29.11.1951
Neðri deild: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

101. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Herra forsetl. Hæstv. atvmrh. vildi ekki svara nokkrum atriðum í seinni ræðu minni. Það voru einkum tvö atriði, sem fram komu og ég vildi sérstaklega ræða. Ég fullyrti, að þeir, sem nú fara með utanríkismálin hér, hefðu í samningum við Bandaríkin í engu atriði staðið á rétti Íslendinga, heldur hagað sér eingöngu eftir óskum Bandaríkjanna. Ég lýsti því rækilega í fyrri ræðu minni og ætla ekki að endurtaka það nú, en atvmrh. segir, að mikill ágreiningur sé milli Bandaríkjanna og Íslands. Þetta er rangt. Það stendur þannig á, að þegar Bandaríkin semja við Ísland, höfum við góða aðstöðu til að fylgjast með gangi málanna. Það er ekki af því, að ríkisstj. skýri frá gangi slíkra samninga, heldur eru það stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, sem eru gleggsta heimildin. Við getum rakið afstöðu Íslendinga til ýmissa mála, svo sem Marshallsamningsins, Atlantshafsbandalagsins, viðauka við Atlantshafssamninginn og afstöðu Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna. Í hverju einasta atriði sést, að Ísland hefur alltaf hlýtt kalli Bandaríkjanna í einu og öllu. Hæstv. atvmrh. óskaði ekki eftir því að fara inn á einstök atriði. Það getur verið, að það hafi orðið ágreiningur um eitt atriði; þegar Bandaríkin hafa ekki viljað láta þá hafa nema eina millj., hafi þeir beðið um meira. Afstaðan til Bandaríkjanna hefur alltaf verið afstaða styrkþegans til veitandans og ekki annað en það, að styrkþeginn ber sig upp og ber lóminn til að fá sem mest. En í öllum pólitískum málum hefur íslenzka stjórnin hlýtt kalli Bandaríkjanna. Ég vil benda á, að sósíalistar hafa alltaf látið málstað Íslands sitja í fyrirrúmi. Hvaðan hefur hæstv. atvmrh. þau rök, sem hann segir að séu almennt viðurkennd, er hann segir, að kommúnistar lúti Rússum í einu og öllu? Er Morgunblaðið þessar heimildir, eða kannske Tíminn og Alþýðublaðið? (Atvmrh.: Hefur Brynjólfur Bjarnason aldrei sagt það?) Það er ekki hægt að benda á eitt einasta dæmi, þar sem sósíalistar hafa látið Rússland ráða afstöðu sinni. Þeir hafa verið á móti herstöðvum, hvort heldur þær væru rússneskar eða bandarískar, og er ekki hægt að nefna eitt dæmi, þar sem þeir hafi slakað á þessari afstöðu sinni, enda er þetta sú afstaða, sem allir íslenzkir stjórnmálaflokkar eiga að hafa. Ég sagði, að utanríkismálunum væri ólíkt betur komið í höndum hæstv. atvmrh. en hæstv. utanrrh. Þó segi ég ekki, að hann hafi ekki bognað undan áróðri Bandaríkjanna. Því miður. Þó að hann hafi gert það, er ég sannfærður um, að hann hefði haldið betur í spottann en nú er gert; ég þekki hann það vel. En núv. utanrrh. hefur talið sér hagkvæmara í sínum valdastóli að halla sér að einhverjum sterkum. Við getum lesið um það í Sturlungu, að íslenzkir stjórnmálamenn hölluðu sér að Noregskonungi. Þá var sjálfstæði Íslands líka dauðadæmt. Þetta er glöggt dæmi um, að íslenzkir stjórnmálamenn halla sér að erlendu valdi í pólitísku stríði hér. En það þýðir ekki, að hæstv. atvmrh. hafi líka bognað í þessum málum. Það er vitað, að þegar slitnaði upp úr samvinnu Sósfl. við Sjálfstfl., tók hæstv. atvmrh. ákvörðunina, en því trúi ég ekki, að hann hafi dregið yfir sig nautshúð og ekki ráðfært sig við sína flokksmenn. Í hans flokki voru menn, sem vildu halla sér að Bandaríkjunum. Bandaríkin voru orðin svo sterk á alþjóðavettvangi, að það var ekki um annað að ræða en að halla sér að þeim. Það var í fyrsta skipti árið 1949, sem hann tók opinbera afstöðu í áramótaboðskap. Þá tók hann allmikið upp í sig til að sanna þessum mönnum, að hann væri skeleggur í slagnum við kommúnista. Þetta er í fyrsta skipti, sem hann þverbeygir í sinni stefnu. Ég veit, að hæstv. atvmrh. gæti breytt utanríkispólitíkinni, ef hann hefði kjark til þess. (Atvmrh.: Mig hefur aldrei skort kjark.) Hann hefur látið undan síga.

Í áramótaræðunni 1949 gat hann þess, að það þyrfti að koma upp herstöðvum á Íslandi. Þetta kom undarlega við almenning. Því var lýst yfir, að vitanlega kæmi þetta ekki til greina á friðartímum. Það kom vitanlega ekki til greina nema í styrjöld, svo að Rússar notuðu Ísland ekki sem skammbyssu til að koma að baki Bandaríkjanna, eins og það var orðað. Hver hefur raunin svo orðið? Þrátt fyrir hátíðlegar yfirlýsingar þessara herra hafa Bandaríkin komið sínu fram og hafa fengið herstöðvar hér, þó að stríð hafi enn ekki brotizt út. Það eru engar líkur til, að þessar herstöðvar standi í minna en 20 ár. Það er við því búið, að herlið Bandaríkjanna, sem býr í okkar þjóðfélagi, stofni menningu okkar og tungu í hættu. Við fáum að hafa þetta lið í framtíðinni um tugi ára. Þetta er eitt lítið dæmi um það, að Bandaríkin fá allt sitt fram. Það er vert að hugleiða það, að við erum komin á það stig, að við erum búin að glata sjálfstæði okkar með því að hlýða boði og banni erlendra stjórnarvalda, ekki aðeins í utanríkismálum, heldur einnig í innanríkismálum. Sú kreppa, sem hefur verið sköpuð hér, er sköpuð að undirlagi Bandaríkjanna. Það sést hér, að eingöngu er fylgt ráði Bandaríkjanna. Þó að við getum selt framleiðslu okkar við góðu verði, er komin hér kreppa, sem skollin er yfir þjóðina, og er að líkindum verra ástand hjá almenningi en í heimskreppunni 1931. Ég efa ekki, að margir þeirra, sem eru með því að hafa herstöðvar hér í framtíðinni, hugsi eins og valdhafarnir hugsuðu á Sturlungaöld: Ef erlendur her er í landinu, er minni hætta á því, að valdaaðstaða okkar verði rýrð, minni hætta á því, að þjóðin hugsi um að skipta um forustu. — Það hugsa eflaust margir þannig, sem að þessu standa.

Hæstv. atvmrh. gaf tilefni til að fara að ræða störf hæstv. utanrrh., en ég vil ekki taka þeirri áskorun. Hann er víst að stjórna heiminum. Hann situr fund með hinum 12 stóru til að ákveða, hvernig skuli leggja Rússa að veili. Hann þykist sjálfsagt vera að vinna stórvirki. Ég býst við, að flestir, er sitja fundinn með honum, telji hann sjálfan og tilganginn með hans för bókstaflega hlægilegan, og lái ég þeim það ekki. — Ég sagði, að hæstv. atvmrh. væri einn þeirra, sem mörkuðu utanríkisstefnuna, en það er nú svo komið, að hann hefur orðið að heygja sig fyrir ýmsum sjónarmiðum, m.a. fyrir áköfum árásum hæstv. utanrrh., sem hlýðir fyrirmælum Bandaríkjanna í einu og öllu. Er það ekki rétt, að það sé ekki sannfæring hæstv. atvmrh., að rétt sé að stofna sjálfstæði þjóðarinnar í hættu með því að gefa alveg frá sér utanríkismálin og halla sér að erlendu ríki? En hann brestur kjark og aðstöðu til að hafa áhrif á gang málanna og beina þeim inn á aðrar brautir. Sósíalistar hafa varað við þessu, og eru margir íbúar þessa lands fylgjandi þeim aðvörunum. Það er greinilegt, að það er mikill uggur í mörgum hér á landi um það, hvað sé fram undan, ef við verðum leiksoppur í hendi stórveldis. Það er það ömurlegasta, sem fyrir litla þjóð getur komið. Þeir verða fleiri og fleiri, sem sjá, að illa hefur verið haldið á málum Íslands og að þeir menn, sem trúað var fyrir forustunni, hafa brugðizt. Ég er sannfærður um, að takist þjóðinni að öðlast sjálfstæði aftur, þá mun hún dæma þessa menn á sama hátt og hún dæmdi þá menn, sem börðust gegn því, að Ísland losnaði undan valdi Dana.

Hæstv. atvmrh. segir, að hann geti ekki borið ábyrgð á því fyrir Bandaríkjastjórn, hvað hver einstakur þm. kunni að segja á þingi Bandaríkjanna. Ég vil benda á, að það, sem þessi þm. í Bandaríkjunum sagði, var vegna fram kominna krafna frá Englendingum um, að ekki yrðu hafðar kjarnorkusprengjustöðvar í Bretlandi. Ég veit ekki til, að Íslendingar hafi komið fram með nokkur slík mótmæli. En ég veit hins vegar, að Truman sagði, að kjarnorkusprengjan væri aðeins eitt af þeim vopnum, sem her Bandaríkjanna hefði yfirráð yfir, og að það væri á valdi hershöfðingja þeirra; hvenær það vopn væri notað. Það er ekki heldur það, sem skiptir máli hér, hver ber ábyrgð á því, sem einhver þm. í Bandaríkjunum segir, heldur hitt, að Ísland verði ekki gert að kjarnorkustöð. Það hefði því verið full ástæða fyrir Íslendinga að taka það fram, er þeir gerðu varnarsamninginn, að þeir vildu ekki hafa hér kjarnorkustöð.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mál mitt lengra að þessu sinni, en skal aðelns vegna þess, sem hv. 1. þm. Árn. (JörB) sagði um frv., lesa fyrir hann, hvernig þetta er í þingsköpum nú, og svo eins og það er í frv. Í l. eins og þau eru núna hljóðar þetta svo:

„Til utanríkismálanefndar skal vísað utanríkismálum. Utanríkismálanefnd starfar einnig milli þinga, og skal ráðuneytið ávallt bera undir hana utanríkismál sem fyrir koma milli þinga.“ Í frv. er þetta hins vegar orðað þannig:

„Til utanrmn. skal vísað utanríkismálum. Utanrmn. skal kjósa 3 af nm. með hlutfallskosningu og jafnmarga til vara, er séu ríkisstjórninni til ráðuneytis um utanríkismál, jafnt milli þinga sem á þingtíma.“

Vill svo hv. 1. þm. Árn. halda því fram, að þetta sé það sama. Ég býst við, að svo sé ekki.