22.10.1951
Efri deild: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

70. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera margorður við þessa umr. En mér þykir rétt að svara nokkru því, sem kom fram í ræðu hv. 6. landsk. Ég er honum ósammála um það, að tekju- og eignarskatturinn sé réttlátasti tekjustofn ríkissjóðs. Hér er um mismunandi skoðanir á þessu máli að ræða, sem við getum lengi deilt um. En máli mínu til stuðnings vil ég m. a. benda á, hvaða áhrif framkvæmd tekju- og eignarskattsl. hefur á atvinnulífið í landinu. en því sneiddi hv. 6. landsk. alveg fram hjá. Hversu réttlátir skattar sem tekju- og eignarskattarnir eru „teoretiskt“, þá hefur sýnt sig. að þessi lög hafa fært atvinnulífið úr höndum þeirra manna, sem höfðu miklu meiri áhuga fyrir atvinnuvegunum áður en þessi lög voru sett, og komið áhættunni og ábyrgðinni af atvinnuvegunum yfir á ríkið og bæjarfélögin, eins og hv. þm. er kunnugt um. Þetta er eitt af því, sem hefur skapað þá stórkostlegu hættu, sem er samfara atvinnuleysi í landinu. Ég tel þess vegna, að það, sem hv. þm. færði fram, að þessir skattar séu réttlátustu skatttarnir, geti aðeins átt við teoretiskt, en ekki í raunveruleikanum, og það er ákaflega mikið meginatriði. Að hækka tekju- og eignarskattinn, er vitanlega að fyrirbyggja enn meira en verið hefur, að menn vilji taka á sig að halda uppi atvinnulífinu í landinu, því að þegar svo er komið, að menn vegna skattálagningar hafa ekki eftir af ágóða atvinnufyrirtækja sinna nema 10%, eins og er í sumum tilfellum og það hjá mjög áhættusömum fyrirtækjum, þá er það sama og að loka fyrir möguleikann til þess, að þau geti haldið áfram sinni atvinnugrein. Ég held, að ef t. d. atvinnufyrirtæki er komið í 10 millj. kr. skuld, þá sé alveg útilokað undir núverandi skattalögum, að slíkt fyrirtæki geti nokkurn tíma greitt sína skuld, ef ákvæðum núverandi skattal. er haldið í fullu gildi. Það gæti ekki orðið undir neinum öðrum kringumstæðum heldur en að viðkomandi skattþegn gerði kaup á einhverjum hlutum og seldi þá svo aftur eftir nokkur ár fyrir hærra verð, því að af viðkomandi atvinnuvegum er vissulega ómögulegt að græða nóg til þess. Þetta er orðið alvarlegt mál.

Í stríðsbyrjun var gerð breyting á skattalögunum á þá leið, að menn fengju að greiða skuldir sínar án þess að þurfa að greiða skatta af þeim tekjum, er til þess færu. Ef þetta hefði ekki verið gert. hefðu skuldirnar ekki verið greiddar. Þetta held ég að ætti að vera nóg til að sýna, að þetta eru ekki réttlátir skattar. Tekju- og eignarskattar geta að vísu verið eins réttlætanlegir og aðrir skattar, ef ekki er gengið lengra en góðu hófi gegnir. En hér er farið lengra. Ég hygg, að ekki sé hægt að finna sterkari og ljósari viðurkenningu frá Alþingi og ríkisstj. á, að viðurlög séu röng, en að fella þau burt, eins og gert var, þegar skattsvikurunum var gefin syndakvittun á sínum tíma. Þá voru öll þessi viðurlög felld burt til að fá fólk til að telja rétt fram næst, svo að ríkissjóður gæti fengið sinn hluta af því fé, sem dregið var undan.

Menn mundu e. t. v. segja, að nær væri að fyrirbyggja lögbrotin en að afnema lögin. Ég hef tekið fram, að það yrði að gera, ef lögin yrðu ekki afnumin. Ég get trúað, að ef alvarlegt eftirlit væri haft með framkvæmd laganna og hver, sem bryti þau, yrði að greiða sína sekt, stæðu lögin ekki lengi á eftir. Slíkt mundi vekja svo mikla andúð skattþegnanna, og kostnaður ríkissjóðs við innheimtuna yrði svo mikill, að lögin stæðu áreiðanlega ekki lengi. Ég er sannarlega ekki á móti því, ef lögin standa áfram, að þessi háttur verði tekinn upp.

Þá spurði hv. þm., í hverju sparnaðurinn væri fólginn. Ég vil benda á, sem ég tók ekki fram í framsöguræðu minni, en benti á í fyrra, að að sjálfsögðu breytist allt launalagakerfið í landinu, því að sjálfsagt er að lækka launin sem nemur tekju- og eignarskattinum. Í öðru lagi er sjálfsagt að leggja niður skattstofuna, ríkisskattanefnd og allar skattanefndir. Þær stofnanir hafa það hlutverk að dæma um ríkisskatta og nú í seinni tíð einnig útsvör. Bæjarsjóður Reykjavíkur tekur nú þátt í kostnaðinum, en vitanlega heldur ríkissjóður ekki uppi neinni stofnun vegna útsvaranna. Þeir bæjarsjóðir, er þeim vilja halda, yrðu því að sjálfsögðu að standa undir kostnaðinum. Það starf er mun minna en við tekju- og eignarskattinn. Þó að sýslumannsembættin væru ekki lögð niður. mætti þó fækka á skrifstofum þeirra, þar eð starf þeirra verður mun minna, er þeir losna við innheimtuna. Við það yrði stórkostlegur sparnaður. Ég fór allverulega yfir þetta í sambandi við till. mína í fyrra og athugaði, hver gjöld væru við þetta, og hygg, að fari ekki langt frá því, að það hafi verið 600 þús. kr. 1950 og miklu meira nú.

Það, sem hv. þm. sagði um söluskattinn, er allt annað og óskylt atriði. Þó að hann væri lagður niður, mundi það ekkert bæta fyrir sveitarfélögunum. Þeirra kvartanir voru komnar fram löngu áður en honum var komið á. Hann hefur komið fram í hækkuðum launum hjá launþegum og hefur ekki sömu þýðingu fyrir sveitarfélögin almennt og tekju- og eignarskatturinn.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta nánar. Það gefst tækifæri til að ræða það, þegar það kemur aftur úr nefnd. Þá mun einnig liggja fyrir grg. frá ýmsum aðilum, er ég sendi málið til umsagnar, og gefst þá færi á að ræða það nánar.