17.12.1951
Efri deild: 45. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

109. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Áður en ég mæli fyrir þeim till., sem ég á hér, vildi ég segja nokkur orð í sambandi við ummæli, sem féllu við síðustu umr. og ég gat þá ekki svarað, í þá átt, að ég hafi í mínum ræðum um þessi mái mjög svívirt mþn. og þó einkum prófessor Ásmund Guðmundsson, vegna þess að ég hafi ekki talið hann vera umboðsmann fólksins í landinu. Ég hef rætt þetta við viðkomandi prófessor, sem er allt annarrar skoðunar. Hins vegar upplýsti prófessorinn, að hann hefði barizt fyrir því í n., að ekki væru lögð niður nein prestaköll og prestum ekki fækkað í sveitum; hann hefði aðeins gert þetta til að mæta öðrum till. og fá samkomulag um málið, m. a. við hv. 1. þm. N-M., sem þá hafði skuldbundið sig til að gera engar aðrar breyt. til fækkunar en gert var í n., og honum hefði aldrei dottið í hug að skila ágreiningslausu nál., ef það hefði ekki legið á bak við, að ekki skyldi gengið lengra. Ég tek orð prófessorsins fullgild eins og þessara tveggja þm., sem rætt hafa um þessi mál. Prófessorinn var undrandi yfir þeirri framkomu hv. 1. þm. N-M. að hafa á þinginu beitt sér allt öðruvísi fyrir málinu en samkomulag var um í n. — Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, að ég hef ekki verið að svívirða n. í sambandi við mínar umr.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða mikið um frv., það væru aðeins endurtekningar. Ég skal aðeins fara nokkrum orðum um þær brtt., sem ég geri hér í sambandi við þetta mál nú, eftir að því hefur verið breytt við 2. umr.

Ég skal fyrst koma að brtt. 337, sem ég leyfi mér að bera fram sem skriflega brtt., en ég tók hana aftur til 3. umr. og legg hana hér fram nú og vænti þess, að hún verði samþ. við 3. umr. — Það hefur komið í ljós í sambandi við umr., að málið er engan veginn undirbúið eins og skyldi, og mesta sönnunargagnið var ræða hæstv. dómsmrh. og þau gögn, sem hann lagði fram, þar sem hann ber fram brtt., sem fara að nokkru í þá átt að breyta frv. aftur eins og það var, með upplýsingum frá viðkomandi aðilum um það, að þeir geti ekki fellt sig við það, sem gert er í d. Því hefur einnig verið haldið fram, að margir prestar, sem undirskrifað hafa áskoranir til Alþ. um að samþ. frv. óbreytt, vilji ekki láta lögin frá síðasta þingi koma til framkvæmda 1. jan. n. k. Margir prestar hafa sagt mér, að þannig beri að skilja þeirra undirskrift. Ég tel því eðlilegt og rétt, að mín till., sem ég ber fram aftur og var á þskj. 337, verði samþ. og þannig verði gefinn ársfrestur til að athuga þetta mál og heyra raddir frá fólkinu og taka tillit til þeirra. Ég óska þess vegna eftir, að sú till. verði borin upp, og vænti þess, að hún verði samþ. Verði sú till. ekki samþ., þá flyt ég till. á þskj. 411.

Það er fyrst till. um, að síðasta málsgr. við III. 15 falli niður, en það er: „Heimilt er kirkjustjórninni að selja Sandfell og flytja prestssetrið á hentugri stað.“ Ég álít óverjandi að heimila sölu á kirkjujörðum í þessu frv. Ef frv. nær fram að ganga, þá er nægur tími til þess að taka ákvörðun um það, að þessi jörð verði seld, ef hún verður ekki prestssetur, og seld eftir sérstökum l. Hér er ekkert sagt um það, hvort á að selja jarðirnar á opinberum markaði eða selja þær samkvæmt gildandi l. um sölu opinberra jarða eða neitt annað, en aðeins gefin heimild til að selja jarðirnar, og það er það, sem ég hef haldið fram, að til þess er frv. sett að geta selt þessar jarðir, og ég tel alveg óverjandi að gefa þessa heimild, eins og gert er í frv. Því hef ég lagt til, að þessi liður falli niður.

2. brtt. mín er við VII. 36, þ. e., að fyrir „Lágafells-, Viðeyjar- og Þingvallasóknir“ komi: Lágafells- og Viðeyjarsóknir. — Ég vildi spyrja hæstv. forseta, hvort hann sæi sér ekki fært að bera fyrst upp 2. brtt. á sama þskj. um Þingvallaprest. Ef þessi till. verður samþ., þá er nauðsynlegt að gera brtt. við VII. 36, vegna þess að Þingvellir heyra ekki til Mosfellssóknar. Ef þessi till. verður ekki samþ., brtt. 2, þá er sjálfsagt að taka hina brtt. aftur. En um till. 2 vil ég segja þetta: Mér finnst tæplega sæmandi að hafa þann kirkjustað prestslausan, þar sem kristni var lögtekin. Mér finnst þess utan tæplega sæmandi að hafa búsetu í Þingvallabænum af hvaða manni sem vera skal, hvort sem hann hefur nokkra þekkingu á sögu Þingvalla eða möguleika til að geta umgengizt og leiðbeint innlendum eða útlendum gestum, sem þangað er boðið, eða ekki. Ég segi þetta ekki vegna þess manns, sem nú er þar, en ef þar er ekki settur prestur, þá er undir hælinn lagt, hver situr þar og hver á að taka á móti og umgangast þá aðila, sem þangað eru boðnir og vænta að fá þar upplýsingar og móttökur eins og það væri hjá menntaðri þjóð. Það er alls ekki sama, hvort þar situr ómenntaður maður eða menntaður maður. Þess utan vil ég benda á, að ef það sæti prestur á Þingvöllum, þá mundi verða miklu stærri sá hópur á Þingvöllum, sem sækti þar kirkju á sumrin; þar eru um 80 sumarbústaðir, og margt af því fólki, sem þar býr, mundi einnig hlýða messu, ef þar væri prestur. Ég ætlast til þess, að þetta sé ekki kjörprestur, heldur skipaður að fengnum till. biskups og guðfræðideildar. Þetta embætti mætti einnig veita presti yfir aldurstakmark, ef það þætti hentugra. Ég sé ekki, að þetta þyrfti raunverulega að kosta ríkissjóð neitt, þar sem þessu er nú skipt á milli tveggja presta, annars vegar Mosfellsprests í Mosfellssveit og hins vegar Mosfellsprests í Grímsnesi, og mundi þá að sjálfsögðu verða tekið undan þeim, þar sem þeir fá ekki nein laun fyrir að þjóna þeim, en það mundu þeir fá, þótt þetta frv. væri samþ., meðan þeir sitja í þessum embættum. Á Þingvöllum þarf ekki að byggja, þótt þar sæti prestur. (Dómsmrh.: Hvernig stendur á því, að þeir fá aukaþóknun fyrir að þjóna þessu prestakalli?) Það hefur verið vanrækt af biskupi að auglýsa þetta prestakall laust og setja þangað prest, en þessu hefur verið ráðstafað þannig í meira en 10 ár, síðan séra Guðmundur Einarsson fór þaðan, og ekki verið auglýst, svo að þetta ætti ekki að kosta neina peninga. Það hefur einnig verið upplýst, að Þingvallanefnd fengi Gjábakka til afnota fyrir Þingvöll, og það hefur verið rætt um það við skógræktarstjóra, að sú jörð yrði notuð fyrir skógarvörð og vörð í þjóðgarðinum í framtíðinni, og væri þá eðlilegra, að hann væri þar, heldur en í Þingvallabænum, sem ætlaður er til að taka á móti tignum gestum, erlendum og innlendum. Þess vegna hef ég borið fram þessa brtt.

C-liður 1. till. er um það, að síðasta málsgr. í XII. 61, þ. e. heimild fyrir kirkjustjórnina til að selja Hvol, falli niður. Hef ég gert grein fyrir, hvers vegna ég ber fram till. um það. Hið sama er að segja um d-lið, við XV. 75, það er einnig sams konar heimild, og þarf ég ekki að ræða það.

Þá er 3. brtt., að 7. gr. falli niður. Það er afleiðing af því, sem ég hef lagt til. — Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta mál.