04.01.1952
Efri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

21. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er undirbúið af dómsmrn. og hefur nú þegar tekið miklum breytingum, og verða þær til þess, að miklu fleiri fá ríkisborgararétt en við ætluðumst til. Virðist það einkum stafa af því, að þm. hafa viljað láta alla, er uppfylla skilyrði ríkisborgararéttarlaganna og þó einkum ákvæðið um 10 ára heimilisfang, fá hér ríkisborgararétt. Ég hef nú aldrei fylgt þessum lögum bókstaflega, af því að þetta ákvæði um 10 ára frestinn er í rauninni þýðingarlaust og fær ekki staðizt vegna ákvæða stjskr. Það er á valdi Alþ. að veita þennan rétt, og er löggjafinn óbundinn af öðru en því, sem stjskr. segir um þetta. Ég hef því ekki farið eftir þessum lögum, heldur því, sem mér hefur virzt réttast í hverju tilfelli, og haldið í það, að fáir fengju réttinn og þá helzt fólk af íslenzku bergi brotið eða frá Norðurlöndum, og tekið mjög fáa aðra, nema þá helzt fólk, sem hefur komið hingað til þess að setjast hér að og vinna að mannúðar- og líknarstörfum, eins og nunnurnar í Landakoti. Segja má, að með þessu sé rétturinn veittur nokkuð af handahófi. En sannleikurinn er sá, að stjskr. ætlast til þess, að Alþ. meti þetta í hvert sinn, en fari ekki eftir blindum reglum. Ég legg þó enga megináherzlu á að breyta frv. aftur. Þó er þess að gæta, að þeir menn, sem eiga ekki skilið að fá þessi réttindi, hljóti þau ekki á þennan hátt.

Ég tel, að fyrirmælin í 2. gr. séu til bóta, að þessu fólki sé gert að skyldu að taka upp íslenzk nöfn, áður en það hlýtur réttinn. En þó verður að segja, að ef l. um mannanöfn verða þannig endurvakin af löggjafanum, verður að fylgja þeim betur en gert hefur verið, en þau hafa alla tíð verið dauður bókstafur. Og ef Alþ. vill, að þessum l. sé framfylgt um suma, verður að láta það gilda um alla, svo sem þá, er hafa tekið upp ný ættarnöfn gegn lögunum. Og eins er það, að eldri ættarnöfn hafa verið notuð áfram, eftir að þau áttu að hafa verið felld niður. Ég held því, að ekki verði hægt að láta sem þessi l. séu ekki til, eftir að þau hafa verið endurvakin af löggjafanum á þennan hátt. Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.