14.01.1952
Efri deild: 58. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta er eitt þeirra mála, sem tafizt hefur fyrir Alþ. að afgreiða, og er þó ekki annað hægt en viðurkenna, að málið sé mjög aðkallandi. Það mun hafa verið árið 1947, að Alþ. samþ. að láta fara fram endurskoðun á öryggismálunum, og var skipuð nefnd til þess að framfylgja þessum vilja Alþingis. Ríkisstj. skipaði þá dr. Jón E. Vestdal og Sæmund Ólafsson í n. Alþýðusamband Íslands tilnefndi Kristin Ág. Eiríksson, Landssamband iðnaðarmanna Guðmund H. Guðmundsson og Félag íslenzkra iðnrekenda Pál S. Pálsson. Þarna voru saman komnir menn, sem höfðu bæði áhuga og þekkingu á starfinu. Þessi n. viðaði svo að sér gögnum erlendis frá og einnig innanlands, og ég hygg, að ekkert hafi verið sparað af n. hálfu til að vinna störf sín sem bezt og gera þessa löggjöf sem bezt úr garði. Frv. þessarar mþn. var svo lagt fyrir Alþingi árið 1948, en náði ekki fram að ganga. Svo er það flutt á tveim næstu þingum og allt fer á sömu leið, og svo er enn lagt til, að frv. verði vísað frá.

Frá því að frv. var fyrst flutt hér, hefur það mikið breytzt. Hefur verið fellt úr því bæði margar greinar og jafnvel heilir kaflar, og svo hefur verið bætt inn í það mörgum greinum til viðbótar. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að minnka skriffinnskuna, en hitt er svo vafasamara, hvort öryggið hefur nokkuð aukizt við það. Ég skal nú ræða þetta mál nokkru nánar, eins og það nú liggur fyrir. — Ég er sammála hv. flm. um það, að niðurfellingar þær, sem gerðar voru í hv. Nd., séu miklar skemmdir á frv., og það yrðu skemmdir í viðbót, ef till. hv. minni hl., hv. þm. Barð. og hv. þm. Vestm., yrðu samþ., þó að ég geti fallizt á nokkrar þeirra, því að ég skal játa það, að við athugun á frv. hef ég rekið mig á nokkur smásmuguleg atriði, sem skemma það og mætti feila burt, ef ekki er farið inn á breyt., sem rýra það sem öryggismál.

Löggjöfin, sem nú er í gildi, er frá 1928. Allir eru sammála um það, að á því tímabili hafa orðið geysilegar breytingar á iðnþróuninni í landinu og rekstur flestra atvinnuveganna breytzt með aukinni tækni og notkun stórvirkra véla. En samtímis því hefur líka slysahættan aukizt. Þess vegna er það ekki vafamál, að ástæða er til að breyta l. frá 1928 og auka við þau. Það var ætlunin 1948 að framkvæma slíka breyt., en þingið bægði þá frá sér þessum vanda, og var það lítt til sæmdar. Þörfin hefur verið brýn að breyta löggjöfinni vegna þeirrar atvinnuþróunar, sem orðið hefur síðan 1928, og Alþ. bar að gera það, þegar frv. var borið fram 1948, svo vandlega sem málið var undirbúið. En nú — árið 1952 — hefur málið enn ekki fengið afgreiðslu, og líkur eru á því, að Alþ. drepi málinu á dreif einnig nú og láti afgreiðslu þess undir höfuð leggjast.

Ég skal þá víkja nokkuð að till. hv. minni hl. og skal reyna að vera stuttorður, þó að full ástæða væri til að ræða málið rækilega.

Hv. till.-menn vilja gera þá breyt. á 1. gr. frv., að hún nái ekki til fyrirtækja, sem hafa færri en þrjá verkamenn, en eins og frv. er nú, eiga l. að ná til allra fyrirtækja, sem hafa einn mann eða fleiri í þjónustu sinni. Það er að vísu svo, að minna er í húfi þar, sem færri vinna, en eðli atvinnugreinarinnar getur verið svo háttað, að þessi eini maður sé í háska staddur við þjóðnýtilegt starf, og get ég ekki séð, af hverju á ekki að tryggja hann fyrir hættu, ef svo er. Ég gæti hins vegar fallizt á það, að eftirlit með fyrirtækjum, sem hafa aðeins einn mann í þjónustu sinni, væri því aðeins skylda, að slysahætta væri í sambandi við starfið. Það þarf vissulega að gæta lífs eins verkamanns, ef hann stundar hættulegt starf. Ég álít því, að fella eigi þessa brtt. og að l. eigi að ná til slíkra smáfyrirtækja, et öryggisútbúnaður er slæmur eða verkamaðurinn í háska staddur.

Þá gæti ég verið samþykkur því, að verksmiðjuskip væru ekki talin með í þessu frv., ef tryggt væri, að verksmiðjuvélar í skipum féllu undir skipaskoðunina, en ég er ekki viss um, að skipaskoðunin telji sér skylt að skoða slíkar vélar. Ég efa ekki, að hún skoðar aflvélar, en ég efast um, að hún skipti sér af eftirliti með verksmiðjum í skipum, og ef svo er ekki, þá hlýtur það eftirlit að falla undir þessi lög.

Þá get ég verið sammála hv. þm. Barð. og meðflm. hans um það, að ekki er brýn nauðsyn til þess að setja skrifstofuvinnu undir þetta eftirlit. Það er ef til vill sú tegund vinnu, þar sem slysahættan er minnst og sízt ástæða til að setja undir þetta eftirlit. Ég gæti því fallizt á, að þessi vinna væri ekki eftirlitsskyld. Það ar rétt, að það mundi auka mikið skriffinnsku við framkvæmdina og miklu meira en að láta landbúnaðinn heyra undir þetta, og ég er sammála því, að sannarlega er ekki siður þörf á eftirliti með landbúnaðarstörfum en þeim störfum, sem unnin eru í þéttbýli.

Næsta brtt., sem ég vildi víkja að, er 4. brtt., við 7. gr., um að atvinnurekanda sé skylt að setja auglýsingu á áberandi stað um að óviðkomandi sé bannaður aðgangur. Þetta tel ég sjálfsagt, og er ég till. samþykkur.

Þá er það brtt. við 8. gr., um að síðasti málsl. falli niður, en hann er um það, að í sambandi við þá vinnu, sem hefur í för með sér óvenjulega mikla hættu fyrir líf, limi eða heilbrigði verkamanna eða er óvenjulega erfið, þá geti ráðh. sett reglur um aukinn öryggisátbúnað og í þeim reglum takmarkað vinnutíma eða bannað, að verkamaður innan 18 ára framkvæmi vinnuna. Ég tel, að gr. fjalli um svo sérstaklega hættulega vinnu, að það sé ekki út í hött að banna, að unglingar vinni hana, og tel ég því ekki til bóta að fella þetta niður. Ég tel rétt, að í þessum einstöku tilfellum séu aðeins valdir til vinnu ráðsettir menn, þar sem það gæti orðið til þess að fyrirbyggja slys. Ég mun því greiða atkvæði á móti 5. brtt.

Þá er brtt. við 9. gr. Ég skal játa, að það er fremur hagsmunaatriði fyrir verkamenn, að atvinnurekendum sé skylt að greiða læknisskoðunina, því að þeir hafa ekki verið vanir að gera það, og gæti ég því samþ. till. Þetta ákvæði stendur í sambandi við atvinnusjúkdóma, en í 9. gr. stendur, að ráðh. geti ákveðið, í samráði við öryggismálastjóra, að fram fari reglubundin læknisskoðun verkamanna, enda sé ástæða til að ætla, að á þann hátt megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma til muna. Þegar svo stendur á, er vinnuveitandi skyldugur til að gefa verkamanni frí frá störfum án skerðingar á kaupi, til þess að skoðun geti farið fram. Þetta er hagsmunaatriði, og ég fel sæmilegt, að atvinnurekendur greiði óskert kaup, ef skoðunin tekur ekki lengri tíma en hálfa klst.

Hvað því atriði viðvíkur, að nauðsynlegt sé að hafa eftirlit með affermingu og fermingu skipa, þá er það hafið yfir allan efa, því að slys eru tíð við þessa vinnu, t.d. í lestum og við skipshlið. Notaðar eru þungar vélar og lyftitæki, sem eftirlitið á að ná til.

Svo skal ég fara fljótt yfir sögu. Ég er á móti öllum tili., sem fjalla um að fella heilar greinar niður. Þó að sum atriði orki tvímælis, eru öryggisráðstafanirnar skertar með því að fella þær niður. Þannig er um 14., 16., 17. og 21. gr., sem hv. minni hl. vill að falli niður.

Í 16. gr. segir, að ekki megi taka öryggisútbúnað af vél, meðan hún er í notkun. Er það ekki sjálfsagt? Þar segir enn fremur, að á meðan vél er í gangi, megi ekki leggja á hana reim, snúru eða annað þess háttar, hreinsa hana, smyrja eða gera annað svipað við hana, nema stöðva hana. Er það ekki líka sjálfsagt? — Svo er það síðasta ákvæði 16. gr., sem ég vildi minnast á, að ekki megi nota hanzka, vettlinga eða annað þess háttar við vörzlu véla, ef það kann að auka slysahættuna. Því er haldið fram, að allir noti vettlinga, en er ekki sjálfsagt að banna það, ef slysahætta fylgir því og óþarfi er að hafa vettlinga? Það er hörmulegt, ef slys verða af þeim sökum, að menn eru með vettlinga við störf, og það því fremur ef óþarfi er að hafa vettlinga. Því brýnni er þörfin að banna það og draga þannig úr slysahættunni.

Þá er það 16. till., um að V. kafli (28.–30. gr.) falli niður. Hér er lagt til, að felldur verði niður heill kafli frv. til viðbótar við þær niðurfellingar, sem áður hafa verið gerðar, og stefnir þetta allt að því að skemma frv. og draga úr, að sem beztur árangur náist.

Ég skal nú hlaupa yfir nokkrar greinar, til þess að tefja ekki umræður um of.

Að því er varðar 20. brtt., a-liðinn, er ég honum samþykkur. Ég tel rétt, að eftirlitið nái til allra véla undantekningarlaust, og þessi till. er því sjálfsögð. — Þá er það b-liður till. Mér er ekki ljóst, hvernig hv. minni hl. hefur hugsað sér framkvæmd þeirrar till. Þar segir, að starfsmenn eftirlitsins skuli skyldir að kenna við skóla landsins án aukagreiðslu varnir gegn slysum skv. reglugerð, sem ráðh. gefur út, að fengnum till. forstjóra véla- og skipaeftirlitsins. Ég býst við, að hv. till.- menn hafi myndað sér skoðun um, við hvaða skóla kennslan á að fara fram. Vitanlega getur ekki verið um alla skóla landsins að ræða, því geta þessir menn ekki annað, svo að sennilega er um einn eða tvo skóla að ræða, kannske þá skóla, þar sem iðnaðarmenn eru að námi og undirbúa sig undir starf sitt. Þá er hugsanlegt, að þetta geti stuðlað að því að fyrirbyggja slys í framtíðinni.

Í 21. till. er lagt til, að 36. gr. falli niður. Í 36. gr. eru m.a. ákvæði um það, að öryggiseftirlitið skuli beita sér fyrir rannsóknum á útbreiðslu atvinnusjúkdóma og vinna að útrýmingu þeirra. Hvers vegna á að fetla þetta niður? (GJ: Það hefur annað verkefni.) Hverjum ber fremur að sinna þessum málum en öryggiseftirlitinu? Það er beinlínis skylda þess að gera það. — Þá er lagt til að fella niður, að trúnaðarlæknir verði öryggiseftirlitinu til aðstoðar í öllum þeim málum, sem snert geta heilbrigði verkamanna, og að leita skuli álits hans áður en læknisskoðun er fyrirskipuð skv. 9. gr. l. Ég tel rétt og sjálfsagt, að trúnaðarlæknir hafi slíkt starf með höndum eða aðrir læknar, ef það er jafntryggt. Ég álít, að þessi grein eigi ekki að falla niður og að það væru skemmdir á frv. að samþ. þessa till.

Viðvíkjandi innheimtuaðferðinni á skoðunargjaldinu, þá hef ég tilhneigingu til að fylgja þeim lið í till. hv. minni hl.

Þá er það mikilsvert atriði, hvort ekki sé heppilegt, að allt eftirlit, sem nú er með skipum, flugi, bifreiðaflutningum og verksmiðjum, verði sameinað undir eina yfirstjórn, og hvort ekki sé hægt að draga úr kostnaði við eftirlitið með því móti. Ég skyldi sízt vera á móti því, ef hægt væri að sýna, að spara mætti fé með því móti. Mörgum stendur stuggur af þeim kostnaði, sem eftirlitið hefur í för með sér, en hann er mestur við bifreiðaeftirlitið og skipaskoðunina, en langminnstur við það eftirlit, sem hér er um að ræða. Mér finnst því eðlilegt, að Alþ. setji þessa löggjöf hvað sem kostnaðinum líður svo að þessum málum verði komið í viðunandi horf. Umbætur eru nauðsynlegar á þessu sviði, og er ekki annars að vænta, þegar þess er gætt, að núverandi löggjöf er frá árinu 1928 með smábreyt., sem gerðar voru árið 1940.

Ég vil því leggja áherzlu á það, að l. verði afgr. á þessu þingi, en jafnframt að það er æskilegt, að hæstv. ríkisstj. láti rannsaka nánar, hvort ódýrara er og „effektívara“ að hafa allt þetta eftirlit undir einni yfirstjórn. Sá, sem til þess yrði valinn að fara með þessi mál, yrði að vísu að hafa mjög yfirgripsmikla þekkingu á skipum, flugvélum, bifreiðum og hvers konar vélum. Ég efa, að nokkur einn maður hafi svo yfirgripsmikla þekkingu, og yrði hann þá að hafa sérfræðinga sér til aðstoðar, sem væru „autorifet“ hver í sinni grein. Þá gæti svo farið, að sparnaðurinn yrði hverfandi. En það er hlutverk hæstv. ríkisstj. að láta rannsaka þetta, og það er ekki verra að gera það, þó að löggjöfin frá 1928, um eftirlit með verksmiðjum og vélum, hafi verið endurbætt. Sameiginleg ósk hv. meiri hl. og hv. minni hl. um, að slík rannsókn fari fram, ætti því sízt að verða þessu frv. að fótakefli, og teldi ég mjög miður, ef málið verður nú afgr. með frávísun til hæstv. ríkisstj. út frá því sjónarmiði.

Ég vænti þess, að frv. verði ekki spillt meira en orðið er með niðurfellingum, og fylgi ekki öðrum brtt. en ég hef sagt og ég tel að ekki spilli því öryggi, sem frv. er ætlað að skapa. Það væri vansæmd á vansæmd ofan fyrir Alþ., ef það afgr. ekki málið á þessu þingi. Það má segja, að kostnaður við þetta verði mikill, en það ber fyrst og fremst að hugsa um það, að öryggi fólksins verði betur borgið en gert var með þeim l., sem sett voru 1928. Það er fyrst og fremst það sjónarmið, sem á að ráða, er menn taka afstöðu til málsins, og treysti ég því, að menn geri það.