14.12.1950
Sameinað þing: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

1. mál, fjárlög 1951

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég mun ekki fara langt út í umr. að þessu sinni, þó að tilefni væri til þess út af yfirlýsingu hæstv. fjmrh. um, að ríkisstj. mundi nú leggja fram brtt. í samræmi við frv., sem nú er til umr. í Ed., um breyt. á gengisskráningarl., og í þeirri brtt. yrði ákveðið, að kaupgjaldsvísitalan skyldi haldast hin sama eins og hún var 1. des. s.l., 122–423 stig, þannig að ekki yrði einu sinni látin gilda þau lagafyrirmæli, sem nú eru í l. um, að kaupgjaldsvísitalan hækki. Eins og allir sjá, þá á þetta að gilda um alla starfsmenn ríkisins og kemur til með að binda vísitöluna gagnvart þeim, þannig að engin hækkun kemur fram á þeirra launum, og gagnvart þeim öðrum, sem ekki eru launþegar ríkisins, þá þýðir þetta, að ríkið fellur frá því að lögbjóða eins og nú er, að kaup skuli hækka hlutfallslega við vísitölu, og lætur þannig verða samningsatriði eða deiluatriði milli atvinnurekenda og verkamanna, hvernig um vísitöluuppbótina og grunnkaupið fer. Það þýðir, að ríkisstj., sem lofaði í grg. fyrir gengislækkunarl., að það yrði allt komið í nokkuð rétt og eðlilegt horf eftir svo sem 6 mánuði, hefur gefizt upp við að bæta upp afleiðingarnar af vaxandi dýrtíð. — Út af því, sem hæstv. ráðh. lýsti yfir, að þetta stafaði af óbreyttu verði á útflutningi, vil ég taka það fram, að þetta er ekki rétt. Það er í fyrsta lagi hægt að fá hærra verð en nú hefur fengizt, og ríkisstj. hefur sýnt sig í því að selja fyrir lægra verð en hægt er að fá. Hvað snertir þessa ráðstöfun gagnvart launþegum ríkisins, þá er eðlilegt að skoða þetta sem beina afleiðingu af því, að launþegar ríkisins hafa að miklu leyti valið sér til forustu menn úr stjórnarflokkunum. Einn höfundur gengislækkunarl. og sá maður, sem undirbjó þau, er form. Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og vitanlega hafa Sjálfstfl. og Framsfl. sterk ítök í þessum starfsmannasamtökum, og það er eftirtektarvert, að hæstv. ríkisstj. og þessir stjórnarflokkar sjá sérstaka ástæðu til að refsa þeim mönnum og samtökum, sem hafa verið svo vitlaus að trúa þessum flokkum fyrir forustu í sínum hagsmunamálum, og því verða það launþegarnir, sem eiga sitt réttlæti undir þessum flokkum, sem muna eftir þessu. Hvað snertir aðra launþega, þá sem ekki starfa hjá ríkinu, þá er rétt að muna, að þeir stjórnmálaflokkar, sem nú eru við völd, höfðu samstarf við Alþfl. um það að reyna að halda meiri hluta í Alþýðusambandinu, og í fyrsta skipti, sem Sjálfstfl. og Framsfl. hafa nokkur ítök í alþýðusambandsþinginu, þá samþykkir þetta þing einróma að krefjast þess, að útborgað sé mánaðarlega kaup í hlutfalli við vísitölu; og nú er svarið, sem Alþýðusambandið fær, hinn svokallaði lýðræðislegi meiri hluti: Þið skuluð engar kaupuppbætur fá frekar en orðið er, ef við megum ráða. — Þetta vildi ég aðeins segja út af ræðu hæstv. fjmrh., fyrst hann kaus að gefa yfirlýsingu um þetta við þessa umr. Annars verður þetta tekið til umr. í sambandi við lagabreyt., þegar hún kemur fyrir, og mun ég þá marka mína afstöðu.

Þá eru það nokkur orð viðvíkjandi því, sem hv. frsm. fjvn. sagði. Hann skýrði frá því, að fjárhagsráð væri ekki tekið með í þessi fjárl. Það hefði verið viðkunnanlegra af hæstv. ríkisstj. að reyna að vera til með þessar bollaleggingar, sem hún er með viðvíkjandi fjárhagsráði, svo framarlega sem það er meiningin að fara að gera einhverja stórbreyt., t.d. að gefa viðskiptin frjáls; það hefði þurft að gera um áramót. Hins vegar ber að fagna því, að ríkisstj. skuli í raun og veru hrökkva undan þeirri vaxandi óánægju, sem er með þessa einokun, sem fjárhagsráð hefur verið aðaltæki ríkisstj. til að koma á.

Þá minntist hv. form. fjvn. enn fremur á þjóðleikhúsið. Mér þykir það dálítið einkennilegt mál, ef ríkið getur í raun og veru hugsað sér, að þjóðleikhús sé ekki rekið raunverulega á ábyrgð ríkisins. Það er a.m.k. ákaflega erfitt held ég að halda uppi eins mikilli menningarstarfsemi eins og eðlilegt er að tengja við svo mikla stofnun sem þjóðleikhús er, án þess að ríkið leggi þar raunverulega nokkuð fram. Það væri alveg sérstakt, ef hægt væri að reka það menningarfyrirtæki á þeim grundvelli, að það bæri sig. Það er aðeins undir einum kringumstæðum hægt að hugsa sér það, þ.e. ef það er virkilega almenn velmegun í þjóðfélaginu, þannig að menn hafi almennt efni á því — almenningur ekki síður en yfirstéttin — að fara í leikhús. Það var svo um tíma, að þjóðleikhús hefði borgað sig vel, en með þeirri vaxandi fátækt, sem skipulögð er af hálfu ríkisstj., er vitanlegt, að starfsemi eins og þjóðleikhússins á ákaflega erfitt með að bera sig, enda hefur það sýnt sig í ríkum mæli, að aðsókn — beinlínis af fjárhagslegum ástæðum — er miklu minni að þjóðleikhúsinu í haust heldur en í vor og heldur en hefur verið undanfarin ár að leiksýningum. — Ég tók eftir því, að hæstv. fjmrh. hnaut um það, að fátæktin væri skipulögð af hálfu ríkisstj., en það er það, sem markvisst hefur verið starfað að af hálfu ríkisstj. og er alveg auðsjáanlega tilgangurinn með þeirri lagasetningu, sem hér er verið að setja í gegn, og það, sem er níðinglegast við þessa árás, það er, að fólkið fær ekki frelsi til þess að hreyfa sig. Svo framarlega sem fólkið fær frelsi til þess að koma sér upp framleiðslu, starfrækja sína framleiðslu og selja sína framleiðslu og beita sínum neytendasamtökum til að kaupa vörur inn í landið og reyna að gera það á þann hátt, að það borgi sig sem bezt, þá gæti maður sagt, að það væri ekki verið að ráðast á bundinn mann, heldur mann, sem gæti slegið frá sér. En nú er framleiðslustarfsemin heft í fjötra, og lítil klíka hér í Reykjavík er einráð í verzlunar- og atvinnulífinu og hvað fólkið fær að gera, og þó að þau bönd séu hörð og slæm, sem auður og völd binda fólkið, þá er þó enn þá harðvítugra það, sem við er að glíma nú, vegna þess að l. eru tekin í þjónustu þessarar einokunarklíku til að binda fólkið á þennan hátt á klafa. Þessum mönnum hefur tekizt á síðustu tveim árum að auka svona fátæktina hjá almenningi, eins og greinilega sést, ef menn þekkja inn á, hvernig fólkinu liður nú. — Ég ætla annars ekki við þessa umr. að fara út í neinar almennar deilur um fjárl.; ég gerði nokkra grein fyrir mínu sjónarmiði við 2. umr. málsins, og verður síðar tækifæri á þinginu til þess að ræða þessi mál almennt.

Vil ég þá aðeins minnast á nokkrar smáar till., sem ég er hér ásamt fleiri þm. meðflm. að, og verður þá máske gerð grein fyrir sumum þeirra seinna. Ég vil strax geta þess viðvíkjandi sumum till., að upphæðirnar eru engan veginn þær, sem við mundum álíta nauðsynlegt í þessum efnum, heldur þær, sem við gerðum okkur mestar vonir um, að eitthvað kynni að vinnast með að stilla svo í hóf sem þar er gert.

Fyrst er brtt. I. á þskj. 442, um að til útvarpsefnis hjá ríkisútvarþinu verði varið 1500000 kr. í stað 1 milljónar. Ég býst við, að það séu flestir sammála um það, að það sé ákaflega nauðsynlegt, að ríkisútvarpið geti vandað betur til dagskrárefnis en það gerir nú, og mér er kunnugt um það frá þeim tíma, sem ég starfaði í útvarpsráði, að það er alveg tilfinnanlegt, hvað erfitt er að fá marga af færustu menntamönnum þjóðarinnar, m.a. þá, sem beztir eru sem rithöfundar og fyrirlesarar, til þess að flytja erindi, nema hægt sé að borga þeim vel fyrir það, og það er eðlilegt, því að ég skil vel, að menn, sem leggja mikið starf í slík erindi og vilja ekki láta annað frá sér fara en það, sem er virkilega gott, þurfa að fá allvel greitt fyrir það efni, sem þeir láta í té. Það er því allt of mikið um það, að hinir og þessir menn, sem vanalega rubba upp erindum, koma og segja, ég skal flytja erindi. Útvarpsráð er í vandræðum með dagskrárefni, og ef þetta er sæmilegt efni, þá tekur útvarpsráð það, af því að það hefur ekki efni á að borga góð erindi. Þetta gildir ekki aðeins um erindi, heldur líka um annað efni. Það er því nauðsynlegt, að útvarþið fái meira fé til þess að geta greitt meira fyrir útvarpsefni og haft meira á boðstólum.

Næst er brtt. III. á sama þskj., 402. Það er till. um að koma nýjum lið inn á 12. gr. viðvíkjandi heilsuvernd og sjúkramálum, að byrjað sé að leggja fram til byggingar hælis fyrir vangæf börn, 500 þús. kr. Það hefur áður verið rætt um það hér á Alþ., hvað nauðsynlegt sé að hraða því að koma upp slíku hæli og fylgja eftir þeim almenna vilja, sem fyrir hendi er í þessu efni, og það er talað um nauðsynina á því að veita, þótt ekki sé nema lítið byggingarframlag í þessu skyni, og eins og allir vita, þá segja 500 þús. kr. ekki mikið, en það er ekki mikil von til þess, að hægt sé að fá fram meira framlag en það.

Þá er á sama þskj. brtt. XVIII. Hún er um að veita til bæjar- og sveitarfélaga til togarakaupa sem vaxtalaust lán 2 millj kr. Það er vitanlegt, að það eru nokkur bæjar- og sveitarfélög í landinu, sem sækja eftir því að geta fengið eitthvað af nýju togurunum, og við vitum, hvernig það er með þessi bæjar- og sveitarfélög. Þau hafa nægan mannafla, oft ágæta sjómenn, til þess að vinna á þessum togurum. Ýmis af þessum bæjar- og sveitarfélögum hafa nú þegar eignazt einn togara, nýsköpunartogara, og hafa þess vegna komið sér upp ýmsu af því, sem nauðsynlegt er til togararekstrar, og það var vitanlegt, þegar þær byggingar voru hafnar, að það var að vísu ópraktískt fyrir þessi bæjarfélög að byrja með einn togara, því að það er svo dýrt, og að það var miklu hægara um hönd að reka tvo togara. Það mundi verða mun ódýrari rekstrarkostnaður, vegna þess að það mundi vera sama stjórnin í landi á þeim, sama skrifstofan, sömu húsin fyrir saltfiskþurrkun, þannig að reksturinn nyti sín betur þegar togararnir væru tveir. Hins vegar er vitanlegt, að það, sem stendur þessum þorpum fyrir þrifum, er féleysið. Þau þurftu að klífa þrítugan hamarinn til að leggja fram framlög 1947–48 til þess að geta eignazt þessa togara, og hafa ýmis þeirra átt erfitt með að halda þeim. Nú eru þessir togarar dýrari en nýsköpunartogararnir voru, en hins vegar hefur ríkisstj. nú þegar boðið þessum bæjar- og sveitarfélögum að njóta þeirra kjara, sem ríkisstj. hefur sjálf í Englandi. En þó mun víða svo ástatt, að þar þarf að gera meira. Það er varla nema 1–2 bæjarfélög, sem geta borgað upp í togarana; það liggur við, að þau verði að fá raunverulega allt að láni, og þessi till. stefnir að því að gera ríkisstj. fært að lána þessum bæjarfélögum upp á þessar spýtur, að leggja svo að segja allt fram. Ég veit, að þetta er óvenjuleg aðferð, en það er eitt að athuga í þessu sambandi: Þessar ráðstafanir, að koma upp togaraútgerð úti á landi, það er áreiðanlega stórmerkileg ráðstöfun hvað sjávarþorpin snertir. Með þessu hefur verið gerð tilraun til þess að snúa þeim straumi við, sem liggur utan af landinu til Reykjavíkur. Eigi að vera hægt að skapa viðunandi lífsskilyrði fyrir það fólk, sem býr í þessum bæjum, þá þarf þetta fólk að fá stórvirk framleiðslutæki; því að stórvirk framleiðslutæki eru sá sterki, óhagganlegi grundvöllur, sem framfarir og menning íslenzkra bæja byggist á. Þess vegna þarf að gera stórt átak til þess að breyta þarna um. Þetta átak var hafið, þegar um helmingur af nýsköpunartogurunum var keyptur 1945. og settur til Reykjavíkur og þegar allinargir bæir úti um landið hófu í fyrsta skipti togaraútgerð. Um það, hvernig þetta mundi ganga t.d. á Akureyri, þá má benda á það, að Akureyri fékk ekki aðeins 2 togara, sem bærinn og hlutafélag á, heldur fékk einstaklingur þriðja togarann, og Akureyri býst við að fá fjórða togarann, þannig að Akureyri er að verða togaraútgerðarbær. Það er ekki efa bundið, að það er heppileg þróun fyrir landið, ef mögulegt er að koma helmingi eða þriðjungi þeirra togara, sem eru nú að koma, út á land til stuðnings þessum bæjar- og sveitarfélögum. Til þess að snúa þessum straumi við, þá er þetta eitt af því, sem þarf að gera, að vinna að því að beina fjármagninu til þeirra. Fjármagnið er í þessu tilfelli bæði þjóðfræðilega og þjóðhagslega rétt að lána. Undir þessu er kominn heilbrigður efnahagslegur grundvöllur þeirra. Vil ég því eindregið óska, að hv. þm. geti orðið sammála um þessa till. Við æskjum þess, að þetta verði tekið upp á fjárlög sem veiting, en ekki sem álög, og sé vaxtalaust lán um tíma. Væri að því nokkur styrkur fyrir bæjarfélögin, og býst ég við, að þeim veiti ekki af þeim styrk.

Svo er það XIX. till. Við fluttum við 2. umr. till. um að veita 31/2 millj. til atvinnuaukningar, en hún var felld, og flytjum við nú till. um aðeins 1 millj. Ég gat þess við 2. umr., að það væri ekki ánægjulegt að taka þetta upp aftur. Þeir þm., sem muna eftir tímabilinu milli styrjaldanna, muna eftir þessu máli, að þá var veitt fé til atvinnubótavinnu. Von okkar er, að því fé verði skynsamlegar varið en oft var gert í atvinnubótavinnunni í gamla daga. En með því viðhorfi, sem nú blasir við í atvinnumálum og ríkisstj. hefur innleitt og skapað, er það óverjandi, að við afgreiðslu fjárlaga sé engin heimild sett í þá átt, þótt ekki væri nema lítið eitt.

Þá leggjum við til í sambandi við 17. gr. að hækka styrki til tvenns konar starfsemi, þ.e. til mæðrastyrksnefndar og Kvenréttindafélags Íslands. Þessi starfsemi og félagsskapur er þingmönnum svo kunn, að það þarf ekki að mæla ýtarlega fyrir till. Tökum við þá einnig upp till., sem flutt var við 2. umr., varðandi lög um útrýmingu á heilsuspillandi íbúðum, þannig að þau öðlist gildi aftur, með því að framlag til þess verði tekið upp í fjárlög. Þm. vita, hvernig ákvæðum þessum er háttað og að framkvæmd þeirra hefur verið frestað. Þau öðlast ekki raunverulegt gildi nema tiltekið framlag verði tekið upp á fjárlög. Nú er það þannig, að síðastliðin ár hefur ákaflega lítið verið byggt, og íbúðir fólks hér, ekki síður en annars staðar, fara raunverulega versnandi. Auk þess vil ég minna á, að upprunalega var lofað, að með þessum l. væri ætlunin, að á 4 árum yrði útrýmt bröggum og öðrum heilsuspillandi íbúðum. Það má mikið vera, ef þessi áætlun stenzt, því að þessi 4 ár eru brátt útrunnin. Þessum l. var kippt úr gildi áður en þau fóru að verka. Aðeins tveir staðið komu til með að njóta framlags vegna þessara l. Eins og húsnæði var heilsuspillandi 1947, er það enn þá meira heilsuspillandi núna. Það getur ekki gengið að gera ekkert í þessu máli, og það getur ekki gengið, að álögur fólksins verði þyngdar um 10 millj. kr., en það ekki látið hafa neitt til að tryggja sér lífsnauðsynjar og njóta þeirra l., sem sett hafa verið því til bóta. — Okkar till. var felld, og nú höfum við lækkað hana niður í 600 þús. kr. Vona ég, að hv. þm. gangi inn á þetta. Framlagið má ekki minna vera, en samt eru til bæjarfélög, sem hefðu gagn af því. Einnig flytjum við brtt. um heimild til að taka fé að láni til þess að lána bæjar- og sveitarfélögum til útrýmingar þessu heilsuspillandi húsnæði. Ég læt nú þetta nægja um þessa till. Nokkrir meðflokksmenn mínir verða kannske til að skýra till. betur. — Mun síðar gefast tækifæri til að ræða till. hæstv. ríkisstjórnar. — Ætla ég svo ekki að orðlengja þetta frekar.