16.11.1951
Efri deild: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

95. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Nefndin hefur athugað þetta frv. og hefur orðið sammála um að leggja til, að það verði samþykkt óbreytt.

Það er engin ástæða til að tefja deildina með ræðu um þetta mál nú, það var skýrt við 1. umr., og auk þess má vísa til þeirrar grg., sem fylgir frv.

Þessi ákvæði um eyðingu svartbaks hafa nú verið í gildi um langan tíma, og er þetta frv. um framlengingu þeirra nú flutt af því, að þessi lög falla úr gildi um næstu áramót, en nauðsyn er, að lögin hverfi ekki úr sögunni og falli ekki niður, og því er það ósk flm. og vilji allra nm., að frv. verði samþykkt eins og það kemur fyrir.