13.10.1950
Sameinað þing: 3. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

1. mál, fjárlög 1951

Gísli Jónsson:

Fjmrh., Eysteinn Jónsson, hefur nú lagt fyrir Alþingi frv. til fjárlaga fyrir árið 1951. Liggur það hér til 1. umr., og hefur ráðh. fylgt því úr hlaði með ýtarlegri framsöguræðu, eins og venja er til. Ég mun ekki nota þann tíma, sem mér er ætlaður hér, til þess að karpa um aukaatriði eða um það, hverjum hitt eða þetta, sem miður hefur farið í meðferð fjármála ríkisins að undanförnu, sé að kenna, heldur dvelja meira við hitt, hvaða stefnu berí nú að marka, miðað við ríkjandi ástand í atvinnumálum og fjármálum þjóðarinnar, og þær breytingar, sem hafa orðið á fjárhagskerfi landsins í heild, og hvernig takast megi að afgreiða á þessu þingi viturleg og sanngjörn fjárlög, þar sem jafnt tillit er tekið til þarfa þjóðfélagsins og gjaldþols þegnanna, því að mér er vel kunnugt um, að það er þessi kjarni málsins, sem þjóðin vill að tekinn sé til meðferðar við yfirstandandi umræðu, svo að hún fái nokkra hugmynd um, hvers vænta megi í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna.

Mér er vel ljóst, að það er mikill vandi fyrir fjmrh. að semja slíkt fjárlagafrv. og fyrir fjvn. og Alþingi að afgreiða slík fjárlög, en vandinn verður þess minni sem viljinn til þess að leysa verkið af hendi þannig er meiri, og sé hann slíkur, að hinar mismunandi skoðanir flokkanna á lausn einstakra vandamála verði að víkja fyrir honum, er allt auðveldara um heilladrjúgan árangur.

Það verður sjálfsagt enginn ágreiningur um það, að gjaldabálkur fjárlagafrv., að upphæð um 285 millj. kr., er þegar allt of hár. Og þó er mér ljóst af margra ára reynslu, að fjöldi erinda á eftir að koma til fjvn., sem auka munu þessa upphæð um milljónatugi, ef mæta á þeim að fullu. Um hitt verður heldur ekki deilt, að tekjurnar, að upphæð um 290 millj. kr., eru engan veginn nógar til þess örugglega að mæta ófyrirsjáanlegum útgjöldum á árinu og tryggja raunverulega greiðsluhallalausan rekstur ríkisins, en það þarf jafnan að vera lágmarkskrafa í ríkisrekstri, nema einhver sérstök atriði réttlæti annað. Og þó má öllum vera ljóst, að tekjubálkurinn ofbýður gjaldþoli þegnanna, eins og atvinnumálunum er nú komið, nema eitthvað alveg sérstakt komi til. Þegar svo er komið, er krafa þjóðarinnar fyrst og fremst sú, að ráðizt verði á gjaldabálkinn, útgjöld ríkissjóðs verði skorin allverulega niður.

Þessi krafa þjóðarinnar er að sjálfsögðu eðlileg og sanngjörn, svo langt sem hún nær. En málið er ekki eins auðvelt og margur hyggur. Það er ekki hægt að láta sláttuvél renna yfir akur fjárlagafrv.

og slá „allt hvað fyrir er“. Þar vaxa hlið við hlið bæði lífgrös og illgresi, og vandinn er að aðskilja þetta, fjarlægja það, sem óþarft er og miður skyldi, án þess þó að torvelda eðlilega þróun þess, sem lifa skal og lifa verður. Það eru engin búhyggindi í því að skera það niður og draga úr því, sem vitanlega gefur margfalda uppskeru, jafnvel þótt hún komi ekki á fyrsta ári, en undir þetta fellur fjöldinn allur af útgjaldaliðum fjárlaganna, svo sem framlög til samgangna á sjó, landi og í lofti, framlög til landbúnaðarmála, sjávarútvegsmála og annarra atvinnumála, framlög til heilbrigðismála, skólamála og félagsmála. Hinar ævintýralegu framfarir á öllum sviðum þjóðlífsins á þessari öld og hin stórlega bættu lífskjör er ávöxtur þeirrar víðsýni, sem ríkt hefur á Alþingi á þessum málum. Það er hvorki vandalaust né viturlegt að hætta að hlúa að þeim málum, þótt hitt sé rétt, að gæta beri hófs eftir því, hvert gjaldþol þegnanna er á hverjum tíma. Það eru heldur ekki framlög til þessara mála almennt, sem þjóðin vill að skert verði svo nokkru nemi, þótt nokkur ágreiningur sé um einstök atriði þeirra. Meginkrafan er hin, að allur kostnaður við embættisrekstur ríkisins verði færður niður í stórum stíl, þótt vitað sé, að þetta sé miklum erfiðleikum bundið. Fjárveitinganefndir allra ára og fjöldi alþm. hafa jafnan tekið mjög undir þessa kröfu og ítrekað hana við hverja ríkisstjórn, allt síðan árið 1943, án þess að nokkur árangur sé enn sjáanlegur, nema síður sé. Nú hefur fjmrh. lýst yfir því, að hér verði á allveruleg breyting í framtíðinni, og er það vel. En meginástæðan fyrir því, að hér hefur engu verið um þokað, er sú, að samfara þessu hefur jafnan verið krafizt, að Alþingi og ríkisstj. hefði meiri og meiri afskipti af atvinnu- og viðskiptamálum þjóðarinnar og seildist þar beinlínis meira og meira inn á svið einstaklinganna. Meiri hluti þings og þjóðar hefur talið þá stefnu rétta og því látið undan þeim kröfum. — Þessi stefna hefur þanið ríkisbáknið verulega út, gert það erfiðara, flóknara og margfalt kostnaðarmeira, án þess jafnframt að tryggja jafnmiklar eða meiri tekjur af rekstrinum. Skuldalisti sá, sem fjmrh. las hér upp, að upphæð alls 85,6 millj. kr., auk þeirra ábyrgða, sem ríkissjóður nú er í vegna þessarar stefnu, sem hér hefur þróazt á síðari tímum, sýnir bezt hvert stefnir um fjármál ríkisins, ef ekki er nú þegar spyrnt hér við fótum.

Sjálfstfl. hefur jafnan varað við þessari þróun málanna, bæði á Alþingi, almennum fundum og í málgögnum sínum, og hann varar við henni enn. Honum er ljóst, að því lengra sem haldið er á þessari braut, því erfiðara verður að halda niðri kostnaðinum við ríkisreksturinn, því erfiðara að afgreiða viturleg og sanngjörn fjárlög og því erfiðara að tryggja greiðsluhallalausan rekstur ríkisins. —Sjálfstfl. er vel ljóst, að þessi stefna bætir ekki lífskjör almennings í landinu. Hún lamar sjálfsbjargarviðleitni einstaklingsins og ábyrgðartilfinninguna og kennir honum að krefjast meira og meira af öðrum, en minna og minna af sjálfum sér, þar til öllum áhyggjum er kastað á ríkissjóðinn, sem sjálfsagt er talið að hafi alla forsjá fyrir þjóðinni. Þar sem slíkri þjóðfélagsbreytingu hefur verið komið á, eru lífskjör þegnanna á engan hátt betri, nema síður sé, enda er þá frelsinu fórnað fyrir forsjá þess opinbera. Mundi mörgum Íslendingum þykja það ömurleg umskipti, ef hann sjálfur ætti við þau að búa.

Á ábyrgð ríkissjóðs er í dag rekin banka- og lánastarfsemi, sem þó að mestu leyti er í daglegum rekstri óháð Alþingi og ríkisstjórn og þarf ekki einu sinni að lúta ákvæðum launalaga um greiðslur til starfsmanna sinna, og gætu því vel hafið kapphlaup við ríkissjóðinn um launagreiðslur, enda dæmi til þess, að gildandi launagreiðslur þar hafi verið notaðar sem meðal til að hækka laun annarra starfsmanna ríkisins. — Ríkissjóður rekur póst, síma og útvarp. Gilda allt aðrar reglur um það fé, sem þessar stofnanir ráða yfir, en um fé ríkissjóðs almennt. Hér er keypt og selt og látið af hendi, lánað og tekið að láni eftir allt öðrum og losaralegri reglum en þeim, sem gilda um ríkisfé að öðru leyti. Og þess vegna gátu þau undur skeð, að póstsjóður tók að sér fólksflutninga og réðst þar alveg að þarflausu inn á svið einstaklinga, sem rekið höfðu þetta með ágætum. Starfsemi þessi kostaði póstsjóðinn milljóna fjárfestingu og nokkur hundruð þúsund króna tap á ári hverju, þar til Sjálfstfl. fékk aðstöðu til þess að leggja reksturinn niður og afhenda hann á ný til einstaklinga.

Ríkissjóður rekur í dag landssmiðju, trésmiðju, prentsmiðju, fiskiðjuver, síldarverksmiðju, tunnuverksmiðju og landbúnað. Flest af þessu væri miklu betur komið í höndum einstaklinga. Eiga flest þessi fyrirtæki í megnustu erfiðleikum fjárhagslega, og þó einkum þau, sem keppa verða á frjálsum markaði við einstaklingana. Ríkissjóður rekur skipaútgerð með milljóna rekstrarhalla, sem tekinn er með sköttum af alþýðunni. Keppt er við einstaklinga um flutning á fólki og farangri umhverfis landið og landa á milli, þótt aðstaða aðila sé allólík. Og ríkissjóður rekur verzlun í stórum stíl, en hér er þess gætt að tryggja honum einokunaraðstöðu, svo að hvort tveggja er fyrirbyggt, áhætta af rekstri og samanburður við frjálsa samkeppni.

Rekstur sumra þessara fyrirtækja er tekinn á fjárlög, en annarra ekki. öll eiga þau sammerkt um það, að sé tap á rekstrinum, meira en þau sjálf fá undir risið, fær ríkssjóðurinn að bera hallann. Sé hins vegar gróði, fer hann að jafnaði í nýjar fjárfestingar eða sjóði, er fyrirtækin sjálf ráða yfir. Til rekstrarþarfa ríkissjóðs er lítið eða jafnvel ekkert greitt, nema frá einkasölunum, sem notaðar eru sem skattstofn fyrir ríkið. Flest eiga þau sammerkt með það að torvelda greiðsluhallalaus fjárlög, að einkasölunum undanskildum. Fæst greiða nokkurt framlag á móts við skatta, sem á væru lagðir, ef þau væru rekin af einstaklingum. Flest eiga þau sammerkt um það, að losaralegri reglur gilda um fé það, sem í þeim er bundið, en um fé ríkissjóðsins og að stjórn þeirra og fjárhagslegt eftirlit er miklu veikara en vænta mætti um fyrirtæki, sem velta milljónum árlega, og sækja sum hver stórar fjárfúlgur í ríkissjóðinn til greiðslu á hallarekstri.

Ofan á allt þetta er þess krafizt, að ríkisvaldið hafi eftirlit svo að segja með hverjum þeim athöfnum, sem enn eiga að teljast frjálsar í þessu landi. Það eitt út af fyrir sig kostar mörg og dýr ráð, margar og dýrar nefndir, marga og dýra menn, sem betur væru komnir í framleiðslu landsins. Svo lengi sem Alþingi viðheldur þessu kerfi, sem umboðsmenn meiri hluta þjóðarinnar hafa komið á, verður fjmrh. að ætla nægilegt fé á fjárlögum til að standast allan kostnað við reksturinn og skattþegnarnir að bera byrðina.

Eins og ég tók fram áðan, hefur Sjálfstfl. sí og æ varað við þessari stefnu og þessari þróun í viðskipta- og atvinnumálum þjóðarinnar, og hann varar við henni enn. En þjóðin hefur ekki gefið honum nægilegt fylgi til þess að hann einn geti markað hér aðra og hollari stefnu og komið á nauðsynlegum umbótum, á sama hátt og hann hefur nú gert í sérleyfisrekstrinum og þannig létt af þjóðinni milljóna skattaálögum. En hann er fús til þess að hafa samvinnu um slíkar umbætur við núverandi samstarfsflokk í ríkisstj. og á Alþingi. — Um afstöðu andstöðuflokka ríkisstj. til þessara mála þarf ekki að ræða, það er svo ljóst, hvað þeir vilja í þeim málum. Þeirra takmark er meiri ríkisrekstur og meiri höft, hversu dýrt sem það reynist fyrir ríkissjóðinn og þjóðina, sbr. þáltill. á þskj. 16, þar sem þess er krafizt, að ríkissjóður taki að sér rekstur togaranna og greiði hallann, ef ekki tækist að fá samkomulag um kaup og kjör sjómanna byggt á því, að ýtrustu kröfum þessara manna verði jafnan mætt, eins og þeir telji sér þær nauðsynlegar á hverjum tíma. Má fara nærrí um, hvaða afleiðingar slíkt hefði á afgreiðslu fjárlaganna, ef tillagan nær fram að ganga þannig.

Sjálfstfl. hefur hvað eftir annað gert tilraun til þess að færa saman ríkisbáknið og lækka þau útgjöld, sem því eru samfara. Fyrrv. fjmrh., Jóhann Þ. Jósefsson, gekkst fyrir því í stjórnartíð Stefáns Jóh. Stefánssonar, að skipuð yrði nefnd manna til þess að gera tillögur um þessi mál. Nefndin safnaði mörgum mikilvægum upplýsingum, og frá henni og fjvn. komu fram margar tillögur til bóta, byggðar á starfi nefndarinnar, og að síðustu merk tillaga frá fjmrh. um ríkisráðsmann. En flest af þessu náði ekki fram að ganga, þar á meðal frv. ráðh., vegna beinnar andstöðu allra andstöðuflokka Sjálfstfl. á Alþingi. Þegar þriggja flokka stjórnin settist að völdum 1947, var það hennar fyrsta verk að senda fjvn. um 10 millj. kr. hækkunartillögur á fjárl. þess árs. Að ekki tókst samkomulag um það, að tillögur þessar yrðu teknar aftur, kom beinlínis til af því, að ráðherrar töldu virðingu sinni og metnaði því betur borgið, því meiri framlög sem þeir gætu tryggt úr ríkissjóði til framkvæmda í þeim ráðuneytum, sem þeir hver fyrir sig höfðu yfir að ráða. Einmitt þessi stefna hefur verið of mjög ríkjandi, að hver ráðherra haldi fast fram kröfum og óskum fyrir sitt ráðuneyti, án þess að hafa um þetta samráð við fjmrh. eða skeyta um, hvaða áhrif slíkt hefði á endanlega afgreiðslu fjárlaga, sem þeir telja, að fjmrh. og hans flokkur ættu einir að bera ábyrgð á. Á þennan hátt hafa allir ráðherrarnir raunverulega gert sig að meira eða minna leyti að fjármálaráðherrum og þó algerlega án ábyrgðar. Hefur þetta e.t.v. komið enn skýrar fram í daglegri afgreiðslu mála, og bera ríkisreikningarnir þess ljósastan vottinn. Andstæðingar Sjálfstfl., sem þó ávallt hafa gagnrýnt ýmsar gerðir fyrrv. fjmrh., telja þessi vinnubrögð eðlileg. Það væri fyrst og fremst skylda hvers ráðherra að sjá um sín mál, án tillits til afkomu ríkissjóðs á hverjum tíma, sem fjmrh. ætti einn að gæta og bera ábyrgð á. Ég tel hins vegar, að slík vinnubrögð séu mjög skaðleg. Ég tel, að um þetta verði að vera fullt samstarf á milli allra ráðuneytanna, hver svo sem kann að fara með fjármálin á hverjum tíma, og að einmitt það sé meginskilyrðið fyrir skynsamlegri afgreiðslu fjárlaga. Ég veit, að Sjálfstfl. er reiðubúinn til slíks samstarfs, þótt hann fari nú eigi með fjármálin.

Þegar núverandi ríkisstj. settist að völdum, var fyrsta og stærsta verkefni hennar að leysa aðkallandi vandamál í atvinnumálum og fjármálum þjóðarinnar. Eitt af því, sem samkomulag varð um, var að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög fyrir yfirstandandi ár. Hvort takast má að skila greiðsluhallalausum ríkisreikningi á þessu ári, er of snemmt að fullyrða nokkuð um, en líklegt þykir mér, að svo verði eigi. Verður fjmrh. eða ríkisstj. ekki sökuð um, þótt svo kynni að fara. Hér hafa að verki verið alveg óvænt og óviðráðanleg öfl. Sjávarafli hefur brugðizt svo að segja allt árið fyrir Vesturlandi, svo að til stórvandræða horfir fyrir þá menn, sem þann atvinnuveg stunda. Síldveiðin fyrir Norðurlandi hefur algerlega brugðizt í sjötta sinn. Er ljóst, hvaða gífurlegt tjón er að því fyrir alla aðila. Verðfall á saltfiski hefur orðið um 23% á erlendum markaði og bakað þjóðinni milljóna tap miðað við söluverð síðustu ára, verð á ísvörðum fiski í Bretlandi fallið svo, að farmar hafa selzt fyrir minna en hálfvirði á móts við það, sem bezt var áður, og Þýzkalandsmarkaðurinn á þessu ári glataður að fullu, ef togaradeilan leysist ekki tafarlaust. Hefði hann þó fært þjóðinni verulegar tekjur. Ótíð og illviðri hafa bakað íbúunum á Austur- og Norðurlandi milljónatjón, sem ríkissjóður hefur orðið að taka á sig að meira eða minna leyti. Og ofan á þetta allt hefur svo að segja allur hinn glæsilegi nýi togarafloti, sem kostaði þjóðina á annað hundrað milljónir og margvíslegar vonir um bætt lífskjör og bættan hag ríkissjóðs eru bundnar við, verið bundinn í höfn á fjórða mánuð, vegna deilu um kaup og kjör þeirra, sem á skipunum hafa starfað. Og þetta skeður á þeim tíma sem meðalkaup háseta á þeim fáu skipum, sem veiðar stunda, er talið að vera um og yfir 4 þús. kr. á mánuði. — Eru ekki þeir erfiðleikar, sem ég hef nú lýst og engir eru sjálfskaparvíti nema togarastöðvunin, nægilega miklir til þess að sameina þjóðina til varnar gegn þeim voða, sem hlýtur að steðja að, ef þjóðin lætur sér ekki skiljast það, að sú aðstaða er ekki lengur fyrir hendi, að erlendar þjóðir kaupi af oss mat og vinnu fyrir margfalt verð, eins og þær gerðu meðan þær börðust fyrir lífi sínu og frelsi og áttu þess einan kost að greiða fyrir þetta hvaða verð sem heimtað var? Þessar þjóðir hafa nú sjálfar snúið sér að friðarstörfum og framleiðslu matvæla í heiminum. Milljónir manna stunda nú fiskveiðar og fiskiðnað í stórum stíl við miklu lakari lífskjör og laun en sjómenn og verkamenn búa við hér og keppast við að selja framleiðslu sína á sama markaði og við seljum vora framleiðslu á. Skilst þjóðinni ekki, að það þarf eitthvað annað og meira raunhæft en verkföll og hærri kröfur til þess að vinna þetta tafl? En á því veltur þó framtíð þessa lands, að þetta tafl tapist ekki. Eru ekki þessir erfiðleikar, sem hér hefur verið lýst, nægilegir til þess, að samstarfsflokkarnir á Alþingi taki höndum saman í einlægni til þess að mæta vandanum? Sjálfstfl. vill að minnsta kosti gera sitt til þess, að svo mætti verða.

Það er ljóst, að slíkt árferði, er ég hef lýst, gat á engan hátt bætt úr gjaldeyrisskorti þjóðarinnar.

Það eitt að missa um 80–100 millj. í útflutningsverðmætum beinlínis vegna togaraverkfallsins hlaut að marka djúp spor, enda þótt frá þeirri upphæð beri að draga erlendan tilkostnað. Fólk um allar byggðir landsins, sem hungrar eftir nauðsynlegustu hlutum, tekur því að vonum ekki vel að verja 100 millj. kr. af dýrmætum gjaldeyri landsmanna til kaupa á framleiðslutækjum, sem síðan eru fryst inni í höfn, þar sem þau eyða áframhaldandi gjaldeyri í viðhald o.fl. í stað þess að afla hans.

Verzlunarjöfnuðurinn hefur einnig orðið óhagstæður af öðrum ástæðum, er vér höfum engin áhrif getað haft á. Svo að segja allar vörur hafa stigið í verði á erlendum markaði og þar á meðal matvörur, aðrar en fiskur, sem sumpart hefur fallið vegna vaxandi framboðs og sumpart vegna þess, að þjóðir, sem lifað hafa mestmegnis á fiski síðan í byrjun stríðsins, keppast nú um að ná í aðrar matartegundir, eftir því sem ástæður leyfa. Að allmiklu leyti stafa þessar verðhækkanir af ófriðarótta og ófriðarundirbúningi allra landa, þar sem allverulegur hluti manna og tækja er nú bundið við slík störf hjá þjóðunum. — Þetta ástand hefur líka haft sín víðtæku áhrif á verðlag hér á landi og aukið dýrtíðina meira en unnt var að gera ráð fyrir, þegar gengislögin voru samin, þótt andstæðingar ríkisstj. haldi því fram, gegn betri vitund, að verðhækkunin í landinu stafi öll af gengisfellingunni.

Andstæðingar Sjálfstfl. hafa á öllum tímum gagnrýnt fjármálastefnu flokksins og meðferð hans í fjármálum ríkisins, en eins og kunnugt er hafa sjálfstæðismenn farið með þessi mál í ríkisstjórn síðan 1939. Það gefst ekki tími til að fara mjög ýtarlega út í þetta atriði hér, en ég vil þó benda á, að þrátt fyrir þá ágalla á sjálfu kerfinu, sem ég þegar hef bent á, að fjmrh. er engan veginn einráður um þessi mál, hefur fjármálaráðherrum Sjálfstfl. þó tekizt að halda svo á málunum, að árið 1945 er tekjuafgangurinn á ríkisreikningnum 22,6 millj. og skuldlausar eignir 130,8 millj. 1946 er tekjuafgangurinn 28,4 millj. og eignirnar þá 164,8 millj., og í lok ársins 1949, skömmu áður en Sjálfstfl. lætur fjármálin af hendi, eru skuldlausar eignir ríkissjóðs um 180 millj. Á þessu tímabili hafa þó ýmis áföll komið fyrir, er ríkissjóður hefur orðið að greiða fyrir, margvíslegir erfiðleikar í atvinnurekstri, takmarkalítil kröfusókn fólksins á ríkissjóðinn og enginn samdráttur í verklegum framkvæmdum.

Fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er með 5,2 millj. kr. hagstæðum greiðslujöfnuði og 41,1 millj. króna rekstrarafgangi. Að lokinni þessari umræðu verður því vísað til fjvn., þar sem það fær venjulega athugun. Sé fjárlagafrv. borið saman við síðasta ríkisreikning, eins og venja er til, þar sem það jafnan er að allverulegu leyti samið með hliðsjón af raunverulegum tekjum og gjöldum þess árs, sést, að tekjurnar eru áætlaðar mjög svipaðar, en ýmsir gjaldaliðir að upphæð nærri 77 millj. króna, sem ekki hefur þótt ástæða til að taka inn á frv., felldir niður. Í þessari upphæð er um 48 millj. kr., sem greitt var vegna dýrtíðarmálanna 1949, en fellt er niður með lögum um gengisbreytingu. Er vel, að fjvn. og Alþingi geta fallizt á, að ekkert af þeim útgjöldum þurfi að takast upp að nýju. En rétt er að andstæðingar Sjálfstfl. hafi þetta hugfast, þegar þeir gagnrýna hann fyrir fjármálastjórnina, því að vitað er, að engum flokki þótti gerlegt að minnka þessar greiðslur á s.l. ári.

Ég hef reynt hér að bregða upp raunverulegri mynd af fjármálaástandinu, eins og það nú er, þegar Alþingi tekur við fjárlagafrv. til þess að ræða það, gera á því breytingar og senda það síðan frá sér sem gildandi fjárlög fyrir árið 1951. Hvernig sem þær niðurstöður kunna að verða, þá eru þær þó lítið annað en meira eða minna ónákvæmar áætlanir í ýmsum liðum, og þó einkum tekjuliðirnir. Hvernig þeir verða raunverulega og þá jafnframt hin raunverulega útkoma ríkisreikningsins næstkomandi ár, fer að sjálfsögðu nokkuð og allverulega eftir þeirri stefnu, sem Alþingi markar nú með afgreiðslu fjárlaga og annarri lagasetningu, en einnig ekki alllítið eftir árferði og ekki hvað minnst eftir því, hvað þjóðin sjálf vill á sig leggja til þess að bæta hag sinn út á við og inn á við; hvort t.d. allt lendir hér í deilum, sem skapa áframhaldandi stöðvun á framleiðslu, eða hvort tekin verði upp eðlileg, kappsamleg og frjáls framleiðslustörf á öllum sviðum atvinnulífsins. Viturleg fjárlög eru þau ein:

1. sem áætla tekjur svo varlega, að treysta megi tekjuöfluninni, jafnvel í erfiðu ári,

2. sem áætla gjöld þannig, að eigi sé þörf á aukagreiðslum, jafnvel þótt nokkur óhöpp steðji að,

3. sem þannig tryggja greiðsluhallalausa afkomu,

4. sem þrátt fyrir þetta íþyngja ekki gjaldþoli þegnanna, og

5. þar sem hin lífrænu mál, efnisleg og andleg, eru látin sitja í fyrirrúmi.

Fyrsta skilyrðið til þess að ná þessum árangri er að skapa meira frelsi með þjóðinni, og það er á valdi Alþingis. Æskan, sem er full af fjöri og lífsþrótti og á enga ósk heitari en að berjast fyrir því að halda hér uppi þeim lífsskilyrðum, sem bezt hafa þekkzt með þjóðinni, skilur ekki, hvers vegna verið er með lögum og reglugerðum að hefta athafnir hennar og framsókn. Ung hjón, sem eru að byrja búskap og leggja saman dag og nótt til þess að tryggja framtíð sína, skilja það ekki, að einhver skrifstofa í Reykjavík hafi meiri þekkingu á þörfum þeirra en þau sjálf. Bóndinn trúir hví ekki, að slík skrifstofa viti betur en hann sjálfur, hvað hann þarf af verkfærum, peningshúsum og bæjarhúsum og annað það, er til búrekstrar heyrir. Útgerðarmaðurinn trúir því ekki, að þessir menn viti betur en hann sjálfur, hvað þarf af veiðarfærum, bátum og vélum. Verkamaðurinn og sjómaðurinn skilja ekki, að þessir menn viti betur en þeir, hvað þeir þurfa af skóm og skjólklæðum, vettlingum og vinnufötum til þess að geta unnið verk sin, og húsmóðirin skilur ekki, að þessir menn viti betur en hún, hvaða áhöld eru nauðsynleg á heimili eða hvað nauðsynlegt er til að klæða og fæða fjölskylduna. Allt þetta fólk og margir aðrir krefjast þess, að dómgreind þeirra og fjárhagsgeta ráði því, hve langt sé gengið í einstökum atriðum, og að engin stofnun hafi þar óeðlileg afskipti af.

Verzlunarmaðurinn, sem keypt getur inn ódýrari og betri vöru en aðrir eða selt úr landi vörur fyrir hagkvæmara verð en aðrir, skilur ekki, hvers vegna hann má ekki vera frjáls um slík viðskipti, þjóð sinni til blessunar. — Framleiðandinn, sem raunverulega getur skapað ný útflutningsverðmæti eða sparað með nýrri framleiðslu innflutning, skilur ekki, að honum skuli bægt frá því að inna slík störf af höndum fyrir þjóð sína.

Sjómaðurinn, sem gengur í landi atvinnulaus og á þess kost að vinna sér inn 4–5 þús. kr. á mánuði, skilur ekki, að einhverjum angurgöpum skuli leyfast að stöðva hann og þvinga hann til áframhaldandi atvinnuleysis, og sama gildir um verkamanninn, sem atvinnulaus reikar um göturnar af sömu ástæðum. Bæir og sveifarfélög, sem sjálf eiga dýrmæt atvinnufyrirtæki og hafa heilan hóp af atvinnulausu fólki, skilja ekki, að það skuli ekki heimilt að starfrækja þau öllum aðilum til góðs. Þessi þjóðhættulega skerðing á atvinnufrelsi manna hlýtur að leiða til þess, að vinnulöggjöfin verði endurskoðuð og bætt svo, að tryggt verði, að fámennar stéttir geti ekki framvegis valdið stórkostlegum atvinnustöðvunum, svo og að aðilum sjálfum gefist tækifæri til að dæma um málin án íhlutunar manna, sem æsa til ófriðar, hvenær sem tækifæri gefst, til þess eins að skapa glundroða og vandræði í þjóðfélaginu. öll þessi höft og mörg önnur slík verður þingið að leysa og skipa málunum á eðlilegri hátt.

Annað skilyrði til þess að ná settu marki er, að Alþingi og þjóðin öll myndi samfellda heild til sóknar á sviði athafna, hverju nafni sem nefnast. Hver þegn þjóðfélagsins, sem ræður yfir fullri starfsorku, hvort heldur hann er embættismaður, verkamaður eða eitthvað annað, verður að vera sér þess meðvitandi, að það eru svik við þjóðina að starfa ekki fullan vinnudag. Og slík svik eru jafnalvarleg og jafndómsáfellandi, þótt ekki sé unnt að koma við viðurlögum í hverju einstöku tilfelli. Jafnfámenn og fátæk þjóð og Íslendingar, sem búa við hin hörðustu skilyrði frá náttúrunnar hendi, getur ekki leyft sér þann munað að vinna ekki langan vinnudag í hverju starfi. Langur vinnudagur með auknum afköstum mundi spara ríkissjóði milljónir í útgjöldum og gefa honum enn fleiri milljónir í tekjur.

Þriðja skilyrðið til að ná settu marki eru minnkandi afskipti ríkisvaldsins af þeim verkum, sem einstaklingarnir hafa betri skilyrði til að sinna.

Baráttumál Alþfl. við síðustu kosningar var einkum það að viðhalda hinu ranga gengi krónunnar og halda áfram síhækkandi uppbótum til atvinnuveganna. Ef fallizt hefði verið á þessa stefnu, mundi það hafa þýtt marga milljónatugi árlega í nýjum sköttum og endað að síðustu í hreinu gjaldþroti þegnanna, nema uppbótum til sjávarútvegsins hefði verið að fullu hætt. Var þá verð hvers síldarmáls fallið niður í kr. 40,00, og kíló fisks í 45–50 aura að óbreyttu gengi. Hve margir mundu hafa viljað fara á sjó fyrir þau kjör? Það verður ekki um það deilt, að þessi leið var lokuð, jafnvel áður en Alþfl. fór úr ríkisstj., sem þó sá engar aðrar útgöngudyr út úr erfiðleikunum. Mundi ekki gjaldabálkur fjárlagafrv. hafa orðið 1–2 hundruð millj. kr. hærri en nú, ef reynt hefði verið að halda áfram á þeirri braut að vilja Alþfl.? Sigurhreimurinn í málgögnum Alþfl. og Sósfl. yfir verðfalli ísl. afurða á erlendum markaði og verðhækkun erlendra vara í innkaupi, sem hvorugt á nokkuð skylt við gengisfellingu krónunnar, er skýrasta dæmið um ábyrgðarleysi þessara manna í stjórnmálum og sorglegasta dæmið um slysni þeirra, sem veitt hafa þeim fylgi. Að vanda munu þessir flokkar bera fram margvíslegar breytingar á fjárlfrv., sem torvelda mundu skynsamlega afgreiðslu fjárlaganna, ef samþykktar yrðu, og er slíks jafnan að vænta frá óábyrgum mönnum.

Þótt margvíslegir erfiðleikar steðji nú að, ber ekki að fyllast kvíða. Íslenzka þjóðin hefur aldrei átt jafnmikla möguleika til þess að tryggja sér góð lífskjör og einmitt í dag. Jarðvegur er brotinn, ruddur og bíður sáningar. Engin kynslóð hefur átt jafnglæsilega, vel menntaða og þróttmikla æsku, engin átt jafnmikla möguleika. Og íslenzk náttúra er örlynd, ef gengið er fast eftir gæðum hennar. Sjálfstfl. vill beita sér fyrir því, að haldið sé uppi sókn í þessu landi, að afgreiða fjárlög með fullu tilliti til þess og vinna að því, að þær áætlanir, sem þar eru gerðar, verði raunverulegar, en ekki áætlanir einar.