15.12.1950
Efri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

10. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Eins og frsm. n. tók fram, hefur n. fjallað um málið. Meiri hl. hefur samþ. það, en ég var andvígur því. Það liggur ekki enn þá frammi nál. frá mér, en kemur vonandi bráðlega. Eins og frv. kemur frá Nd., telst framlagið vera hækkun á söluskattinum. Þessi hækkun er talin gefa ríkissjóði 5 millj. kr. tekjur. Þetta mun verða til hækkunar verðlags í landinu, enn meir en fram er komið. Ef till., sem liggur fyrir um breyt. á gengislækkunarlögunum um bindingu vísitölunnar, verður samþ., kemur þetta allt niður á launastéttum landsins, án þess að þær fáí það að nokkru leyti bætt. Nú hefur verið upplýst, að það sé engin þörf þessarar hækkunar við greiðslujöfnuð fjárlaganna. Þar sem einn nm. úr fjvn. hefur upplýst, að óhætt væri að hækka tekjur fjárl., án þess að til nokkurs greiðsluhalla þurfi að koma, finnst mér óhætt að hækka útgjöldin um 30 millj. Mér finnst óþarft á tímum sem þessum að vera að hugsa um greiðsluhallalaus fjárlög, svo að ég tali nú ekki um hagnað af þeim. Tilgangurinn með þessari hækkun virðist eingöngu vera sá einn að rýra kaup manna, eins og sú hugsjón vaki alltaf fyrir þeim. Þessir hækkuðu tollar voru í raun og veru gengislækkun. Þegar krónan verður skráð á rétt gengi, verður þá hægt að afnema þessa tolla? Nú hefur reynslan svarað. Raunin hefur ekki orðið sú, að þessi álagning hafi verið afnumin, heldur hefur hún hækkað. Það er ekki hægt að hugsa sér augljósara gjaldþrot en þeir hafa komizt í með þessari gengislækkun og hve blekking þeirra er taumlaus. Af öllum tollum og sköttum er söluskatturinn heimskulegastur og ranglátastur. Hann leggst jafnt á allar vörur og íþyngir atvinnuvegunum og dregur úr framkvæmdum. Þannig leggjast margar millj. á efni til Sogsvirkjunarinnar með þeim árangri, að þessar framkvæmdir verða óheyrilega dýrar. — Að lokum endurtek ég, að ég legg til, að frv. þetta verði fellt.