12.11.1951
Neðri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, leggur til, að stofnað verði hlutafélag, sem á að heita Iðnaðarhanki Íslands h/f. Enn fremur er lagt til, að ríkissjóður leggi fram til þessa hlutafélags allt að 21/2 millj. kr. En meiri hl. iðnn. hefur lagt fram brtt. um, að ríkið skuli leggja fram allt að 3 millj. kr.

Í sambandi við þetta mál, stofnun nýs banka, hljóta að vakna ýmsar spurningar og þá fyrst og fremst sú: Er þörf á fleiri bönkum hér en nú eru? Geta þeir, sem fyrir eru, ekki sinnt þeim verkefnum, sem bankar eiga og þurfa að sinna? Vantar ekki fremur peninga en fleiri peningabúðir? Ég hygg, að svo sé. Enn skyldu menn hafa í huga, hvað stofnun og rekstur slíks nýs banka mundi kosta. Bankinn þari húsnæði, hann þarf bankastjórn og annað starfslið. Allt kostar þetta mikið fé. Það er því ekki þjóðhagslega heppilegt að hafa fleiri slíkar stofnanir en brýn þörf er til og þjóðfélagsleg nauðsyn. — Eitt er það líka, sem þarf að koma til athugunar í sambandi við þetta: Er þörf fyrir iðnaðarbanka vegna þess, að hlutur iðnaðarins sé fyrir borð borinn hjá þeim bönkum, sem nú eru starfandi, svo að betur yrði séð fyrir hörfum iðnaðarins með stofnun þessa banka? Í bréfi frá Landsbanka Íslands segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Höfuðröksemdir forgöngumanna málsins eru þær, að iðnaðurinn sé afskiptur að lánsfé, miðað við aðra atvinnuvegi. Um slíkt má deila, en erfitt mun að færa fram sönnur fyrir því.“ Ég hygg, að það sé rétt, að ekki sé hægt að slá því föstu, að iðnaðurinn sé afskiptur. Spurningin er þá, hvort iðnaðurinn fái ekki þau rekstrarlán hjá bönkunum, sem geti talizt eðlileg og sanngjörn, samanborið við aðra atvinnuvegi. Þetta er sjálfsagt að athuga.

Það er talað um það, að hér þurfi sérstakan iðnaðarbanka, eins og sjávarútvegur og landbúnaður hafa sérstakar bankastofnanir. Við þetta er það að athuga, að verkefni og starfsemi Útvegsbankans og Búnaðarbankans er alls ekki einskorðað við sjávarútveg og landbúnað, þótt þeir beri þessi nöfn. Í lögum um Útvegsbankann er svo ákveðið, að verksvið hans skuli vera að styðja sjávarútveg, verzlun og iðnað landsmanna, og starfsemi hans mun hafa miðazt við það. Það er líka kunnugt; að Búnaðarbankinn hefur mikil viðskipti við aðra en bændur og þar með vafalaust við ýmsa íðnaðarmenn.

Vitanlega vantar iðnaðinn meira fjármagn, það skal ekki dregið í efa, en það er ekkert einsdæmi um þann atvinnuveg. Aðra atvinnuvegi vantar líka meiri peninga, og fjármagn vantar til alls konar framkvæmda í okkar landi.

Eitt af því, sem menn verða að athuga í sambandi við þetta mál, er það, hvort betur verði séð fyrir lánsfjárþörf iðnaðarins en nú er gert með stofnun nýs banka. Því skal ekki neitað, að sá möguleiki sé til, þ.e.a.s. þegar fram líða stundir, að þannig verði bætt úr lánsfjárþörf hans, en hitt er sýnilegt, að fyrst um sinn verður þessi bankastofnun ekki til þess að bæta úr lánsfjárþörfinni. Það skapast ekkert nýtt fjármagn við stofnun bankans, sem ekki er nú þegar til án nýrrar bankastofnunar. Þetta er mikilsvert atriði í málinu. Það ríkisframlag, sem bankanum er ætlað, kemur til þarfa iðnaðarins hvort sem bankinn verður stofnaður eða ekki. Hitt stofnféð til bankans á að koma frá iðnaðarmönnum sjálfum. Ef iðnaðarmenn ráða yfir meira lansafé, sem nú er utan við banka og sjóði og hugsanlegt er, að kæmi í þennan banka, gætu þeir eins veitt aðstoð sína með því að leggja það fé í einhvern af þeim bönkum, sem fyrir eru. Þegar um Reykvíkinga er að ræða, gætu þeir einnig lagt féð í Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, sem stofnaður var af iðnaðarmönnum og starfræktur af forgöngumönnum iðnaðarins. Ef hins vegar verður aflað fjár til þessa banka með því að taka sparifé út úr hinum bönkunum, hlýtur það að leiða til samdráttar í útlánum þeirra. Er þá sennilegt, að það mundi ekki koma sízt niður á iðnaðinum, ef kunnugt væri, að tekið væri fé úr bönkunum til þessa nýja banka. Í náinni framtið mundi iðnaðarbankinn ekki hafa neitt svipað fé til umráða og iðnaðurinn hefur nú frá hinum bönkunum.

Um stofnfjárþörf iðnaðarins er það að segja, að ef fjármagn væri til, sem verja mætti til stofnlána handa iðnaðinum, mætti gera það með því t.d. að efla iðnlánasjóð. Hann hefur of lítið fé. Ég hef í höndum síðasta reikning iðnlánasjóðs, og hans heildarfjármagn var ekki nema um 2 millj. kr. um síðustu áramót. Það undarlega er, að þó að hann hafi nú ekki meira fé, þá hefur það ekki verið notað allt til iðnaðarlána. Samkvæmt síðasta reikningi sjóðsins er um 1/4 hluti hans, eða um 1/2 millj. kr., í reiðufé, en ekki útlánum, hvernig sem á því stendur. Maður skyldi ætla, að iðnaðurinn hefði reynt að nota sjóðinn og það, sem í honum er.

Ég hef hreyft hér ýmsum spurningum, sem hljóta að vakna í sambandi við frv. og þarf að fá svarað, áður en ákvörðun er tekin um þetta mál. En einmitt nú vill svo til, að það er n., sem starfar að því að athuga bankamálin, n., sem skipuð var af hæstv. núv. viðskmrh. Í þessari n. eru sérfróðir menn um banka- og fjárhagsmál, og í henni eru menn úr þremur stjórnmálaflokkum. Minni hl. iðnn. sendi frv. þetta til umsagnar þessari bankamálan., og n. skýrir frá því meðal annars, að hún sé þeirrar skoðunar, að frv. um Iðnaðarbanka Íslands h/f fjalli um mál, sem sé innan verksviðs n., og telur því ekki heppilegt eða tímabært, að Alþ. samþ. frv. um stofnun iðnaðarbanka, áður en hún hefur skilað áliti, en leggur til, að málínu verði frestað á Alþ., þar til þetta allt liggur fyrir, og um þetta eru bankarnir sammála bankamálanefndinni.

Minni hl. sendi einnig bönkunum frv. til umsagnar, og hefur borizt bréf frá Landsbanka Íslands um þetta mál, þar sem segir, í niðurlagi þess bréfs, að bankastjórnin hafi rætt þetta við bankastjórnir Búnaðarbankans og Útvegsbankans og hafi þær tjáð sig samþykkar umsögn Landsbankans. — Þessi álit frá bankamálan. og bönkunum þremur — er óhætt að segja — eru prentuð hér með í nál. okkar, og sé ég ekki ástæðu til að rekja frekar það, sem þar kemur fram. Geri ég ráð fyrir, að hv. þdm. hafi kynnt sér umsagnir þessara aðila, en eins og ég sagði áðan, leggja þessir aðilar til, allir bankarnir og bankamálan., að þessu máli verði frestað að sinni og beðið eftir áliti bankamálan. Það tel ég líka, að sé alveg sjálfsögð málsmeðferð, og ætti ekki að þurfa um það að deila. Fyrst þessi n. hefur verið skipuð af ráðh. til þess að athuga þetta mál, ætti að mega fresta þessu, þar til umsögn hennar liggur fyrir, enda gæti ekki ef því orðið neitt tjón, þar sem ráðh. hefur lýst yfir, að fjárframlag ríkissjóðs til iðnaðarins verði tryggt fyrir næstu áramót, hvort sem þetta frv. verður samþ. eða ekki. — Minni hl. iðnn. hefur því lagt til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, sem prentuð er í nál. okkar og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að stjórnskipuð nefnd vinnur nú að athugun bankamálanna og hefur m.a. það verkefni að gera tillögur um lánveitingar til iðnaðarins, telur deildin rétt að fresta ákvörðun um það, hvort stofna skuli sérstakan iðnaðarbanka, þar til álit og tillögur bankamálanefndarinnar liggja fyrir, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Við væntum þess, að hv. þd. komist að þeirri niðurstöðu, að þetta sé eðlilegasta málsmeðferðin, og fallist á þessa dagskrártill. okkar.