18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

72. mál, stjórn flugmála

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég sé af nál., að fundur hefur verið haldinn í dag í samgmn. og ég skráður fjarstaddur, en málum er reyndar þannig háttað, að ég var ekki boðaður á fundinn. En ég spurðist fyrir um það í gær, hvort fundur yrði haldinn í nokkurri nefnd, sem ég á sæti í, en var sagt, að svo yrði ekki. Þannig stendur á fjarveru minni.

Þetta er eitt af þeim málum, sem ríkisstj. ætlar að sýna sinn sparnaðarvilja í. Og ég er alltaf fylgjandi því, að einn embættismaður inni af hendi verk, ef ekki er þörf á tveim, og ef það er óyggjandi, að ekki þurfi nema einn mann til þessa starfs, tel ég þessa till. eiga rétt á sér. En hv. síðasti ræðumaður fullyrti af þeim gögnum, sem lögð hafa verið fram, að sumir álíti, að samþykkt þessa frv. horfi ekki til bóta, og er ég sammála því, að ekkert bendi til þess, að meira öryggi fáist, ef þetta frv. verður samþ., né heldur, að stjórn flugmálanna verði á nokkurn hátt betur borgið. En það er um það að ræða, hvort öryggið geti verið það sama í stjórn flugmálanna, ef lagt yrði niður embætti flugmálastjóra og það falið flugvallastjóra. En ég læt það í ljós, að úr því að ríkisstj. hefur ekki afnumið embætti alls staðar þar, sem störf eru hliðstæð, en framkvæmd af 2–3 embættismönnum, þá finnst mér lykta af þessu frv. það eitt að koma pólitískum embættismanni úr embætti. Enda fer því fjarri, að hróflað hafi verið við ríkisbákninu í sambandi við slíka fækkun. Mér þykir þó ekki rétt að bregða fæti fyrir, að ríkisstj. geti sýnt sparnaðarvilja sinn, og í trausti þess, að alls staðar þar, sem störf, sem einn maður getur framkvæmt, eru innt af hendi af tveim eða fleiri, verði gerður sams konar sparnaður, og mun ég því láta málið afskiptalaust, svo að sparnaðarviðleitni ríkisstj. geti sýnt sig.