21.01.1952
Efri deild: 67. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Haraldur Guðmundsson:

Ég vil segja það um þessar brtt. yfirleitt, að við Alþfl: menn erum þeim andvígir. — Um 1. till., um að fella undan eftirliti öll fyrirtæki, þar sem ekki vinna nema einn maður auk stjórnanda, er það að segja, að ég er andvígur þeirri till. og álit ekki ástæðu til að fella þessi fyrirtæki undan. Hv. þm. Barð. nefndi það réttilega, að aðalatriðið í sambandi við þessa löggjöf væri að veita fólkinu sem mest öryggi, og það er ómögulegt að segja það í fullri alvöru, að það sé minni þörf á slíku öryggi fyrir fyrirtæki, sem hefur einn verkamann auk stjórnanda, heldur en tvo; þar getur landbúnaðurinn verið alveg jafnhættulegur, ef fyrirtækið er þess eðlis, og ég hef enga trú á, að það muni verulegu á kostnaðinum.

Að því er snertir 2. till. meiri hl., við 32. gr. að fella niður, að trúnaðarlæknir öryggiseftirlitsins sé kennari í heilsufræði við Háskóla Íslands, þá virðist mér þetta byggt á misskilningi. Hv. þm. Barð. segir, að hér sé verið að stofna nýtt embætti. Ég hef ekki skilið gr. svo. Í 1. málsgr. 32. gr. eru taldir upp fastir starfsmenn öryggiseftirlitsins, en trúnaðarlæknir er ekki talinn þar með, af því að ekki er gert ráð fyrir, að það sé fast embætti. Hins vegar er sú kvöð lögð á með l., að kennari við Háskóla Íslands í heilsufræði skuli vera trúnaðarlæknir öryggiseftirlitsins. Það er enginn vafi, með tilliti til 1. málsgr., að þetta er ætlunin.

Um brtt. minni hl. vil ég segja það, að ég vil taka undir ummæli hv. þm. Barð., að það sé í rauninni óeðlilegt að undanskilja landbúnaðinn, þar sem um verulegan vélakost er að ræða, enda voru ákvæði um þetta í frv. upphaflega, og ég hefði talið betra, að þau ákvæði héldust í l., en eins og hv. þm. er kunnugt, þá var með yfirgnæfandi meiri hl. samþ. í Nd. að fella þessi ákvæði úr frv., en í upphaflega frv. voru þau ákvæði látin taka til landbúnaðarins eins og annarra atvinnugreina. Ég álít því, að það að setja þetta nú inn í frv., sem hv. þm. Barð. leggur til, væri sama sem að stöðva málið, og vil ég ekki eiga á hættu, að frv. strandi á því, að þetta ákvæði sé sett inn, því að ég veit, að eins og hv. Nd. er skipuð, eru ekki líkur til, að það fáist samþ. Ég verð því, þrátt fyrir það að ég sé sammála hv. þm. Barð., að greiða atkv. gegn þessari brtt. hans og hv. þm. Vestm.

Ég hef svo ekki fleira um frv. að segja. Þó að þessar brtt. frá meiri hl. n. verði samþ. og ég telji þær til skemmda á frv., mun ég samt fylgja því, þó að svo takist til, að þær verði samþ.