06.12.1951
Neðri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

96. mál, menntaskólar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég varð forviða, þegar ég las brtt., sem meiri hl. menntmn. hefur flutt á þskj. 324 og hv. þm. N-Þ. mælti fyrir í ræðu sinni áðan. Hv. þm. N-Þ. lauk máli sínu með því að segja, að hann vænti þess, að afstaða þessarar d. yrði nú hin sama og í fyrra. Ég get ekki séð, hvernig hann getur lokið meðmælaræðu með brtt. meiri hl. n. með þessum orðum, þar sem meiri hl. n. leggur nú allt annað til en þessi d. samþ. í fyrra. Það, sem hér er farið fram á með þessari brtt., er, að þessi d. breyti afstöðu sinni frá því í fyrra. Í fyrra kom fram frv. um það að heimila ríkisstj. að láta tveggja ára óskipta miðskóladeild starfa við menntaskólann á Akureyri. Þessi hv. d. breytti því frv. þannig, að heimildin skyldi gilda fyrir menntaskólana báða; það var ótvíræð afstaða d. í fyrra, og ef d. er enn sömu skoðunar, eins og hv. þm. N-Þ. var að óska, þá á hún auðvitað að fella brtt. meiri hl. menntmn., sem einmitt fer fram á, að heimildin nái aðeins til skólans á Akureyri, en ekki til skólans í Reykjavík. En ég tek undir þá ósk hv. þm. N-Þ., að d. sé enn sömu skoðunar og í fyrra, því að af því mun leiða, að till., sem hann mælti fyrir, verður felld.

Mig undraði, að tveir þm. Reykjavíkur skyldu standa að þessari brtt., þ.e.a.s. form. n., hv. 7. þm. Reykv., og hv. 9. landsk. þm. Það, sem hér er gert ráð fyrir, er, að menntaskólinn í Reykjavík sé settur á annan bekk og að því er virðist óæðri heldur en skólinn á Akureyri. Það er auðséð, að það, sem hér er að stefnt, er, að núgildandi skipulagi menntaskólanna sé breytt, þó að heimildin sé hér aðeins miðuð við tvö ár, því að það vita allir, sem til röksemda þeirra þekkja, sem færðar eru fram fyrir þessu máli, að það er skoðun forsvarsmanna þess, að skipulagið eigi að vera til frambúðar, þ.e.a.s., að aftur eigi að breyta menntaskólunum í 6 ára skóla, og ef svo er, þá er óskiljanlegt, hvers vegna sams konar heimild má ekki gilda fyrir menntaskólann í Reykjavík. Það kann vel að vera, að menntaskólinn í Reykjavík óski ekki eftir að svo stöddu að notfæra sér þessa heimild, og rektor menntaskólans hefur sagt, að það sé engan veginn víst, að hann muni fara þess leit við menntmrn. að fá þegar í stað að starfrækja slíka miðskóladeild. En ef svo fer, að húsakostur menntaskólans í Reykjavík verður bættur eða skipulagsháttum skólans breytt, þá mundi það mjög vel koma til greina að fara fram á að fá að nota slíka heimild, og það er, að mér finnst, óskiljanleg rangsleitni í garð skólans í Reykjavík að vilja ekki setja hann á sama bekk og skólann á Akureyri að þessu leyti.

Um málið sjálft ætla ég alls ekki að ræða, ég ræddi það í stuttri ræðu við 1. umr. og sé ekki ástæðu til að endurtaka það. En undir það vil ég taka, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að mér er óskiljanlegt, hvers menntaskólinn í Reykjavík á að gjalda í þessu sambandi. Ég lýsi mig þess vegna andvígan þessari brtt. meiri hl. n., og ef hún er samþ., þá treysti ég mér ekki til að fylgja frv. og mun þá greiða atkv. gegn því til 3. umr.