14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

1. mál, fjárlög 1951

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Mér finnst þessar umr., sem hér fara fram, vera nokkuð mikið deila um keisarans skegg. Ég veit, að sjálfsagt er að halda sig sem mest við þingsköp Alþingis, og bæði forsetum og þm. ber að gera svo. Þó er það svo, að leyfilegt er að víkja frá sumum ákvæðum þingskapa, sé þeim skilyrðum fullnægt, að ríkisstjórnin leyfi og tiltekinn meiri hl. þm. samþ. Að sjálfsögðu má þetta frávik ekki vera frá þeim ákvæðum þingskapa, sem eru samhljóða eða hliðstæð ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Út af ræðu hv. 1. þm. Árn., þar sem hann talaði um ýmis atriði, sem þingið hefði aldrei leyft sér að breyta út af, þá tók ég a.m.k. eftir einu atriði, sem hann nefndi, sem fram er tekið í stjórnarskránni, en það er um fjölda umr. um hvert mál. Alþingi getur ekki veitt neina undanþágu frá þingsköpum í því efni, þar sem það er tekið fram í stjórnarskránni, en ég man ekki eftir, að stjórnarskráin tiltaki neitt um eldhúsdagsumr. Ákvæðin um þær eru tiltölulega ný, þó að það hafi verið venja að hafa eldhúsdagsumr. frá því að Alþingi fékk löggjafarvald, en það voru ekki l. um þær, fyrr en fyrir örfáum árum, og þá einungis um það, hvernig þeim skyldi útvarpa. En það, sem ég vildi sérstaklega benda á, er það, að það er nú þegar búið að samþ. þing eftir þing frávik frá ákvæðunum um eldhúsdagsumr. Hinar svokölluðu eldhúsdagsumr. eiga nefnilega ekki að fara fram við 3. umr., heldur 1. umr. En úr því að afbrigði eru veitt frá því, að þessar umr. fari fram við 1. umr., þá sýnist mér ekki síður mega veita undanþágu frá því, að þær skuli fara fram við 3. umr. Hitt er annað mál, sem hv. 1. þm. Árn. var að tala um, að samkvæmt þingsköpum má ekki taka mál til umræðu, nema það hafi verið borið fram, og ég er honum sammála um, að þær geta tæplega farið fram í sambandi við afgr. fjárl., eftir að búið er að gera þau að l., heldur er réttara að hafa þessar umr. í sambandi við eitthvert annað mál, en það álít ég gersamlega vandalaust að láta almennar stjórnmálaumræður fara fram í sambandi við eitthvert annað mál eftir nýárið, og mættu þær þá bera sama heiti og kallast eldhúsdagsumræður, því að þótt lengri ræðutími sé við eldhúsdagsumræður en við útvarpsumræður um önnur mál, þá er það ekki nema mjög einfalt frávik frá þingsköpum að leyfa lengri umræður um það. Ég skil ekki í öðru, eins og nú er komið, þegar komið er undir jól, en allir ættu að geta sætzt á það, og ég held, að það sé alls ekkert lagabrot. Þingsköp heimila frávik frá vissum atriðum, ef tiltekinn meiri hl. samþ. og stj. leyfir. Það er það, sem er afgerandi, hvort þessi afbrigði verða veitt, en ekki hitt, að formenn stjórnmálaflokkanna komi sér saman um það, því að þeir hafa ekkert vald til að ákveða frávik frá þingsköpum.