14.12.1951
Neðri deild: 44. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

21. mál, ríkisborgararéttur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég bjóst við, að einhver mundi hafa framsögu í þessu máli, en þar sem ég sé, að enginn hefur tekið til máls, þá langar mig til þess að fara nokkrum orðum um þann hátt, sem tíðkazt hefur hér á Alþ. um veitingu ríkisborgararéttar. Mér finnst, að það hafi ríkt fullmikil góðsemi hér á Alþ. í þeim efnum. Það er varhugavert að gera útlendinga í stórhópum að ríkisborgurum. Mér finnst, að það eigi að beita meiri gagnrýni hér á Alþ. í þessu máli en gert hefur verið og það því fremur þar sem lög eru til um þetta.

Síðan ég kom á þing hefur ekki verið farið eftir neinum föstum reglum og hin mesta ringulreið ríkt í þessu. En afleiðingin af þessu er sú, að það flæðir inn í landið fólk með útlend ættarnöfn. Þetta fólk eykur svo kyn sitt og margfaldast og þessi hvimleiðu nöfn festast í málinu, svo að eftir nokkur ár er hér orðið yfirfullt af alls konar erlendum nöfnum.

Ég verð að segja það, að ég er hræddur um, að mér brygði í brún, ef ég liti upp úr gröf minni eftir svo sem 50 ár og sæi að fjöldinn allur af Íslendingum bæri þau nöfn, sem við ætíð sjáum á þeim frv., sem lögð eru fyrir þingið um veitingu ríkisborgararéttar. Mér fyndist ekki óeðlilegt, að um leið og mönnum er veittur íslenzkur ríkisborgararéttur, yrði þeim gert að skyldu að taka upp íslenzk nöfn. Ég tel, að ekki yrði of mikið á það fólk lagt, þótt sú kvöð yrði tekin upp. Ég minntist á þetta í þeim tilgangi að vekja athygli hv. alþm. á þeirri ringulreið, sem ríkt hefur í þessum málum undanfarið, og einnig af því, hve illa hin erlendu mannanöfn samrýmast íslenzkri tungu.