21.01.1952
Neðri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

109. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er svo með þetta mál, að brtt. frá nefndinni eru ekki komnar enn úr prentun. Ég vona þó, að það komi ekki að sök, og skal ég nú skýra frá, hvað í þessum brtt. felst. Brtt. eru tvær. Önnur er við 6. gr. frv., en nefndinni barst erindi frá stjórn Sambands íslenzkra barnakennara og stjórn Landssambands framhaldsskólakennara, þess efnis, að þessi sambönd óskuðu eftir því, að þeir prestar, sem um getur í 6. gr. frv., skuli fullnægja skilyrðum fræðslulaganna um kennaramenntun. Í grg. frv. kemur skýrt fram tilgangur milliþn., sem undirbjó málið, í sambandi við þetta atriði. Á bls. 24 í upphaflega frv. segir í grg. milliþn., með leyfi hæstv. forseta:

„Prestar, sem kennslu ættu að hafa jafnframt, mundu verða að fá nokkurn sérstakan undirbúning í því skyni. Er gert ráð fyrir, að þeir fullnægi þeim skilyrðum, sem lög um menntun kennara setja þar um. Ef þessi ákvæði verða að lögum, leiðir af því, að ekki mundu aðrir sækja um skólaprestaköll en þeir, sem fúsir eru til að taka að sér bæði störfin og hlutgengir eru til þess.“

Meiri hl. menntmn. taldi rétt að verða við þessum óskum frá Sambandi íslenzkra barnakennara og Landssambandi framhaldsskólakennara, enda væri það í fullu samræmi við ætlun milliþn., og flytja 4 nm. till. í þessa átt, og er hún þess efnis, að við 6. gr. bætist: „enda fullnægi þeir ákvæðum laga um menntun kennara.“ Vænti ég, að brtt. fái stuðning. (PO: Eiga þeir þá að ganga á skóla?) Út af þessari athugasemd tek ég fram, að algengast er, að stúdentar í heimspekideild, sem búa sig undir próf í íslenzkum fræðum, búa sig undir prófið í aukatímum án þess að ganga í skóla. Þetta hefur tíðkazt nú um margra ára skeið.

Þá er brtt., sem nefndin flytur óskipt. Við 2. umr. var samþ. brtt. frá hv. þm. Snæf., en felld brtt. frá hv. þm. Mýr., þannig að tvær sóknir á Mýrum féllu úr frv., þ. e. Staðarhrauns- og Akrasóknir. Flytur n. till. um, að Staðarhraunssókn renni til Miklaholts, en Akrasókn til Borgarprestakalls. Nú liggur fyrir breytingartillaga frá hv. þm. Mýr. um að endurreisa Staðarhraun sem prestakall, og kemur hún fyrr til atkv. en brtt. n., og verði hún samþ., þá kemur brtt. n. ekki til atkv. Hins vegar, ef till. hv. þm. um að endurreisa Staðarhraun verður felld, þá vænti ég, að till. n. verði samþ.

Nefndin hefur rætt þær brtt., sem liggja fyrir eða teknar voru aftur til 3. umr. Það er till. frá hv. 1. þm. Árn. um að endurreisa Skarð og till. hv. þm. Mýr. um að endurreisa Staðarhraun.

Í nefndinni var ekki samkomulag um þessar till., og sama er að segja um till. hv. þm. V-Ísf. um, að Súgandafjörður verði ekki kennsluprestakall, og till. hv. þm. A-Húnv. og hv. þm. V-Húnv. um, að í stað nafnsins „Steinnes“ komi: Þingeyraklaustur. — Það tókst ekki að ná samkomulagi í n. um þessar till., og hafa nm. um þær óbundnar hendur. Tel ég svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta.