18.12.1951
Neðri deild: 47. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

148. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er tekið til meðferðar, er á þskj. 367 og er um breytingu á lögum nr. 62 frá 1939, um tollskrá o.fl. Frv. er flutt af hv. fjhn. Ed. eftir beiðni hæstv. fjmrh. Í grg. með frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjármálaráðuneytinu hafa borizt ýmsar beiðnir um breytingar á tollskrárlögunum. Hefur ráðuneytið tekið upp í frv. þetta þær af þessum brtt., sem því hafa fundizt á rökum reistar.

Einnig hefur komið í ljós við framkvæmd laganna, að nauðsynlegt er að breyta nokkrum atriðum, og eru þau tekin upp í frv. Brtt. þær, sem í frv. felast, eru sem sagt aðeins leiðréttingar. og um þær allar má segja, að þær hafa sáralitla fjárhagslega þýðingu fyrir ríkissjóð.“

Brtt. þessar, sem í frv. felast, eru sem sagt aðeins leiðréttingar og hafa litla fjárhagslega þýðingu fyrir ríkissjóð. — Á þskj. 472, sem er nál. frá fjhn., mælir n. eindregið með því, að frv. verði samþ.