29.11.1951
Neðri deild: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

101. mál, þingsköp Alþingis

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil ekki tefja umr., en þetta verður aðeins örstutt athugasemd út af ummælum hv. síðasta ræðumanns, 2. þm. Reykv.

Hann sagðist skilja, að ég þyrfti að þvo af mér blett vegna samstarfs míns við sósíalista í nýsköpunarstjórninni. Þessi ummæli eru að því leyti undarleg, að þau gefa þeirri skoðun byr undir vængi, að flokkur þessa þm. sé háður erlendu valdi. Ég þarf ekki að þvo af mér neinn smánarblett út af því samstarfi, sem ég hafði við Sósfl. á árunum. Það voru fleiri menn en ég, sem gerðu tilraun til þess að efna til samstarfs við kommúnista. (EOl: Roosevelt forseti er nú ásakaður fyrir það sama.) Við skulum nú ekki vera að grafa upp þann merka og mikla mann. Já, það voru margír menn mér meiri, sem reyndu þetta samstarf í heiminum á þeim tíma. Það var reynt að hafa þá í samstarfi með lýðræðisþjóðum heimsins og fá þá til þess að berjast með þeim að sameiginlegu marki í síðustu styrjöld. Með sameiginlegu átaki tókst að lokum að ná sigri í styrjöldinni, en að henni lokinni reyndist ekki unnt fyrir lýðræðisþjóðirnar að hafa frekara samstarf við kommúnistana, sem hefur leitt til öngþveitis þess, sem nú ríkir í heiminum.

Ég gat ekki áttað mig á því, hvað hv. þm. átti við, þegar hann fór að tala um fjhn., að valdið hefði verið tekið af henni í sambandi við smáíbúðafrv. En ef ég hef tekið rétt eftir, þá var svo komið í fyrra, að okkur lék hugur á að leitast við að ráða bót á þeim skorti, sem reyndist þá vera á íbúðum og þá sérstaklega í Reykjavík. Hins vegar urðum við til þess neyddir að hætta við að fara út í þetta þá á síðustu stundu, vegna þess að málið var á þeim tíma ofvaxið þjóðinni. Kom þar meðal annars til greina nýafstaðin gengislækkun, sem tryggja varð, að hefði tilætluð áhrif. Það er dæmalaust af hv. þm. að halda slíkum fullyrðingum á lofti sem hann bar fram í ræðu sinni, að hér hafi verið um eitthvert valdboð að ræða.

Ég vil þakka góð orð í garð þeirrar stjórnar, er ég veitti forstöðu árið 1944. Ég skal fúslega játa, að meðferð mín á utanríkismálum þann tíma var að ýmsu leyti áfátt, en er hv. 2. þm. Reykv. er nú að tala um það, að Framsfl. sætti sig við það, að Sjálfstfl. skipi eingöngu sína menn til að fara með utanríkismálin, þá er þetta fjarri öllu lagi hjá hv. þm. Ég held, eins og fram hefur komið í blöðum, að umboðsmenn íslenzka ríkisins séu ekki af neinum sérstökum lit, t.d. hvorki á fundum Sameinuðu þjóðanna né á fundum Atlantshafsbandalagsins. Nú eru t.d. fulltrúar þjóðarinnar á fundum Sameinuðu þjóðanna sendiherra okkar í Washington, sem setið hefur þar frá byrjun, sendiráðunautur í París, og sá þriðji átti að vera Finnur Jónsson alþm., en hann gat ekki farið sökum sjúkdóms, og fór því annar maður í hans stað. Á fundi Atlantshafsráðsins eru nú auk utanrrh. Hans G. Andersen, sem verið hefur ráðunautur ríkisstj. í utanríkismálum, og sendifulltrúi okkar á Ítalíu. Af þessum mönnum hefur ekki verið tekin nein blóðprufa eða reynt að rannsaka pólitískar skoðanir þeirra.

Ég tel þess ekki þörf, að ég svari hv. þm. Siglf., en vil þó segja örfá orð út af ræðu hans. Hann sagði í ræðu sinni, að svo virtist, að aldrei væri hinn minnsti ágreiningur varðandi ýmis mál og málefni á milli Bandaríkjastjórnar og ríkisstj. Mér er spurn: Hvernig veit hann þetta? Út af þessu vil ég upplýsa, að það hefur æ ofan í æ komið fyrir, að nokkur ágreiningur hefur orðið varðandi sjónarmið Íslendinga í ýmsum samningagerðum, og hafa Bandaríkin oft orðið að beygja sig fyrir íslenzkum hagsmunum varðandi ýmis atriði. Það hefur engu síður verið Bandaríkjanna að hliðra til en Íslendinga.

Þá fór þessi hv. þm. að tala um það, að Bandaríkjamenn hefðu hug á að flytja kjarnorkustöðvar til Íslands. Hvað er hv. þm. annars að fara? Þótt einhver einn þm. í bandaríska þinginu beri fram í ræðu aðra eins fjarstæðu og þetta, að kjarnorkuver skuli flutt hingað til Íslands, þá ber ekki að skilja það svo, að það sé vilji og skoðun stjórnarvaldanna. Það væri eitthvað bogið við það, ef ríkisstj. ætti að bera ábyrgð á einhverri vitleysu, sem einstaka þm. héldi fram. Það væri t.d. eitthvað meir en einkennilegt, ef ég ætti að bera ábyrgð á hverju orði, sem þm. Sjálfstfl. segðu.

Hv. þm. sagði, að þessum málum væri ólíkt betur komið, ef ég væri utanrrh. Ég segi ekki annað en það, að þetta lýsir því, að hv. þm. getur ekki litið hæstv. utanrrh. réttu auga, en vill gera mér allt til sóma, en þetta er með öllu ómaklegt, því að hann hefur ekkert gert annað en það, sem við höfum verið sammála um. Ég hef fylgt hans forustu í þessum málum, og hefur ekki orðið minnsti ágreiningur milli okkar um þau. Ég held að ég megi segja, að hann hafi ekki borið fram neitt mál í embætti sínu í þessari ríkisstj., sem ekki hefur verið sameiginlegur vilji allrar ríkisstj. Utanrrh. hefur ekki borið annað fram en það, sem ríkisstj. og flokkar hennar hafa verið sammála um og hafa talið rétt. Nú er greinilegt, að hv. þm. meinar ekki, að ég sé þessi góði maður, sem geri allt að hans vilja, en hæstv. utanrrh. sé illur andi. Hann er nýbúinn að segja, að það séu þrír menn, sem marki stefnu utanríkismálanna hér á landi, og ég sé einn þeirra. Með þessu vill hann segja, að mínar skoðanir og minn vilji leggi þar á ráðin. — Ég vil ekki fjölyrða frekar um þetta, en að lokum ætla ég að minnast á tvö atriði. Hann segir, að við förum í einu og öllu að vilja Bandaríkjanna. Þetta er með öllu rangt. Sósíalistar fylgja vilja Rússlands. Það er viðurkennd staðreynd og einn meginkjarninn í boðskap kommúnista og trú, að þeim beri í einu og öllu að fylgja valdboðinu að austan. Það má marka ágæti kommúnista á því, hvort hann rís gegn eða fylgir valdboðinu. Því minna sem hann rís gegn því, þeim mun betri baráttumaður er hann fyrir þessari stóru hugsjón. Þeir telja sér þetta til sóma, en við teljum okkur það til vansæmdar og gerum það því ekki. Hann sagði, að ég vildi ekki standa á móti vilja Bandaríkjanna af ótta við að verða valdalaus. Þegar slitnaði upp úr samvinnunni milli mín og sósíalista út af utanríkismálum, skal ég geta þess, að ég tók einn ákvörðun um, að samvinnunni skyldi slitið. Sósíalistar sátu þá í einu herberginu uppi í stjórnarráði og Alþfl. í öðru. Ég gekk þá á milli herbergjanna og athugaði sjónarmiðin. Ég hef áður sagt frá ástæðunni fyrir því, að ég var svona hikandi. Ég hélt, að það yrði erfitt að stjórna landinu án samstarfs við sósíalista. Ég þóttist sjá, að það væri ekki tjaldað nema til einnar nætur með því að halda áfram samstarfinu, en var hikandi, hvort ekki væri rétt að láta reynsluna skera úr. Síðustu spor mín til þeirra fundarherbergis voru mín síðustu spor til að reyna að ná samkomulagi við þá. Ég fór inn í mitt fundarherbergi og ræddi við mína flokksmenn. Ég kvaddi sósíalista og sagði við þá, að við skyldum ekki ræða meira um þetta. Ég tilkynnti Alþfl. það sama, kallaði síðan saman alla flokkana, og ég veit, að ég segi satt frá, að það kom sósíalistum á óvart, að ég skyldi ekki sarga frekar við þá. Þessa ákvörðun tók ég einn. Ég missti trúna á það, að ég gæti náð grundvelli fyrir samstarfi, en vildi, að stj. gæti staðið áfram, því að hún hafði mörgu góðu til leiðar komið. Ég gat eingöngu gert þetta, og það er sannleikur, að þessa ákvörðun tók ég einn, hvort sem það hefur þótt betra eða verra. — Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta, til að lengja umr. ekki fram úr hófi.