22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

78. mál, orkuver og orkuveitur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það mætti ætla af ræðu hv. þm. Vestm., að ég hefði lýst mig andvígan virkjun vatnsfalla yfirleitt til þess að beizla orku til handa landslýð til upphitunar og suðu og annarra hluta. En það er mjög fjarri því, að afstaða mín sé sú, og veit ég, að hv. þm. hefur ekki meint það, þótt kannske hefði mátt skilja orð hans svo. En hitt sagði ég, að ég teldi hér öfugt að farið, að taka hér upp allt að tug vatnsfalla, sem ríkinu skuli heimilað að láta virkja, þótt aðeins ófullkomin rannsókn hafi farið fram um það, hvort þau séu virkjunarfær eða öðrum vatnsföllum færari til þess að veita orku. Ég tel, að það eigi að hafa þá skipan á þessum málum að rannsaka vel þau vatnsföll, sem líkur eru til að séu virkjunarhæf, og þegar örugg niðurstaða er fengin um það, að ákveðin vatnsföll séu öðrum hæfari og hagkvæmari til virkjunar, þá fyrst eigi að veita heimildina til að virkja þau. En hér á að heimila virkjun sjö vatnsfalla og lántöku allt að 74 millj. kr. til þeirra framkvæmda, áður en rannsókn á þeim hefur farið fram til hlítar. Ég álit þetta hættulega leið. Ég þykist vita, að þessi lög mundu vekja vonir hjá fólkinu um það, að nú megi það vænta lausnar þessara mála á næstunni. Svo fara nokkur ár í rannsóknir, og svo verður kannske niðurstaðan sú, að viðkomandi vatnsfall verður ekki talið virkjunarhæft. Þetta tel ég miður heppilega aðferð, og ég get ekki séð, að það sparist nokkur tími, þó að heimildir um virkjun þessara vatnsfalla verði lögfestar fyrir fram, áður en rannsókn hefur farið fram. Þegar hún hefur farið fram, þarf ekkert að bíða með að lögfesta heimildirnar. Það er aðeins þetta, sem okkur hv. þm. Vestm. greinir á um. Ég játa, að 7. liðurinn hefur nokkra sérstöðu, þar sem ekki þarf að liggja annað fyrir en rannsókn á teknískri aðstöðu til framkvæmdarinnar. Þar þarf ekki að gera neinar vatnsmælingar eða vatnsrennslismælingar eða annað slíkt, sem allar virkjanir verða að byggjast á. En það væri sjálfsagt auðvelt að telja upp ein 5–10 vatnsföll á Vestfjörðum, sem til mála kæmi að virkja, og fá svo lagaheimild til þess. En þetta álít ég að væri að fara öfugt að hlutunum, og slík vinnubrögð mundu ekki verða til að flýta virkjun viðkomandi vatnsfalla. Með þessu er verið að gera tilraun til að koma á virkjun viðkomandi vatnsfalla á undan virkjun annarra vatnsfalla, sem síðar yrðu sett inn í l., þótt þau kynnu þá að þykja miklu betri til virkjunar. Það er kappið um að komast sem fremst í biðröðina. Mér er nær að halda, að slík aðferð gæti leitt til þess, að vatnsföll yrðu virkjuð, sem síðar kæmi í ljós, að alls ekki hefði átt að virkja, heldur önnur, sem til þess væru miklu hentugri. Þessi lagasetning gæti þannig orðið til ills, en ekki góðs. Það er mín skoðun á málinu, sem sagt, að hér sé öfugt farið að, að l. eigi ekki að koma fyrr en á eftir rannsókninni. Þess vegna tel ég, að rökrétt afleiðing af þessari skoðun minni sé sú, að mér beri að sitja hjá við þessa lagasetningu. Ég geri hvorki að greiða fyrir né aftra slíkum vinnubrögðum.