27.10.1950
Efri deild: 10. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

5. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég býst við, að það þýði lítið, að við frsm. meiri og minni hl. þessa máls ræðumst við hér í d. um þetta mál. Það hefur hvor sína stefnu í þessu, og hvorugur sannfærir hinn. Ég ætla heldur ekki að fara út í ræðu hv. 1. landsk. að ráði. Ég lýsti eftir því í minni ræðu, að hann benti á önnur úrræði í þessum efnum, en þau heyrðust ekki koma fram hjá honum. Annars var það ein setning í ræðu hv. þm., sem vakti athygli mína og ég er sammála. Hann segir, að þetta frv. sé afleiðing af þeirri heildarstefnu, sem fylgt hafi verið. Ég er þessu sammála, en þetta tekur til miklu lengri tíma en síðan núverandi ríkisstj. tók við völdum. Það hefur nefnilega afar lengi verið fylgt þeirri stefnu, að miklar tekjur eru nauðsynlegar fyrir ríkissjóðinn, vegna þess að á hann hlaðast mikil útgjöld, og þetta átti sér stað ekki hvað sízt meðan hv. þm. sat í ríkisstj., og hans starfsgreinar urðu, ekki síður en aðrar, fjárfrekar til ríkissjóðs. Það er langt frá, að ég álíti þetta til lasts, sumt af því var mjög þarft, en það er þó þannig, að þegar þegnarnir krefjast mikils af ríkinu og ríkið fær á sig fleiri og fleiri byrðar, meira og minna þjóðinni til hagsbóta, þá verður ríkið að krefjast meiri gjalda af þegnunum. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann skýra það, að peningar kæmu í ríkissjóðinn af sjálfu sér, sem væri hægt að verja til útgjalda ríkísins, — þeim t.d. rigndi og rigndi úr loftinu, þegar á þeim þyrfti að halda. Það getur verið rétt, að einhver hafi talað um ranga skráningu íslenzku krónunnar í sambandi við þessi lög, þegar þau fyrst voru sett, og getur það verið rétt út af fyrir sig á þeim tíma. En það er bara að stefnan er sú sama alltaf, að það bætast fleiri og fleiri gjöld á ríkissjóðinn. Fjárlagafrv. sýnir sig. Og ég tel, að það sé fyrir alla hv. þm., hvar í flokki sem þeir standa, með öllu óforsvaranlegt að leggja til, að þeir tekjustofnar, sem hér um ræðir, falli niður, nema þá því aðeins, að fluttar séu till. um aðra tekjustofna eða þá tilsvarandi sparnað. Ef slíkar till. koma frá hv. þm., þá er hægt að ræða um það við hann. En hitt, að segja í hvert sinn sem rætt er um tekjuöflun fyrir ríkissjóð: Ég er á móti þessu, — og svo í hvert sinn sem rætt er um útgjöld úr ríkissjóði: Ég er með þessu, — það kann að vera vinsælt, — ég skal ekki segja um það —, en það er samt pólitík, sem er ekki hægt að reka á ábyrgan hátt. Það vita allir, og þessi hv. þm. mjög vel.