29.10.1951
Efri deild: 21. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. taldi það vera í ósamræmi hjá mér, að ég var í fyrra meðflm. að frv. um virkjun Dynjanda og þá einnig fylgjandi frv. hv. þm. N-Ísf. (SB) um virkjun Hólsár, þar sem ég nú teldi horfið inn á rangar brautir, þegar horfið er að því að virkja 4–5 vatnsföll í Vestur-Barðastrandarsýslu og gengið út frá því að virkja ekki Dynjanda. Ég held, að það sé auðséð, að þetta kemur ekki saman við það frv., sem við hv. þm. Barð. fluttum hér í fyrra og ekki náði afgreiðslu sem lög, því að það var tafið í nefnd í Nd. og náði því ekki endanlegri afgreiðslu. Nú er kunnugt, að ef Dynjandi hefði verið virkjaður, hefðu skapazt skilyrði til að leiða orku norður á bóginn til Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar, Bolungavíkur, Súðavíkur, Hnífsdals og Ísafjarðar. Og þó að aðeins sé litið á Ísafjörð, Bolungavík og Súðavík, þá er þar um að ræða um 4 þús. íbúa, sem er helmingur þeirra íbúa, sem áttu að fá orku frá Dynjandavirkjuninni, og því sjálfsagt talið af raforkumálastjóra að hafa varastöðvar, orkuverið í Engidal og 600–700 hestafla stöð, sem verði reist hjá Hólsá í Bolungavik, því að reiknað er með Hólsá sem lið í Dynjandavirkjuninni og stöðinni í Engidal sem varastöð. Nú skilst mér, að hv. þm. Barð. vilji fá þetta lögfest af því, að vonlaust sé um virkjun Dynjanda. Þarna er um stefnubreytingu að ræða frá því í fyrra, og ber því að snúast öðruvísi við því, þar sem þá var gert ráð fyrir Dynjanda sem aðalstöð, en hinum sem varastöðvum. Ég taldi því sjálfsagt að lögfesta á sama þingi og Dynjandavirkjunina virkjun Hólsár, svo að byggð yrði varastöð, sem meginþungi raforkunotkunarinnar hvíldi á. Nú er spurning, hvort rétt sé að lögfesta virkjun Hólsár, Fossár, Seljadalsár, Suðurbólsár og ef til vill Ósár í Patreksfirði og Vatnsdalsár í Vatnsfirði. Það er spurning, ef þetta er rétt stefna, hvort þá sé ekki rétt að taka upp í frv. Þverá í Nauteyrarhreppi, vatnsföllin í Mjóafirði, Hestfirði og Álftafirði ið Ísafjarðardjúp og Einarsfoss í Laugardal. Þegar búið er svo að lögfesta þetta allt, þarf raforkumálastjórinn ekki að kvarta yfir að hafa ekki úr nógu að moða við að athuga, hvaða vatnsföll á Vestfjörðum kæmu til greina að verða virkjuð, og ekki yrði annað gert en að mæla og athuga, en framkvæmdir yrðu engar. Ég er sannfærður um, að þetta er röng stefna. Svipaður leikur er leikinn á Austfjörðum, og þeir geta sofið á því nokkra áratugi með því að taka nýja og nýja á árlega og athuga, hve hentug hún sé til virkjunar. Ef þessi háttur er á hafður, þurfa þeir því hvorki að sinna framkvæmdum á Austfjörðum né Vestfjörðum á næstu árum. Það á ekki að veita raforkumálastjóra ríkisins þessa aðstöðu til þess að sofa á málum.

Hv. flm. var að reyna að gera skiljanlegt, hvers vegna svo fljótt hefði tekizt að komast að niðurstöðu um orkumagn Fossár og Seljadalsár. Skýrði hann það með því, að þær væru niðri í byggð og því auðveldara að komast að þeim til athugunar en Dynjanda, sem væri uppi á fjöllum. Auk þess sé þar um stórvirkjun að ræða og því allar athuganir stórbrotnari. En vatnsorkan er ekki mæld uppi á fjöllum, heldur þar sem stöðvarhúsið á að standa við túnfótinn á Dynjanda. Það má vera, að það, sem aðallega stendur á í sambandi við virkjun Dynjanda, sé, hver orkan sé og hvenær sé minnst rennsli, en athugunum á því er sagt sífellt haldið áfram. Ég spyr nú, hvort athuganir hafi verið hafnar á þessum ám fyrr en í sumar. Ég hef aldrei heyrt um þessa athugun, fyrr en í ágúst í sumar. Hvað kom til, að hægt var að vita þetta, án þess að hafa margra ára mælingar fyrir sér! Það er nýtt, et slíkt er hægt. Ég hef a.m.k. ekki heyrt, að sérfræðingar teldu sig geta rannsakað orkumagn í ám og vötnum, nema hafa fyrir sér margra ára athuganir um minnsta rennsli. Það er því ekki nægileg skýring, að þessi vatnsföll liggi í byggð. Það þarf margra ára athuganir til, að áætlunin geti verið þannig, að hægt sé að byggja á henni.

Þá sagði hv. þm. Barð., að þessi stöð ætti að vera sjálfvirk. Ég efa ekki, að ný vatnsaflsvirki séu höfð sjálfvirk, að svo miklu leyti sem hægt er. Vélar framleiddar á síðari árum hafa verið meira og minna sjálfvirkar. En ég hef aldrei heyrt það, að háspennustöðvar þurfi ekki gæzlu. Augljóst er, að ekki er hægt að byggja lágspennustöð inni í botni Fossfjarðar, því að frá henni er ekki hægt að leiða orkuna meira en eins til tveggja km leið.

Þá sagði hv. flm., að það væri útilokað að framkvæma þessar smávirkjanir, ef þær þyrftu gæzlu með skiptum vöktum. Ég er honum sammála um, að það yrði svo gífurlegur kostnaður við reksturinn, að slíkt væri ekki mögulegt. Ég get varla ímyndað mér, að slík gæzla sé ekki nauðsynleg. Það hlyti að hafa komið fram í áliti raforkumálastjóra, ef um slíka nýjung væri að ræða. Ég undrast, að það skyldi ekki koma fram hjá raforkumálastjóra, ef það væri fyrir hendi, að stöðvarnar þyrftu ekki gæzlu allan sólarhringinn með 3 mönnum. Ég held því, að þetta atriði hljóti að byggjast á misskilningi hjá hv. flm., þó að ég vilji ekki fullyrða það 100% að svo komnu máli. Ef þær þurfa gæzlu, höfum við hv. flm. komizt að þeirri niðurstöðu, að þessi möguleiki um margar smástöðvar útilokast.

Það var í rauninni ekkert, sem hv. flm. hafði að leiðrétta af því, sem ég hafði að segja um kostnaðinn við virkjun Dynjanda. Þar eru möguleikar á 7000–7500 ha. virkjun og möguleikar fyrir 5000 hö. í Mjólká. Þá var kostnaðurinn sagður 13–14 millj. kr. Síðar var hann hækkaður um 30%, og nú má búast við, að með stöðvarhúsunum og kerfinu til Ísafjarðar og Patreksfjarðar sé hann kominn upp í um 6O millj. kr. Þannig er búið að draga þessar framkvæmdir, að nú kosta þær þessa gífurlegu upphæð. En áætlunin um orkuna er sífellt reiknuð um og dregið úr henni. Fyrir 20–30 árum reiknuðu norskir sérfræðingar, að hún væri um 60 þús. hö., en nú eru íslenzkir sérfræðingar komnir með þessa áætlun niður í 5000 hö. og 4000–5000 hö. í Mjólká. Þannig er alltaf verið að endurskoða áætlanirnar og draga úr orkumagninu, en aldrei komizt að neinni niðurstöðu. Síðast í sumar upplýsti raforkumálastjóri, að ekki væri enn búið að athuga, hvort heppilegra væri að virkja Dynjanda sér og Mjólká sér eða fara eftir gömlu norsku plönunum um að leiða vatnsföllin saman uppi á fjöllum. Hefði manni þó fundizt, að hefði átt að athuga þá áætlun gaumgæfilega fyrst, því að þau gögn hafa öll verið kunn raforkumálastjórninni, þó að henni hafi ekki unnizt tími til að athuga þau síðustu 20–30 árin. Það er rétt, sem hann sagði, að prófessor Finnbogi Rútur Þorvaldsson hafði með höndum að rannsaka þessi vatnsföll og gera kostnaðaráætlun og þær athuganir voru síðar endurskoðaðar af verkfræðingum frá Höjgaard & Schultz. Ég efa ekki, að einnig sé hægt að fá ameríska sérfræðinga, ef áhugi er fyrir hendi að fá frekari umsagnir erlendra sérfræðinga um þetta. En það er ekki svo mikill áhugi á

þessum málum hjá þeim, er þeim stjórna, að að slíkri niðurstöðu verði komizt. Þau eru dregin á langinn, og það mun ekki vera ætlunin að láta Vestfirði fá lausn sinna raforkumála að sinni.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en tel varhugaverða ráðstöfun að lögfesta margar virkjanir víðs vegar um Vestfirði, án þess að álit sé komið fram frá raforkumálastjórninni um, hvaða stórvatnsföll sé bezt að virkja. Það er sennilegt, að verkfræðingarnir fengju 10–20 vatnsföll til athugunar, ef ég flytti svipað frv. og þetta um raforkuframkvæmdir í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Ég held, að við yrðum litlu nær um lausn okkar mála, þó að búið væri að lögfesta heimild til þessara virkjana. Ég veit, að það vakir ekki annað fyrir hv. flm. en knýja með þessu fram einhverja úrlausn á viðurkenndri þörf. Það má vera, að rétt sé að koma upp stöð, sem hugsuð sé sem varastöð, og verður þá raforkumálastjóri að skera úr um, hver þessara virkjana sé heppilegust sem varastöð inn á heildarkerfið. Ég teldi rétt, að raforkumálastjóri skæri úr um það, hvort Fossá, Seljadalsá eða Suðurbólsá, sem ég teldi líklegast, væri heppilegust til virkjunar sem varaaflstöð. Skal ég svo ekki eyða frekari tíma til að ræða þetta við þessa umr. En ef útlit er fyrir, að þessi stefna verði ofan á, má vænta þess, að ég flytji viðbótartill. um 6–8 vatnsföll til viðbótar.