19.01.1952
Efri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

21. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. N-M., að það er mjög mikilsvert atriði, ef samræma mætti ríkisborgararéttarlög í hinum ýmsu löndum, og hefur einmitt mikið verið um það rætt, að samræma mætti þetta á Norðurlöndum. Er vel farið að vekja máls á þessu og mjög fróðlegt að heyra, hvað þm. sýnist um þetta. Þetta er mjög skynsamlega athugað hjá hv. 1. þm. N-M. og orð í tíma töluð.

Varðandi till. hv. þm. Barð., þá sýnist mér, að hún ætti að vera í þál.- formi, en eigi ekki heima hér, og er það hinn mesti ósiður að blanda saman þannig óskyldum málum. Ég vil því mælast til, að hv. d. samþykki ekki þessa tillögu.

Ég hef mikinn hug á að koma inn í l. ríkisborgararétti handa 1–2 mönnum í viðbót, en hef ekki enn nægar upplýsingar fyrir hendi. Vil ég þó ekki tefja málið meira við þessa umr., en mun reyna að koma þessu að í Nd.