22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, gat n. ekki orðið sammála. Leggur minni hl. til, að frv. verði fellt, og mun ég gera grein fyrir ástæðunum.

Nýlega hefur verið felld í hv. Nd. endurskoðun á fasteignamatinu í landinu með þeim rökum, að það mundi hafa í för með sér aukna skatta fyrir þegnana til ríkissjóðs og sveitarsjóða, enda gert í þeim tilgangi að fá nýja tekjustofna bæði fyrir ríkissjóð og sveitarsjóði. Hér liggur því yfirlýsing fyrir um það, að meiri hl. Alþ. vill ekki hækka skattana. Það er því einkennilegt, að fram skuli koma till. um að hækka skatta fimmfalt. Ég vil einnig benda á það, að málið hefur ekki verið nægilega undirbúið, svo að hægt sé að samþ. það eins og það nú liggur fyrir. Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, var þetta gjald tekið upp til þess að standa undir sorphreinsun og þvílíku. Það liggur ekki fyrir nú, hvort þessi tekjustofn er nægilegur til þessara útgjalda, og er helzt ástæða, til að ætla, að þessi tekjustofn eigi að fara til annarra útgjalda. Ef þetta á að fara til þeirra útgjalda, sem það áður hefur verið ætlað til, þá hefði sveitarfélagið, sem fór fram á þetta, átt að greina frá því. En ef auka á tekjurnar í heild, þá má leggja á útsvör eftir efnum og ástæðum, og kemur það öðruvísi og betur út, ef sanngjarnlega er lagt á. Af þeirri ástæðu er heldur ekki hægt að samþykkja þetta.

Ég vil líka benda á það, að ósk um þetta hefur aðeins komið frá einu bæjarfélagi, og þess vegna er eðlilegast að veita því einu þessa heimild, ef til þess kemur. Ég mun því við 3. umr. bera fram brtt. um það.

Þá vil ég benda á það, að síðan 1940 hafa gilt húsaleigulög, sem hafa rýrt tekjur þeirra, sem eiga fasteignir, svo að þeir hafa ekki getað haldið húsunum við, hvað þá heldur haft tekjur af þeim sér til lífsframfæris. Það er líka viðurkennt sem eitt af þeim verkefnum, sem nauðsynlegt er að styðja, að nægilegum húsakosti verði komið upp fyrir íbúa landsins. Eftir að Alþ. hefur í öll þessi ár bundið húseigendur um land allt við húsaleigulögin, væri ósanngjarnt nú, þegar losað hefur verið um þau bönd, að leggja ný bönd á húseigendur með því að fimmfalda fasteignaskattana. Ég tel líka nauðsynlegt, að fyrir liggi álit fasteignaeigenda áður en slíkt er gert, t.d. Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur.

Þá vil ég benda á, að eins og frv. er nú, verður ekki fullkomlega skilið, hvort nákvæmlega sama álag verður á öllum fasteignum innan sama sveitarfélags. Hugsanlegt er að gefa út reglugerð um mismunandi álag, t.d. varðandi hús og jarðir, er tilheyra viðkomandi hreppi, en þetta þyrfti að athuga nákvæmlega, áður en frv. er samþ. Auk þess tel ég vafasamt að heimila sveitarfélögum að setja á slík gjöld. Alþ. á að segja til um það, hvaða gjöld skuli greiða, annars getur eitt sveitarfélag hækkað þessi gjöld um 400% og annað um 100%.

Hér í grg. er talað um, að rétt sé að undanskilja vatnsskatt þessari hækkun, en ef fara á inn á þessa braut, sé ég ekki, hvaða ástæða er til þess. Þó að vatnsskatturinn hafi hækkað ú Akureyri, er ekki víst, að hann hafi verið hækkaður alls staðar, síður en svo. Og ég vil benda á, að Alþ. hefur farið inn á þá stefnu að veita sveitarfélögunum mikla aðstoð til þess að koma upp bjá sér vatnsveitum, þar sem litið er á það sem þjóðfélagslegt mál. En hví á að taka með annarri hendinni það, sem gefið er með hinni?

Af þeim ástæðum, sem ég hef sagt, leggur minni hl. til, að frv. verði fellt. Annars mun ég bera fram brtt. við 3. umr., sem ég mun lýsa þá.