12.11.1951
Efri deild: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

50. mál, sauðfjársjúkdómar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta, að hann hefur gefið kost á því, að umr. um mál þetta hæfust ekki fyrr en hæstv. landbrh. væri hér viðstaddur. — Alllangt er nú síðan mál þetta var til umr. hér í d., og enda þótt það fjalli um að hækka vexti á skuldum þeim, er bændur eiga ógreiddar hjá ríkinu vegna fjárskiptanna, vil ég leyfa mér að tala um fjárskiptin almennt.

Síðan frv. þetta var síðast til umræðu í þessari hv. d., hefur hæstv. landbrh. svarað fsp., sem fram hafa verið bornar í Sþ. um hið nýja og alvarlega ástand í þessum málum. Þar sem fsp. er skorinn svo þröngur stakkur, er ekki hægt að fá allar þær upplýsingar, sem með þarf í svona veigamiklu máli, og vil ég því minnast nokkru frekar á mál þetta við hæstv. landbrh. Ég vildi því fyrst og fremst leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann vildi ekki láta fara fram sérstaka rannsókn á þeim atburðum, sem fyrir hafa komið. Þetta er svo þýðingarmikið mál, að einskis má láta ófreistað til þess að komast að raun um, hverju sé hér um að kenna. Það er sýnilegt, að ef ekki er haft betra lag á þessum málum en nú er, þá er voðinn vís. Það hefur í för með sér tugi millj. kr. tjón fyrir ríkissjóð og enn fleiri tugi millj. kr. tjón fyrir bændur.

Það er ljóst, að í Strandasýslu hefur komið upp mæðiveiki á ný. Ganga um það ýmiss konar sögur, að menn hafi vitað um veikina í kindum þessum í fyrra, er þær voru reknar á fjall, og ýmislegt annað er, sem bendir til þess, að menn hafi ekki gætt fullrar varúðar. Það er því full ástæða til þess, að gerð sé gangskör að því að komast að raun um, hverjum sé hér um að kenna. Hæstv. landbrh. upplýsti í Sþ., að bændur hefðu sjálfir valið hina beztu menn úr sínum hópi til þess að hafa eftirlit með þessum málum. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort honum finnist ekki ástæða til að skipa einn mann til þess að gæta hagsmuna ríkissjóðs. Mér er m.a. kunnugt um það, að framkvæmdastjórinn fyrir hinni merku sauðfjárveikivarnanefnd er ekki meira upptekinn en það, að hann getur ráðið sig til að starfa hjá öðru fyrirtæki, á meðan hann tekur laun úr ríkissjóði. Það er áreiðanlegt, að þessum málum hefur ekki verið sýnd sú alvara, sem þurft hefði.

Ég vil enn fremur fá það upplýst hjá hæstv. ráðh., á hvers kostnað er nú verið að skera niður á ný. Er það á kostnað bændanna eða ríkissjóðs, eða er það gert á kostnað þeirra manna, sem vanrækt hafa að sjá um, að fjárskiptin hafi verið framkvæmd með nægilegu öryggi? Það ganga miklar sögur um það, að sum af þessum landssvæðum hafi ekki verið smöluð nægilega vel, áður en nýju fé hefur verið hleypt inn á þau. Hér er vissulega verið að leika sér með eldinn. Ef þetta er rétt, þá er hér vissulega ástæða til, að rannsókn sé látin fara fram. — Ég veit, að þetta mál snertir ekki beint það frv., sem hér liggur fyrir, en mér finnst ekki ástæða til að hækka vextina eins og farið er fram á í frv., nema sannað sé, að bændur eigi engan þátt í þeim mistökum, sem átt hafa sér stað. Mér er kunnugt um það, að hætt var að gæta girðingarinnar úr Berufirði og norður í Strandasýslu eftir að fjárskiptin fóru fram, og með því var heilbrigði stofninn norðan girðingarinnar settur í hættu, ef illa tækist til. Það var bæði hætt að halda girðingunni við og eins var vörzlunni hætt. Menn hafa orðið svo bjartsýnir um árangurinn af fjárskiptunum, að þeir hafa ekki gætt nægrar varúðar.

Mér skildist á hæstv. landbrh., að ekki hefði enn verið tekin upp nein varzla, en allt ætti að vera komið í lag næsta vor, er fé yrði sleppt út. Ég tel það mjög mikilsvert, að á þetta megi treysta. Þetta er ekki aðeins hagsmunamál Vestfjarða, heldur allrar þjóðarinnar, því að ef heilbrigt fé hefði ekki verið á Vestfjörðum, hefðu fjárskiptin aldrei getað farið fram.

Mér þótti rétt að láta þetta koma fram í umr. um þetta frv.