr. 112705.00, hitt í veðskuldabréfum.

Annar skiptaforstjórinn í búinu, hr. hrl. Lárus Fjeldsted, tilkynnti ráðuneytinu, að meira fé væri ekki fyrir hendi en framangreindar kr. 112705.00 og fór þess á leit, að tekin yrðu verðbréf upp í eftirstöðvar ríkissjóðsgjaldanna. Hugsanlegt var að ganga að verðbréfum búsins og selja á uppboði til lúkningar skattinum, en óhjákvæmilega með þeim afleiðingum, að verulegt tjón hefði af því hlotizt bæði fyrir erfingjana og ríkissjóðinn líka, þar sem ekki hefði verið hægt að taka erfðafjárskatt af hærri fjárhæð en söluverði bréfanna. Hefðu þetta verið allharkalegar aðfarir, og má draga í efa, að nokkur fjármálaráðherra hefði leyft sér það. Hitt er sennilegra, að skiptaforstjóranum hefði verið veittur frestur til að koma bréfunum í peninga, sem gat haft allverulegan drátt á búskiptunum í för með sér og skaðað ríkissjóð, t. d. orsakað vaxtatap, sem er fljótt að koma, þegar um svo stórar fjárhæðir er að ræða.

En hér kom enn eitt til greina: Risið hafði ágreiningur á milli skiptaforstjórans og ráðuneytisins um útreikning erfðafjárgjaldsins. Sbr. bréf skiptaforstjórans til ráðuneytisins, dags. 11. ágúst 1947.

Samkvæmt arfleiðsluskrá átti hluti af arfi eins erfingjans að vera í vörzlum skiptaforstjórans og ekki að útborgast til hans á meðan þeir aðilar, sem eiga að njóta arðs af þessum eignum, eru á lífi. Þessi hluti arfsins nam rúmum 266 þús. kr. og erfðafjárskatturinn þar af um 66 þús. kr.

Var því haldið fram af skiptaforstjórum, að ekki bæri að greiða erfðafjárskatt af þessum hluta arfsins fyrr en hann yrði útborgaður til erfingjans, þar sem ekki yrði séð fyrir fram hvort hann lifði svo lengi, að þessir peningar kæmu honum nokkurn tíma til góða. Ráðuneytið hélt því aftur á móti fram, að ekki væri skylt að bíða með greiðslu erfðafjárskattsins, þar til erfinginn fengi arfinn í sínar hendur. Um þetta mátti deila og ekki vitað um dómsúrskurði, er tækju af tvímæli í þessu efni. Skal ekkert um það sagt, hver úrslitin hefðu orðið, ef málið hefði farið fyrir dómstólana.

Endirinn á þessu varð sá, að ráðuneytið varð við ósk skiptaforstjóranna að taka bréf upp í eftirstöðvarnar af skipta- og erfðafjárgjaldi, en skiptaforstjórar féllu frá kröfu sinni um, að erfðafjárskattur skyldi ekki greiðast af arfshlutanum fyrr en hann væri útborgaður til erfingjans.

Skiptaráðanda var síðan falið að velja úr verðbréfum búsins tryggustu bréfin. Bera þau 6% vexti, eru tryggð örugglega með fasteignaveðum og greiðast á tiltölulega skömmum tíma.

Sýnist ríkissjóður mega vel við una þessi málalok. Erfðafjárskattur var greiddur af nafnverði bréfanna, en hefði getað orðið allmiklu minni, ef krafizt hefði verið nauðungarsölu á bréfunum, þar sem búseignin hefði rýrnað sem svarar þeim afföllum, er á þeim hefðu orðið. Enginn frekari dráttur var á búskiptunum, sem hæglega gat bakað ríkissjóði tjón, ef orðið hefði, og deilan um erfðafjárskattinn var leyst ríkissjóði í hag. Allt það óhagræði, sem ríkissjóður varð fyrir út af þessu, var, að 100000 kr. festust um tiltölulega skamman tíma, sem ekki getur talizt stór upphæð, miðað við, að tekjur ríkissjóðs urðu yfir 260 millj. það ár.

Erfðafjárskattur var í fjárlögum ársins 1948 áætlaður 300000 kr., þannig að erfðafjárskattur úr þessu eina búi nam meir en helmingi fjárlagaupphæðarinnar, og alls varð erfðafjárskatturinn þetta, ár 605 þús. kr., eða helmingi hærri en áætlað var. Fjárlagaáætlunin hefur því staðizt fyllilega, þótt þessi fjárfesting ætti sér stað.“

Þetta var skýrsla fyrrv. fjmrh. og skrifstofustjórans og þær ástæður, sem þeir færa fyrir því, að bréfin voru tekin.