14.12.1950
Efri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

9. mál, tekjuskattsviðauki, lækkun skatts af lágtekjum o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Umr. um þetta mál var frestað í nótt, vegna þess að hæstv. fjmrh. gekk af fundi, eftir að hafa gefið þær upplýsingar, sem hann áleit rétt að gefa í málinu og voru byggðar á því, að ég misskildi málið frá grunni. Í sambandi við þetta vil ég benda honum á, að til eru l. frá 25. maí 1949, þar sem þetta stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé skatturinn eigi greiddur innan mánaðar frá gjalddaga, skal greiða dráttarvexti, 1/2% fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði, sem greiðsla dregst.“

Þetta gildir um tekjuskattsl. yfirleitt, þannig að ég álít, að það sé hæstv. ráðh., sem byggir sinn málflutning á misskilningi, en ekki ég, og ef það er álitið, að 1/2% dráttarvextir nægi til þess að innheimta tekju- og eignarskatt, hvers vegna er þá talið nauðsynlegt að hafa ákvæði um 1% dráttarvexti til þess að tryggja innheimtu á tekjuskattsviðauka? Mér eru óskiljanleg rök hæstv. ráðh., og ég efast um, að honum sé leyfilegt að bera slík rök á borð fyrir hv. Alþ. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. ekki svarað meginrökunum, sem ég færði fyrir því, að dráttarvextir ættu að lækka, og kom hann þar ekki nálægt kjarna málsins. Hér er um það að ræða, að rísi ágreiningur um greiðslu á skatti, getur svo farið, að viðkomandi aðili verði að gera annaðhvort, að greiða alla upphæðina upp og láta hana liggja vaxtalausa, þar til dómur fellur, sem kann að taka langan tíma og stundum mörg ár, eða greiða 12% á ári af skattupphæðinni, sem hann á sínum tíma getur verið dæmdur til að greiða, og ef slíkur ágreiningur stæði í 4 ár, væri búið að greiða 48% af aðalskattupphæðinni, af því að viðkomandi aðili hefur orðið að leita úrskurðar dómstólanna um það, hvort skattaálag hans sé rétt eða rangt. Þetta er kjarni málsins, og undir slíkum kringumstæðum er engan vegiim viðeigandi, að Alþ. gefi út slík l., nema á þessu verði gerð sú breyt., að þegar um ágreining sé að ræða, skuli ekki greiða dráttarvexti nema frá þeim degi, sem dómur féll. Ég vil þess vegna vænta þess, ekki aðeins að hv. d. sjái sér fært að fylgja þessari till., heldur að hæstv. fjmrh. óski eftir, að hún verði samþ., en allt, sem hann bar fram í þessu máli, var hrein rakaleysa. Ríkissjóður hefur rétt til að ná þessum gjöldum hvenær sem er, en það hefur verið gengið langtum lengra í þessum efnum. Skattinnheimtunni er nú þannig háttað, að atvinnurekendur verða að vera innheimtumenn fyrir ríkissjóð, án þess að fá nokkra þóknun fyrir, á sama tíma, sem hið opinbera telur sig þurfa að fá 2–11% fyrir að innheimta sín gjöld, og má í þessu sambandi benda á innheimtu útvarpsins. Ríkissjóður hefur allan rétt til þess að innheimta þessi gjöld, þar sem hann hefur forgangsrétt fyrir 1. veðréttarkröfu, og það er því hrein rangsleitni að ákveða 1% dráttarvexti á þessar skuldir.

Það var heldur ófögur lýsing, sem hv. 11. landsk. (ÞÞ) gaf á kjósendum sínum, því að hann gat ekki átt við neina aðra, þar sem hann hefur ekki afskipti af þessum málum nema í kjördæmi sínu, en þar er hann innheimtumaður þessara gjalda fyrir ríkissjóð, og furðar mig satt að segja ekki á því, að hann skyldi kolfalla við síðustu kosningar, ef það eru margir menn með slíkan hugsunarhátt í Dalasýslu, sem — eins og hann lýsti — höfðu í frammi alls konar svik og pretti til þess að koma sér undan skattinnheimtu hjá honum, og þess vegna taldi hann nauðsynlegt að hafa dráttarvextina nógu háa, til þess að menn þrjózkuðust síður við að greiða skatta sína.

Ég ætla ekki að lengja umr. frekar. Ég vil vona, að hæstv. ráðh. falli frá kröfum sínum um 1% dráttarvexti á mán. í frv. og hv. deild samþ. mína till. um 1/2%.