20.11.1951
Efri deild: 31. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (2361)

118. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég tel að frv. þetta sé mjög þarft, en mig langar til þess að fá nokkrar upplýsingar um það. — Það munu vera tvö ár síðan Alþ. sá, að þessa var mikil þörf, þar sem til eru nokkrir sjóðir, er standa í sambandi við ýmsar fasteignir, svo sem kristfjárjarðir, og eru þeir nú óvirkir. Ómögulegt var að láta þetta ganga lengur þannig, og var ríkisstj. falið að athuga, hvort selja mætti jarðirnar, svo að sjóðirnir yrðu virkir. En í þessu sambandi er mér ekki ljóst, hvort dómsmrn. á að fjalla um þetta, því að mikið af þessum sjóðum heyrir undir önnur ráðuneyti og sumir ekki undir neitt sérstakt ráðuneyti. Ég tek til dæmis jörðina Reyni á Akranesi. Sú jörð var gefin af Brynjólfi biskupi, og átti afgjaldið að vera styrkur til fátækra, sem fyrst átti að ganga til fátækra í Borgarfjarðarsýslu, en síðan í Mýrasýslu, Húnavatnssýslunum báðum, Skagafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslum. Prófasturinn í Borgarfjarðarprófastsdæmi á að sjá um jörðina og fá vissan hluta af afgjaldinu fyrir umsýsluna, sem er víst mestur hluti þess. Nú er búið að breyta þessari jörð í höfuðból, og hver á þá að taka við henni, því að á jörðinni býr nú barnlaus ekkja með tveimur systkinabörnum? Nú er mér ekki ljóst, hvernig á að leggja breytingu á þessari skipulagsskrá fyrir dómsmrn. — Sama er að segja um jörðina Vallholt í Skagafirði. Sá sjóður, sem við hana er kenndur, á að renna til fátækra í erfiðum árum, og finnst mér þetta heyra undir félmrn., en ekki dómsmrn. Þetta bið ég hv. n. að athuga. Mér fyndist eðlilegast, að það rn., sem sjóðurinn samkvæmt eðli sínu heyrir undir hverju sinni, ætti að fjalla um breytingar þær, er gera þarf á skipulagsskrá hans, en ekki dómsmrn. Þetta er ekki af því, að ég treysti ekki hæstv. dómsmrh., heldur af því, að mér virðist hvert einstakt rn., sem sjóðurinn heyrir undir, eiga að breyta skipulagsskránni.