08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

123. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Í frv. þessu er lagt til að gera lítils háttar breyt. á einni grein í lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í þeirri grein eru ákvæði um ávöxtun á fé sjóðsins, og þar segir m.a., að það megi lána fé úr sjóðnum gegn veði í fasteignum, en þau fasteignalán, þótt tryggð séu með 1. veðrétti, megi ekki fara fram úr 60% af fasteignamati. Eins og nú er ástatt um verðmæti fasteigna, miðað við gangverð þeirra, þykir ástæða til að breyta þessu og fella burt þetta ákvæði um 60%, en setja í staðinn, að um lánveitingu fari eftir því, sem nánar verði ákveðið í reglugerð.

Nefndin hefur athugað þetta, og eins og fram kemur á þskj. 294, er hún sammála um að mæla með, að frv. verði samþykkt.