07.01.1952
Efri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (2051)

134. mál, girðingalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Hér er um veigamikið mál að ræða, en ég játa, að ég hef ekki sett mig fyllilega inn í það. En það er greinilegt, að ætlazt er til, að hér sé m.a. lögð ný og rík skylda á herðar bæjar- og sveitarfélaga í landinu, þar sem þau skulu kosta vegagirðingar hjá sér að jöfnu við landeiganda eftir 4. gr. þessa frv. Nú er það þó væntanlega ekki nema á mörkum við götuna, þó að orðalagið virðist benda til annars. En jafnvel þó að það yrði skilið á þann veg, sem mér finnst efni hljóti að standa til, þ.e. einungis á mörkum við götu, þá mun vera um algera nýjung að ræða, sem hlýtur að hafa í för með sér stórkostfeg ný útgjöld fyrir bæjar- og sveitarfélög, og efast ég um, að menn hafi gert sér grein fyrir, hvers konar skyldu er hér um að ræða. Að vísu má segja, að aðeins sé skylda að girða með 5 strengja gaddavír og ekki komi annað til álita. En ef svo er, þá mundi ég halda, að slíkt komi til greina um fáar byggingarlóðir í kaupstöðum og kauptúnum, svo að því leyti er ákvæðið út í hött. (ÞÞ: Eða girðing, sem jafngildir að vörzlunotum.) Ef á að jafngilda að vörzlunotum, þá er um mjög mikið fjárhagslegt atriði að ræða, sem þarf miklu betri skoðun en átt hefur sér stað. Vildi ég skora á hv. n. að senda þetta til umsagnar Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Sýnist eðlilegt, að stjórn þeirra mála láti uppi sína umsögn. Það er hvort sem er ekki gert ráð fyrir, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, svo langt sem það er komið, og hér er um svo veigamikið mál að ræða. Ég legg því til að fresta málinu á þann hátt, sem ég hef þegar stungið upp á.