18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

21. mál, ríkisborgararéttur

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Að nafninu til er ég með meiri hl. allshn., en ég undirskrifaði nál. með fyrirvara. Helzt hefði ég kosið, að sömu reglu og d. hefur fylgt undanfarin ár við veitingu ríkisborgararéttar hefði verið fylgt nú, því að ég álít, að það eigi að fara mjög varlega í þetta mál. Höfum við dæmin fyrir okkur um, að þetta hefur verið stórlega misnotað. Er þess skemmst að minnast, hvernig nokkrir Þjóðverjar, sem fengu ríkisborgararétt, misnotuðu hann. Mér virðist, að með þessari tillögu sé búið að opna öll hlið meira en æskilegt er.

Ég hlustaði ekki á alla ræðu hv. 7. landsk. þm., en ég vil taka undir með honum, að þessi afgreiðsla málsins er óviðunandi. Ég teldi rétt að breyta lögunum um veitingu ríkisborgararéttar og það verði síðan vandlega athugað, hvaða menn eru þess verðir, að þeim verði veittur hann, og verði það þá sérstök deild stjórnarráðsins, sem hann veiti.

Þeir hv. nm., sem voru á fundi nefndarinnar, þegar hún afgreiddi málið, töldu, að samkv. samþykkt Nd. á því yrði erfitt að gera á því stórfelldar breyt., eins og hefði orðið að gera, ef fylgja hefði átt reglu þessarar deildar, og það yrði til þess, að það yrði ekki útrætt, og ýmsir menn yrðu þá fyrir vonbrigðum, sem Nd. með samþykki sínu er búin að gefa góðar vonir um, að verði teknir upp. En þessi deild verður hins vegar að gera sér ljóst, að ef frv. verður samþykkt nú eins og það liggur fyrir, þá verður á næstunni að taka upp allmarga menn, sem felldir hafa verið niður undanfarið.

Ég skal játa það, að ég hefði viljað fella niður allmarga af þessu frv., sem ekki eru Skandinavar, að undanteknum nunnunum, og mun greiða atkvæði á móti þeim mönnum, sem ekki uppfylla þau skilyrði, sem þessi deild hefur sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar hingað til. Og ég vil að endingu bera þá ósk til hæstv. dómsmrh., að hann láti á næstunni endurskoða lögin um ríkisborgararétt, hvernig menn fá hann og missa, og þar verði teknar upp ákveðnar reglur, sem losi Alþingi undan því að þurfa í hvert skipti sem hann er veittur að grafast fyrir um það um hvern einstakling, hvort hann uppfylli þau skilyrði, sem við höfum sett fyrir veitingu réttarins.