28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það var gott, að hv. 8. landsk., Stefán Jóh. Stefánsson, skyldi minnast á stefnumál Framsfl. og rekja þau svo greinilega í sinni ræðu, og er rétt að víkja að því nánar, að gefnu tilefni af hans hálfu, hvernig til hefur tekizt um efndirnar. Hvað snertir verzlunarmálin, sem hv. 8. landsk. vék að, þá hefur Framsfl. tekizt að fá þar meiru áorkað en búizt var við, og mun hin nýja stefna m. a. leiða til þess að efla iðnaðinn í landinu og afla honum meiri hráefna en unnt hefur verið um skeið. — Hvað húsnæðismálin snertir, þá nægir að benda hv. 8. landsk. á það, að Framsfl. hefur á einu ári lagt meira fé til verkamannabústaða en Alþfl. gerði á fjórum árum. Stóreignaskattur hefur verið lagður á, sem gefið hefur tugi milljóna í ríkissjóð. Í verðlagsmálum hefur flokkurinn fengið því áorkað, að verðlagseftirlitið væri lagt í hendur neytenda, og með hinni breyttu stefnu í verzlunarmálum mun frjáls samkeppni stuðla að því að halda verðlaginu niðri enn frekar. Ég hef aldrei gumað af sparnaði, en hann nemur þó nú um 5–6 millj. kr. á ári, enda þótt Alþfl. og kommúnistar hafi verið samhentir í því að vera á móti hverri einustu sparnaðartill., sem fram hefur komið, hvað sem þeir hafa svo á hinn bóginn talað um sparnað.

Hv. Alþfl.-menn halda því nú mjög á loft, að ríkisstj. ætli sér að stofna til atvinnuleysis og minnkandi kaupgetu í landinu með því að draga úr fjárfestingunni, en flytja í þess stað inn sem allra mest af neyzluvörum. En hvað sögðu þessir sömu menn, á meðan þeir sátu sjálfir í og stóðu að ríkisstjórn? Hv. formaður Alþfl., Stefán Jóh. Stefánsson, hafði dálítið aðra sögu að segja í Alþýðublaðinu 28. okt. 1949. „Færa má fullgild rök að því,“ segir hann, „að stinga megi við fæti um sinn, að því er frekari fjárfestingu varðar, en verja í þess stað meira til neyzluvörukaupa.“ Og hagspekingur Alþfl., hv. 3. landsk. (GÞG), segir svo undir stórum fyrirsögnum í sama blaði hinn 11. okt. s. á.: „Óhófleg fjárfesting veldur vandræðum.“ — „Það verður að draga verulega úr henni og auka innflutning á neyzluvörum.“ Þetta var nú þá! Og skýtur þetta ekki skökku við það, sem nú er haldið fram? — Og það er allt á sömu bókina lært hjá þessum mönnum.

Hv. 6. landsk., Hannibal Valdimarsson, og hv. 3. landsk., Gylfi Þ. Gíslason, hafa báðir blásið sig mjög út af því, hve óskaplegt það væri, að Framsfl. skyldi vinna með íhaldinu. Heyr á endemi! Voru það máske Alþýðuflokksmennirnir, sem voru dregnir út úr stjórn Stefáns Jóhanns? Nei, það voru ráðh. Framsfl. Alþýðuflokksmennirnir vildu hins vegar fá að vera lengur, eftir allt saman, — sitja lengur í stjórn með íhaldinu. Þar kom upp um strákinn Tuma. En hvað á svona dauðans skrípaleikur eiginlega að þýða?

Hv. 3. landsk. flutti hér ræðu, sem engin heil brú var í, bara grautur, því að hagfræðiprófessorinn sagði aðra setninguna, en áróðursmaðurinn hina. Áróðursmaðurinn gerði lítið úr því, að í fyrsta skipti um langan tíma hefur náðst greiðslujöfnuður í fjárl. Hagfræðiprófessorinn gleymdi raunar að taka það fram, að einmitt þetta er undirstaða þess, að unnt sé að stöðva verðbólgu, og án þess væru aðrar ráðstafanir þýðingarlitlar. Hagfræðiprófessorinn missti það út úr sér, að fjárfesting hefði verið of mikil og útlán bankanna of mikil. Áróðursmaðurinn sagði, að höfuðmeinið væri, að ekki væru nógu miklir peningar í pyngjum almennings. Vitanlega minntist hagfræðiprófessorinn ekki á það, hvað hann kennir nemendum sínum í háskólanum um gagnsemi þeirra peninga, sem engar vörur fást fyrir.

Það var ekki hægt að segja, að allur málefnaflutningur af hálfu stjórnarandstæðinga á mánudagskvöldið væri heiðarlegur. Þó var lagzt lægst, þegar kom að blekkingunum miklu um kaupgetuna. „Stjórnarflokkarnir vilja minnka kaupgetuna,“ sagði einn. „Fjmrh. telur það höfuðúrræði að minnka kaupgetuna,“ sagði annar. Enginn munur var á Alþýðuflokksmönnum og kommúnistum í þessu tilliti. „Fjmrh. mundi vilja, að alls staðar gengi eins og í Flatey,“ sagði Alþýðublaðið í vetur. „Þar þarf ekki að óttast kaupgetuna,“ sagði blaðið. Hvað munar þessa menn um að hafa endaskipti á sannleikanum? Hvað varðar þá um það, þótt höfuðstefna stj. sé sú að auka kaupgetu landsmanna með því eina móti, sem hægt er að auka hana, með aukinni framleiðslu? Hvað munar þá um, þessa menn, að halda því fram gegn betri vitund, að hægt sé að auka raunverulega kaupgetuna með því að hækka kaupið á pappírnum, þótt framleiðsluverðmætið, sem á bak við stendur, standi í stað eða fari minnkandi? Hvað varðar það þessa menn, þótt beztu menn alþýðusamtakanna í helztu menningarlöndum séu önnum kafnir við að flytja alþýðu þessara landa þau sannindi, að fölsk kaupgeta, sem orsakar vöruskort, svartan markað, truflun á fjárhagskerfinu og atvinnuleysi, sé ekki í þágu verkalýðsins, heldur hans versti fjandi? Í þessum löndum er kommúnistum einum látinn eftir rógurinn um þá, sem neita að segja verkalýð og launastéttum ósatt um þessi mál. Hér sýnast hins vegar sumir talsmenn Alþfl. á því stigi í þessum efnum, að þeir mundu ekki teljast nothæfir málsvarar verkalýðsins í nálægum menningarlöndum. Þetta ástand er alvarlegt þjóðfélagsvandamál.

Það verður úr þessu botnlaus þvæla. Annað veifið er verið í stjórn, hvatt til gætilegrar fjármálastefnu, jafnvel lögbundið kaup eða bönnuð kauphækkun eftir vísitölu, vafalaust af sannfæringu fyrir því, að það sé verkalýðnum fyrir beztu. Í hinni andránni eru mennirnir í stjórnarandstöðu. Þá eru fluttar alveg allt aðrar kenningar — krafizt vísitöluskrúfugangs mánaðarlega, sem þá á að vera óbrigðult til velmegunar og aukningar kaupgetu, og það alveg án tillits til þess, hvort nokkuð er hægt út úr framleiðslunni að pressa án gagnráðstafana, sem éta allt upp aftur eða meira.

Ég kemst ekki hjá því að benda á þetta, og hefði þó gjarnan viljað komast hjá því. En ég kemst ekki hjá því vegna þess, að þessir menn hafa verið að rægja mig sérstaklega fyrir það að benda þjóðinni á grundvallaratriði þessara mála og samhengið í þeim, með sömu rökum og þeir gera, þegar þeir eru allsgáðir pólitískt, og með sömu rökum sem þeim hliðstæðir menn í nálægum löndum nota til þess að vinna gegn skemmdarstarfsemi kommúnista í verkalýðshreyfingunni og rógi þeirra. Hvers vegna er ekki hægt að móta hér í þessum málum fasta stefnu, sjálfri sér samkvæma, eins og í hinum löndunum, sem mundi fletta fylginu af kommúnistum í stað þess að slá fæturna undan sjálfum sér annað hvert ár eða svo, eins og forkólfar Alþfl. sumir gera hér? Er það svo freistandi að snúa út úr fyrir fjmrh.? Er það svo líklegt til pólitísks fylgis að halda fram annarri eins fjarstæðu og þeirri, að fjmrh. vilji, að kaupgeta þjóðarinnar sé sem minnst, að til þess að koma slíku fjasi á framfæri sé tilvinnandi að snúa öllum staðreyndum við og brjóta niður það, sem menn þurfa sjálfir að standa á í baráttunni fyrir lýðræðisstefnu gegn kommúnisma? Ætli Gerhardsen, forsætisráðherra Norðmanna, hafi beitt sér gegn greiðslu mánaðarlegrar vísitöluuppbótar í Noregi til þess að hálda niðri raunverulegri kaupgetu alþýðu Noregs? Ætli sænskir verkalýðsforingjar hafi trúað því, að þeir gætu raunverulega aukið kaupgetu sænskrar alþýðu með því að taka upp vísitölukerfið, og þess vegna hafi þeir forðazt það? Ætli þeir Attlee, Bevan og Stafford Cripps hafi staðið gegn kauphækkun í Bretlandi hvað eftir annað og notað herinn til þess að eyðileggja verkföll kommúnista og þeirra manna, sem hugsa eins og Hannibal Valdimarsson gerir núna, af því að það hafi veríð þeirra áhugamál að minnka kaupgetu brezks almennings? Hvað heldur svo Hannibal Valdimarsson og hinir, að kommúnistarnir í Bretlandi hafi sagt um þessa menn? Ætli það hafi ekki eitthvað verið minnzt á, að þeirra áhugamál væri að halda niðri kaupgetu alþýðunnar? Halda þessir hv. þm., sem hér tala um þessi mál eins og út úr poka, að alþýðan á Norðurlöndum og á Bretlandi væri betur farin, ef farið hefði verið að ráðum kommúnista? Halda þeir, að betur hefði farið, ef menn hefðu bognað í þessum löndum eins og hér fyrir rógi kommúnista um alla kaupgetuna, sem menn færu á mis við með því að láta undir höfuð leggjast að nota vísitöluskrúfuganginn, sem kommúnistar vita vel, að skrúfar sundur þjóðfélagið og er af þeirri ástæðu einni í uppáhaldi hjá þeim.

Það verður aldrei nógsamlega fyrir mönnum brýnt að gerast ekki sínir eigin böðlar og láta ekki pólitískt ofstæki blinda sig þannig, að menn vinni þeim málstað tjón, sem þeim er trúað fyrir.

Stjórnin hefur gert allt, sem í hennar valdi hefur staðið, til þess að sporna gegn dýrtíð. Auðvitað er henni um megn að ráða verði innfluttra nauðsynja, og talsverð verðhækkun hlaut að verða vegna gengislækkunarinnar. Laun hafa einnig hækkað nokkuð. Ríkisstj. hefur haldið verzlunarálagningu lægri en nokkur dæmi eru til áður í sögu landsins og hefur miðað ráðstafanir sínar við að geta bætt verzlunina, tryggt mönnum nauðsynjar með réttu samkeppnisverði í stað vöruskorts, svarta markaðsins og okursins, sem fylgir hinni fölsku kaupgetu og verðbólgunni. Það, sem nú ríður mest á, er að forðast atvinnuleysið, auka framleiðsluna. Takist það, kemur grundvöllur fyrir kauphækkunum, sem gera gagn, auka kaupgetuna. Almenn kauphækkun nú gæti ekki orðið til annars en að draga úr framleiðslunni og auka atvinnuleysi. Það þýðir, að byrðunum yrði velt yfir á þá, sem ótryggasta hafa afkomuna, erfiðleikarnir legðust þar á, sem sízt skyldi.

Hv. ræðumaður kommúnista, Lúðvík Jósefsson, var að tala um nýsköpunina. Það þarf nú ekki neitt að deila um það, reynslan hefur sýnt það, svo að ekki verður um deilt, að hún hefur mistekizt mjög hrapallega. Það þarf ekki annað en gera sér það í hugarlund, hvernig hér hefði verið ástatt í landinu, ef Marshallhjálpin hefði ekki komið til. Því lýsti hv. form. Alþfl. áðan, og hann nefndi atvinnuleysi og hrun í því sambandi.

Hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, talaði um Marshallaðstoðina og að Marshallauðvaldið væri að skipuleggja atvinnuleysi á Íslandi og halda niðri kjörum manna. Það er dálítið einkennileg aðferð; sem Marshallauðvaldið hefur til þess. Aðferðin er sú, að gefa Íslandi 253 milljónir, þar á meðal fé til þess að koma upp stærstu fyrirtækjum sem Íslendingar hafa ráðizt í, nefnilega Sogs- og Laxárvirkjununum og áburðarverksmiðjunni. Þeir menn eru ekki vandir að virðingu sinni, sem bera sér svona fullyrðingar í munn. Leiðtoginn hafði 20 mínútur til umráða, og þær fóru í þetta að mestu.

Kommúnistar hafa verið nánast utangátta í þessum umr. Þeir syngja þennan sama söng um markaðina, viðlagið er að finna í stefnuyfirlýsingu þeirra í Marshallmálunum. Í henni stendur þetta:

„Hafizt sé handa til þess að ná sem víðtækustum viðskiptasamningum til langs tíma við þau lönd, sem hafa skipulagðan þjóðarbúskap og kreppan nær ekki til, á grundvelli hagkvæmra vöruskipta, þannig, að hægt sé að tryggja örugga sölu og að fáist sem hæst verð fyrir sem mest magn af íslenzkum afurðum langt fram í tímann,“ o. s. frv.

Þetta er nú að ýmsu leyti upplýsandi yfirlýsing um hugsunarhátt og fyrirætlanir kommúnista. Höfuðmarkmiðið er að innleiða Ísland í hagkerfi Sovét-Rússlands og tengja Ísland við föðurland þeirra kommúnistanna sem traustustum böndum. Það er engin tilviljun, að tvisvar í einni setningu er talað um langan tíma. „Til langs tíma“ stendur fyrst, og „langt fram í tímann“ segir svo aftur, til þess að enginn skuli efast um, hvernig þetta eigi að vera. Ætli Íslendingar öfundi nú mikið t. d. Tékka og Pólverja, sem hafa hlotið þessi örlög? Ég held ekki. Ég held, að þeim fari nú fækkandi, sem styðja kommúnista hér, þar sem það skýrist alltaf betur og betur, hver þeirra fyrirætlun er. Þetta skýrist af því, að Rússar heimta nú meiri og berari þjónustu af leppum sínum alls staðar en áður.

Það er dauft yfir kommúnistum núna. Það kemur til af tvennu. Þeim finnst þeir standa fáklæddari en áður frammi fyrir mönnum, þeir hafa verið neyddir til að sýna betur en áður undir gærufeldinn, og þeir kvíða afleiðingunum. Hin ástæðan er sú, að það er engum manni gefið til langframa að taka sterkan og málefnalegan þátt í baráttu um vandamál liðandi stundar, sem innst inni fyrirlítur þessi mál, — sem innst inni hugsar: því vitlausara, því betra, — þar sem allt að hans dómi er botnlaust díki, óbotnandi fen og lausnin aðeins ein: að skapa enn meiri upplausn í þeirri von, að menn leiti heim, heim í kerfið, til trausts og halds langt fram í tímann.

Hvernig á að verða nokkurt gagn að þessum mönnum? Enda er útkoman eftir þessu. Tökum bara dæmi um það, sem við erum helzt að ræða um núna, út í hvaða endileysu þetta leiðir. Ég benti á það í fyrrakvöld, að kommúnistar hefðu áður heimtað yfirráð gjaldeyris til útvegsmanna, en nú, þegar það gerist, segja þeir það útvegsmönnum og fiskimönnum einskis virði, það sé gróði heildsalanna. Í kvöld hafa þeir tveir hv. þm. kommúnista veríð að reyna að klóra yfir þessa háðungarafstöðu, en engan árangur hefur það borið. Eins og mönnum verði ekki gjaldeyririnn að gagni til kaupa á eftirsóttum vörum án verðlagseftirlits, þótt hver einstakur útvegsmaður flytji ekki út, heldur selji gegnum sölusamtök? Hann á réttinn til gjaldeyrisins, og sá réttur verður ekki af honum tekinn. Hæstv. atvmrh. hefur upplýst í umr., að bankalán verði aukin, og framselji menn rétt sinn í þessu sambandi, þá gera menn það ekki nema þeir fái það gjald fyrir, sem þeir sætta sig við. Skrípaleikur kommúnista í þessu máli hefur verið afhjúpaður, og þetta ætti að kenna þeim að forðast í leikaraskap sínum þau úrræði, sem til greina geta komið yfirleitt; þá geta þeir frekar komizt hjá því að verða sér til minnkunar, eins og nú hefur hent.

Í þessum málum er annar þáttur, sem einnig sýnir, hvernig þeir vinna, sem eru að drepa tímann með sjónhverfingum, þangað til þjóðin kemst í „kerfið“. Hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, flutti í vetur frv., sem átti að leysa öll þessi mál. Útgerðarmenn áttu að fá gjaldeyri til vörukaupa, en þeir áttu að vera háðir sömu verðlagsákvæðum og giltu. Bátaútvegsmenn áttu að taka verzlunargróðann. Jú, þetta leit laglega út, og engan mátti heldur styggja, því að það er höfuðdyggð sjónhverfingamannsins í þessu tilliti, að allir eiga að fá allt, en enginn að láta neitt. En hvað var í raun réttri látið uppi með þessu? Á sama tíma og Einar Olgeirsson flutti þetta frv. þöndu þeir félagar hans, forráðamenn KRON, þeir Ísleifur Högnason og Sigfús Sigurhjartarson, sig á milli stjórnardeildanna og sýndu fram á, að verzlunarálagningin væri svo lág, að engin verzlun mundi geta borið sig, ekki einu sinni KRON, álagningin nægði ekki fyrir dreifingarkostnaði. Þetta var það þá, sem Einar Olgeirsson bauð útgerðarmönnum og fiskimönnum í frv. sínu, sem átti að leysa vanda þeirra. En þetta leit laglega út, var glæsilegt númer á sýningarskrá sjónhverfingamannsins.

Svona er þetta allt á sömu bókina lært. Hvaða gagn er að þessum mönnum á Alþingi? Því er nú auðsvarað, það sjá nú fleiri og fleiri svarið við þeirri spurningu. Þeir geta engra fulltrúar verið með rétti nema þeirra, sem bíða eins og þeir eftir innlimun í kerfið. Þetta vita kommúnistar. Línurnar skýrast. Sjónhverfingarnar duga verr og verr, enda er allt of mikils krafizt af mönnunum handan við tjaldið til þess að lengur verði leynzt. Þess vegna eru kommúnistar daufir núna, og það veit á gott.