18.01.1952
Efri deild: 64. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (2353)

70. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Mig minnir, að hv. frsm. meiri hl. fjhn. segði, þegar málið var hér fyrst til umr., að það væri skemmtileg fjarstæða, þessi till. um að afnema skattalöggjöfina. Ég vil nú nota sömu orðin og segja, að það sé skemmtileg fjarstæða hjá meiri hl. fjhn. að leyfa sér að afgreiða málið eins og hv. frsm. hefur nú gert með sinni ræðu hér í kvöld og eins og gert er á þskj. 346. Mér sýnist, að hv. fjhn. hafi ekki til að leggja venjuleg rök varðandi afgreiðslu þessa máls. Það er ekki gerð minnsta tilraun af meiri hl. til þess að færa rök fyrir því, að þetta mál eigi að fella, eða farið inn á það í nál. hans, hvaða ráðstafanir eigi að gera í framtíðinni í þessum efnum, og þess vegna sé rétt að fella frv. eða fresta afgreiðslu þess. Í nál. meiri hl. er bara lagt til, að frv. verði fellt, og þar með búið.

Nú hefur verið upplýst í sambandi við þetta mál, að frv. var sent ríkisskattanefnd, skattstjóranum í Reykjavík, tollstjóranum í Reykjavík og fjármálaráðuneytinu til umsagnar, og fengu þessir aðilar sjö vikur til þess að svara og senda fjhn. svörin, og hafa sumir aðilarnir ekki látið svo lítið að verða við þessu. Ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri til þess að vita slíka aðferð stofnana að leyfa sér að svara ekki fyrirspurn frá Alþ., þegar það þarf á því að halda að senda mál sín til umsagnar. Það hefur a. m. k. á þessu efni eitthvað lærzt af flutningi þessa frv. Ég skal viðurkenna, að það er fullkomin afsökun hjá hæstv. fjmrh. í sambandi við þetta mál, því að hann hefur lýst því yfir, að hann óski ekki eftir, að þingnefndir sendi honum mál sín til umsagnar, því að hann geti kynnt sér málin á Alþ. og rætt þau við n. þar. Þetta víti ég ekki, en ég víti þær stofnanir. sem hafa sýnt Alþ. þá ókurteisi að virða ekki svars fyrirspurnir þess. — Undantekning frá þessu er þó ríkisskattan., sem hefur svarað fyrirspurnunum. Og það er síður en svo, að það svar sé fullkomlega neikvætt. Nefndin vill nokkuð skjóta sér undan því að svara beinlínis, þar sem hún telur, að það sé frekar hlutverk ráðuneytisins, en ég vil benda á það, sem stendur hér, að skiptar skoðanir eru meðal nm. um málið.

Hins vegar hefði ekki verið lítið upplýst, hefði þeim fyrirspurnum verið svarað, sem hér eru bornar fram í sambandi við þetta mál. En fyrsta spurningin var: „Hvaða áhrif teljið þér, að frv. komi til með að hafa í för með sér á tekjur og gjöld ríkissjóðs, ef frv. yrði að lögum?“ — Ég tel ekki lítils virði fyrir Alþ. að fá umsögn skattstjórans og tollstjórans í Reykjavík um þetta atriði. — Önnur spurningin var: „Hvaða embætti teljið þér að leggja mætti að fullu niður eða fækka starfsfólki hjá, ef frumvarpið yrði samþykkt?“ — Ég tel það heldur ekki lítið mál fyrir Alþ. að fá það upplýst, hvað mikið mætti fækka starfsfólki í ýmsum embættum. Það hafa verið rengdar þær tölur, sem ég hef sett fram í sambandi við þetta mál. Því hefði ekki verið ófróðlegt að heyra álit þeirra aðila um þetta, sem kunnugir eru þessum málum. Þriðja spurningin var á þessa leið: „Sérhvað annað, sem þér teljið að geti orðið til að upplýsa málið í sambandi við afgreiðslu þess.“

Ég vil í sambandi við þetta mál benda á, að eftir að málið kom hér fyrir Alþingi á síðasta ári og sérstaklega eftir að það var borið fram nú og eftir að það hefur verið rætt ýtarlega á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur, þá hefur málið vakið geysimikla athygli um allt land, ekki vegna þess, að menn væntu þess, að þeir losnuðu við að greiða þennan skatt, því að mönnum er það ljóst, að það er ekki hægt að halda uppi alls konar framkvæmdum í landinu, nema ríkissjóður afli sér tekna, heldur er það hitt, sem hefur vakið mikla athygli, og það er. hvað það kostar mikið að leggja skattana á og innheimta þá. Það er þetta, sem vakið hefur athygli hjá þjóðinni, og þau rök, sem færð hafa verið fyrir því, að þjóðin mundi þéna á því, að þessi lög yrðu afnumin, hvernig það mundi koma blóma í atvinnulífið og skapa meiri vinnu fyrir fólkið og auka þannig veltu ríkissjóðs.

Hv. frsm. meiri hl. n. sagði, að það væri nú ákveðið að endurskoða skattalöggjöfina, en ég vil benda á, að það var ekki ákveðið, þegar þetta var afgr. í n. Till. um endurskoðun skattalöggjafarinnar er nýkomin fram. Hv. fjhn. getur því ekki komizt frá þessu máli á þann hátt að vísa til þess, að skattalöggjöfin verði endurskoðuð, því.að það er enn þá síður en svo víst, að hún nái fram að ganga. Í fyrsta lagi er það, að þessi till. um endurskoðun skattalaganna er ekki álitin neitt mál málanna, og í öðru lagi hefur n. ekki lagt neina vinnu í að undirbúa málið, þar sem meiri hl. hafði ákveðið að fella þetta frv. Það eina, sem n. gerir, er að skrifa bréf, sem hún fær aldrei svarað.

Nú er það vitanlegt, að það væri stór styrkur fyrir málið, ef það væri afgreitt með rökstuddri dagskrá í trausti þess, að það yrði tekið til athugunar að afnema eða endurskoða skattalöggjöfina. En meiri hl. leggur ekkert slíkt til. Nú hefði ég vænzt þess, að einhver hefði fundizt hér, sem vildi bera fram rökstudda dagskrártill. með þeirri forsendu að vísa málinu frá og þetta verði tekið til athugunar í sambandi við fyrirhugaða endurskoðun skattalöggjafarinnar.

Eitt er ég alveg viss um, og það er, að þetta mál er stórt mál. Það hafa verið bornar fram ekki færri en fimm till. til breytingar á skattalögunum á þessu þingi, og ef allar þær till. hefðu verið samþ., mundi ekki nást mikið af tekjum í ríkissjóðinn til þess að standa undir útgjöldum. Það þýddi það, að þegar búið væri að endurskoða skattalöggjöfina og allir búnir að fá sínum vilja framgengt, þá væri ekkert eftir hjá ríkissjóði.

Það kom skýrt fram í umr. á Stúdentafélagsfundinum, að afnema þarf stríðsgróðaskattinn og hækka persónufrádráttinn. Og hvað er þá eftir til þess að taka í ríkissjóðinn? Það er ekkert eftir, nema bölið af því að hafa þessa skattalöggjöf. En í landinu mundu rísa upp hundruð og jafnvel þúsundir blómlegra fyrirtækja, ef þau fengju að vera frjáls í sambandi við skattamálin. Í þessu sambandi má nú benda á samvinnufélögin, sem náð hafa þeim fríðindum að vera ekki íþyngt með háum sköttum, sem aðrir verða við að búa.

Ég skal ekki fara mikið út í einstök atriði málsins núna, en meiri hl. n. hefur gengið þannig frá því, að ég er viss um, að þetta verða ekki síðustu átökin um það mál. Komi fram till. frá hæstv. ríkisstj. um nýtt skattafyrirkomulag, sem ég skil ekki að verði, get ég bent á það, að ég stakk upp á því í fjhn., að við skyldum semja annað frv. um endurskoðun skattalöggjafar ríkisins. En ef marka má nokkuð af framkomu nm., þá vilja þeir ekki, að skattalöggjöfin sé endurskoðuð. Ég hef því litla trú á því, að þessi till. verði samþ. í Sþ.

Ég skal svo ekki ræða þetta mál meira, en benda á að síðustu, að það er síður en svo, að ríkisskattan. sé á móti þessu atriði. Hún hefur skiptar skoðanir um málið, en heldur má þó segja, að hún sé ekki með því, að skattar séu felldir niður og tollarnir hækki, en þetta frv. fer ekki fram á að hækka neina tolla og þess þarf ekki, það hef ég sýnt fram á. Miklu fremur væri hægt að lækka tollana, ef halda ætti söluskattinum eins og hann er nú, því að hann mundi hækka og þá mætti um leið lækka tolla. En það vilja menn bara ekki láta athuga.

Ég mæli með því, að till. meiri hl. fjhn. verði felld og að frv. verði samþ. eins og það liggur hér fyrir.