18.01.1952
Neðri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

109. mál, skipun prestakalla

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. Nd. fyrir það, sem hún hefur lagt gott til þessara mála, og m. a. fyrir það, að hún hefur tekið upp eina af mínum till. Þess var ekki að vænta, að hún tæki þær allar upp, þar sem n. hefur ekki tekið afstöðu til till. einstakra þm.

Þó að frv. sé lagfært með þeirri breyt., sem hv. n. leggur til að gerð verði á 10. gr., um að flytja megi sóknir milli prestakalla, svo að söfnuðirnir geti ráðið því, hvaða prestakalli þeir vilja tilheyra, vildi ég mælast til þess, að hv. d. samþ. till. mínar varðandi Dalasýslu. Eins og kunnugt er, eru í Dalasýslu þrjú prestaköll og níu kirkjur, og virðist því eðlilegt, að hver prestur hefði þrjár kirkjur.

Till. mínar eru í samræmi við till. milliþn., sem breytt var í hv. Ed. gegn vilja sóknarn. Hjarðarholtssóknar, því að þeir, sem byggja Hjarðarholtssókn, vilja, að sóknin tilheyri Hvammsprestakalli. Það er því fyrir orð sóknarn., að ég flyt þessa till. Aðrar till. mínar eru fluttar til samræmis við þetta.

Ég hygg, að það muni hafa verið tvennt, sem mþn., en í henni áttu sæti fróðir menn í þessum efnum, lagði til grundvallar till. sínum um prestakallaskipunina, fólksfjöldi og þær vegalengdir, sem prestarnir þyrftu að ferðast. Þar, sem ég þekki til, hefur þessu verið fylgt, og eins og grg. mþn. ber með sér, er hér lítill munur á, þegar tillit er tekið til þess, hve aðstæður eru ólíkar.

Það hefur verið rætt á breiðum grundvelli um þetta frv., bæði í þessari hv. d. og í hv. Ed., og skal ég ekki bæta miklu við það. Það er oft rætt um það, hve æska landsins sé ókristin, og skal ég ekki kenna prestunum um það. Þeir fá sinn lærdóm í Háskóla Íslands, og þá kennslu þarf því að endurskoða, ef þeir verða ásakaðir fyrir það, að kristindómurinn á sér ekki eins djúpar rætur meðal æskulýðsins og eldri kynslóðin álítur að vera bæri. Háskóli Íslands undirbýr prestastéttina undir starf sitt, og það er eins og þar stendur, eins og þú sáir munt þú uppskera.

Ég hygg, að þeim prestum, sem byggja starf sitt á grunni kristindómsins og flétta inn í það atvik úr daglegu lífi ásamt fegurð og gróandi lífi jarðarinnar, veitist ekki erfitt að breyta eyðimörkum kristilegs hugarfars í gróandi akra kristinnar trúar.

Ég vil að lokum óska þess, að þeirri stofnun, sem undirbýr prestana undir ævistarf þeirra, megi takast að samrýma kristilegt hugarfar öðrum göfgandi menningarlindum, sem varpa frá sér birtu og yl í kulda og myrkri mannlífsins.