29.10.1951
Efri deild: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði hér áðan, að það eru áratugir liðnir síðan Vestfirðingar fóru að svipast um eftir vatnsföllum vestanlands, sem gætu orðið orkugjafar fyrir þann landshluta. En það hefur reynzt svo tafsamt verk fyrir raforkumálastjórnina í landinu að rannsaka vatnsrennslið og virkjunaraðstöðuna við vatnsföllin innanvert við Arnarfjörð, viðkomandi Dynjandisá og Mjólká, að þeirri rannsókn hefur ekki lokið enn. Og þegar rætt hefur verið við raforkumálastjóra um þessi mál og möguleikana til framkvæmda, þá hefur hann jafnan upplýst, að enn þá væri ekki búið að rannsaka til fulls raforkumöguleika ánna og ekki enn þá komizt að niðurstöðu um, hvernig heppilegast mundi að virkja á þessum stöðum. Síðast í sumar upplýsti raforkumálastjórinn í viðtali við mig, að ekki væri búið að skera úr því, með öllum þessum rannsóknum raforkumálastjórnarinnar, hvort heppilegra væri að reisa þarna tvö orkuver, annað við Dynjandisá og hitt við Mjólká, eða að leiða vatnsföllin saman uppi á fjöllum og hafa orkuverið eitt. Og þykir mér furðulegt, að það skuli hafa vafizt fyrir raforkumálasérfræðingum í áratugi, eftir að iðnfróðir erlendir menn hafa gert athuganir um þetta og þær athuganir verið endurskoðaðar af einum sérfræðingnum á fætur öðrum. Og þegar litið er á það, hve seint hefur sótzt að rannsaka þessi tvö ákveðnu vatnsföll, þá dáist ég að því, hversu fljótt það hefur gengið fyrir þessari sömu stofnun, sem stjórnar raforkumálunum í landinu, að rannsaka fjögur eða fimm vatnsföll í Barðastrandarsýslu nú á einu sumri, með einni snarlegri reisu einhvers embættismanns frá raforkueftirlitinu, þar sem eftir þessa athugun á einu sumri liggja nú fyrir útreikningar um virkjun á hverju vatnsfallinu fyrir sig og einnig liggja fyrir fullyrðingar um það, að hægt sé að fullnægja raforkuþörf viss hluta af Vestfjörðum með virkjun þeirra vatna. Eftir að sjá þetta, fer ég nú að freistast til þess að álita, að ef áhugi hefði verið mikill fyrir virkjun Dynjandisár, hefði verið hægt fyrir raforkumálastjórnina að komast að niðurstöðu um virkjunarmöguleika og virkjunartilhögun við þessa á á miklu skemmri tíma en til þess hefur farið að athuga þetta í sambandi við Dynjandisá, og þó með svo takmörkuðum árangri, sem raun ber vitni.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er, eins og það ber með sér, engan veginn um það, hvernig leyst verði úr raforkuþörf Vestfjarða allra. Það fjallar eingöngu um hugsanlega möguleika til þess að leysa að einhverju leyti úr raforkuþörf Barðstrendinga og einkum Vestur-Barðstrendinga, skilst mér. Það væri vei, ef hægt væri að ráðast í einhverjar af þessum virkjunum sem skjótast og leysa þannig úr raforkuþörf t.d. kauptúnanna Patreksfjarðar og Bíldudals, og óskandi, að þegar til ætti að taka, stæði þá ekki á einhverjum athugunum og niðurstöðum og mælingum og rannsóknum og áætlunum frá raforkueftirliti ríkisins, svo að framkvæmdir tefðust af þeim sökum. Ég sé, að ýmiss konar fyrirvarar eru í þessum áætlunum, sem hér eru fram settar. Þar er sagt, t.d.: „Verið getur, að hin háa stífla í tilhögun í verði fjárhag virkjunarinnar ofviða.“ Þeir eru ekki komnir að niðurstöðu um þetta, þegar þeir láta frá sér þetta plagg. Svo eru þeir með tvær eða þrjár till. um hverja virkjun fyrir sig, sem eru mismunandi, viðkomandi fallhæð og hvort stífla skuli vera há eða lág. Allt virðist þetta, eins og vænta mátti, vera með mjög miklum lausatökum, og er þess að vænta, þó að verkfræðingar hafi flogið þarna vestur til þess á nokkrum dögum að athuga aðstæður þarna, þegar mest er vatnið í ánum. Sérfræðingar hafa hins vegar talið okkur trú um, að það þyrfti ár eftir ár að mæla vatnsföll, áður en virkjuð væru, til þess að vita, hvert væri minnsta vatnsrennsli vatnsfallsins, sem á að virkja, en þarna hefur þess ekki þurft, að því er virðist.

Fyrir nokkuð mörgum árum var það niðurstaðan viðkomandi virkjunarmöguleikum við Dynjandisá, að virkjunarkostnaður þar mundi þá nema um 13 millj. kr., og átti þá að vera hægt að virkja í báðum vatnsföllunum allt að 13 þús. hestöfl, 7 þús. í öðru, en 6 þús. í hinu, en þetta þótti þá of dýrt fyrir allar Vestfjarðabyggðirnar. Um líkt leyti ráðlagði svo raforkueftirlit ríkisins að leysa málið með því að byggja einar sex eða sjö dieselrafstöðvar í öllum kauptúnum Vestfjarða. Þessar dieselrafstöðvar hafa svo verið byggðar og raforkuveitur lagðar um þessi kauptún og reynsla fengizt af þessum framkvæmdum. Og reynslan er sú, að þessar stöðvar hafa eytt og eyða í erlendum gjaldeyri, vegna kaupa á olíum, varahlutum og viðhalds mótorvélanna, fjármagni, sem margfaldlega hefði dugað til þess að standa straum af þessari 13 millj. kr. kostnaðarupphæð, sem fásinna ein var talin að leggja fram með því að ráðast í Dynjandisvirkjun. Auk þess er raforkan með þessum framleiðsluhætti svo dýr, að fiskiðnaður og annar iðnaður á þessum veitusvæðum rís ekki undir því að kaupa orkuna á því verði, sem verður að selja hana. Aflstöðvarnar eru þá einnig reknar með stórtapi, og byggðirnar rísa ekki undir þeim byrðum, sem á þær eru lagðar með byggingu þessara dieselrafstöðva. Ég var sannfærður um, að bygging þessara dieselaflstöðva væri vitlausasta leiðin til þess að leysa raforkuþörf þessara staða. Og ég er eins viss um, að næstvitlausasta leiðin til þess að leysa þessa þörf er sú að reisa tíu til tólf vatnsaflstöðvar fyrir þessi byggðarlög og að eina leiðin, sem heppileg og hentug er fyrir Vestfirði, er að láta sérfræðinga finna út, hvaða tvö til þrjú vatnsföll á Vestfjörðum það eru, sem hafa skilyrði að bjóða til hagkvæmra virkjana fyrir Vestfirði yfirleitt. Þetta hefði átt að gera og verið unnt að gera fyrir tveim til þrem árum. En nú virðist því vera drepið á dreif og þessi leið ekki tekin til greina sem möguleiki. Og hv. þm. Barð. hefur sagt, að sérfræðingar hafi slegið á frest í 10–15 ár að athuga Dynjandisá og Mjólká í Arnarfirði.

Það er talinn kostur þeirra mannvirkja, þar sem á að tengja saman virkjanir með orkutaugum yfir fjallgarða, að stórkostlegt öryggi fáist með því í sambandi við slíkar virkjanir. Ég hygg, að í þeirri ráðagerð, sem kemur fram í frv. þessu, sé um fjallgarða að ræða, sem verði að leggja raftaugar yfir, sem séu jafnháir og erfiðir og þeir fjallgarðar, sem hefði orðið að leggja yfir, ef Dynjandisá hefði verið virkjuð. Hálfdán er með hærri fjallgörðum á Vestfjörðum, og aðrir fjallgarðar, sem leiða hefði orðið rafmagnið yfir frá Dynjandisá til Suður-Vestfjarða, eru heldur styttri en þessi. — Ég fæ ekki séð í fljótu bragði, að það sé annað en órökstudd fullyrðing, að smávirkjanir þær, sem hér ræðir um í frv., séu margfalt öruggari en virkjun Dynjandisár fyrir héruðin þarna vestra. T.d. yrði að tengja raftaugar frá virkjunum við Suðurbólsá á Rauðasandi og Fossá í Arnarfirði saman með þeim hætti að tengja saman raftaugakerfið yfir fjallgarða, alveg eins og leiða þyrfti yfir fjallgarða rafmagnið, ef virkjuð væri Dynjandisá. En frá Dynjandisárvirkjun yrði rafmagnið að leiðast yfir Hálfdán og Mikladal til Patreksfjarðar og svo norður á bóginn yfir Rafnseyrarheiði, Gemlufallsheiði og Breiðadalsheiði til Ísafjarðarkaupstaðar, og er það um 50 km vegarlengd, eins og á milli Reykjavíkur og Þingvalla.

Nú er hér um það að ræða, eftir þeim áætlunum raforkumálastjóra, sem liggja fyrir, að virkjun þeirra vatnsfalla, sem mundu leysa raforkuþörf nokkurs hluta Barðastrandarsýslu, en ekki meira, kæmi til með að kosta með kerfum a.m.k. 13 millj. kr., Iíkt og Dynjandisárvirkjunin átti að kosta, sem átti að leysa raforkuþörf allra kauptúnanna á Vestfjörðum og Ísafjarðarkaupstaðar, þ.e.a.s., þetta var áætlað að sú virkjun kostaði fyrir nokkrum árum, ef í hana væri ráðizt.

Ég er í raun og veru ekkert undrandi á því, að hv. þm. Barð. hefur flutt þetta frv., þegar þolinmæði hans var þrotin út af því, að ekki var hægt að fá endanleg, ákveðin svör viðkomandi Dynjandisvirkjuninni. Hins vegar er ljóst, að nái þetta frv. fram að ganga, er því slegið á frest um ófyrirsjáanlegan tíma að framkvæma það, sem yrði heildarlausn á raforkuþörf Vestfirðinga. Ef við sláum á frest að leysa málið í heild, en förum að knýja á um margar smávirkjanir, þá verður það erfitt í öllum kauptúnum á Vestfjörðum að fá raforku með vatnsorku til fiskiðnaðarins, sem alls staðar er í þessum byggðarlögum. Ég hefði því talíð miklu æskilegra, ef við Vestfjarða-þm. hefðum getað orðið sammála um að knýja á raforkumálastjórnina um endanleg svör um það, hvaða tvö eða þrjú stórvatnsföll á Vestfjörðum kæmu til mála með að vera orkugjafar fyrir Vestfirðinga, heldur en að fara inn á þessa braut, sem sýnilega er ekki farið inn á af hv. þm. Barð. fyrr en hann er vonlaus um, að heildarlausn sé fáanleg á þessum málum.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni. Ég tel, að það hljóti að vera borið fram eiginlega út af vandræðum, af því að ekkert miðaði í heildarvirkjunarmálum Vestfirðinga, og get ég að vísu skilið það. En ég tel það mjög miður farið, ef ekki er hægt að undirbyggja stórvirkjun fyrir Vestfirði, sem leysir málið í heild. Og heldur vildi ég biða nokkur ár, þrjú, fjögur, fimm, sex ár eftir slíkri lausn, heldur en farið væri að byrja á úrlausn í raforkumálunum fyrir hvert kauptún um sig á þessu svæði með sérstakri virkjun, því að mér er ljóst, að sú lausn fæst ekki heldur á skemmri tíma en áratug.