18.01.1952
Efri deild: 64. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Ég vildi spyrja hv. 6. landsk.: Telur hann þetta fullkomna rannsókn á málinu, að aðeins hefur verið aflað umsagna frá þessum tveimur mönnum? Hann hefur lesið upp þeirra umsagnir, en það snertir þá persónulega sjálfa. Það eru engir aðrir dómarar settir í það mál en þeir, og ætti annar hvor að víkja, ef starfið væri lagt niður. Þessir menn eru á fullum launum fyrir starf sitt í þessum stofnunum, en fá svo stórar fúlgur fyrir störf, sem þeir vinna jafnframt annars staðar, og er ekki ósennilegt, að þeir teldu þessa bitlinga sína ekki í lítilli bættu, þannig að þeir fengju ekki leyfi til að stunda þessi aukastörf, ef skipt væri um yfirstjórn.

Ég get nefnt sem eitt dæmi um þennan málflutning, að skipaskoðunarstjóri tekur fram í bréfi sínu, að skipaskoðunin hafi aldrei haft neinn vélaverkfræðing. Það lítur nú helzt út fyrir, að skipaskoðunarstjóri sé orðinn eitthvað kalkaður, þar sem hann er sjálfur vélaverkfræðingur og var einmitt þess vegna settur í þetta starf. Og svo heldur hann því fram, að skipaskoðunin hafi aldrei haft neinn vélaverkfræðing í þjónustu sinni. Ég verð að segja, að þegar annað eins og þetta kemur fram í umsögn um málið, þá fer maður nú að taka lítið mark á því, sem kemur fram frá þessum mönnum.

Ég skal ekki tefja umr. um þetta mál, þar sem ég hef gert skýra grein fyrir afstöðu minni, fyrst þegar frv. var til 2. umr. Í þessum umsögnum hefur ekkert það komið fram, sem hnekki röksemdunum fyrir því að sameina þessar tvær stofnanir, enda veit ég ekki, hvaða störf í landinu gætu hefur fallið saman en verksmiðjueftirlitið og skipaskoðunin. Nei, það er allt annað, sem virðist vaka fyrir þessum mönnum með því að gefa þessar umsagnir, en málið sjálft.