18.01.1952
Efri deild: 63. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (2479)

45. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þetta mál mikið, en vil segja nokkur orð. — Ég vil fyrst segja það, að ég hef ekki heyrt álit frá n. í framsögu og ekki heldur í nál., hvort hún er andvíg þessu máli eða gæti hugsað sér að fylgja því; það kemur ekki fram í hinni rökst. dagskrá eða í framsögu. En vegna þess, hvernig rökst. dagskráin er samin, vildi ég mega spyrja hv. frsm. að því, hvort Íslendingar eiga sæti í þessari n. og hvaða Íslendingar það eru, því að ef svo væri, þá væri ekki óeðlilegt, að sá fulltrúi fengi þetta mál ásamt fskj. til athugunar, úr því að þessi ráðstefna er metin svo mikils, að það þykir sjálfsagt að afgr. ekki málið fyrr en þar fellur einhver úrskurður.

Álit háskólans gæfi mér tilefni til þess að ræða það hér lengi, því að þar rekur sig hvað á annars horn. En ég skal þó ekki tefja störf þingsins með því að fara út í það mál á þessu stigi, en ég hef þó sterka tilhneigingu til að gagnrýna margt af því, sem þar kemur fram og ekki fær staðizt. Hins vegar get ég vel skilið afgreiðslu n., með tilliti til fskj. II, þar sem Rithöfundafélag Íslands og Félag íslenzkra rithöfunda leggja eindregið til, að málið sé ekki samþ. Hins vegar vil ég benda á, hvort ekki sé ástæða til fyrir n. að marka einhverja stefnu í sambandi við þau verk íslenzk, sem enginn höfundarréttur er að nú, en t. d. fornritin eru gefin út ár eftir ár til ágóða fyrir bókaútgefendur eina, því að ef meginreglan er sú, að þessi rit séu ekki gefin út nema til þess að alþýðan geti fengið þau ódýr, þá er það annað atriði. Hér eru nú gefin út rit eins og Íslendingasögurnar og Passíusálmarnir í alls konar skrautútgáfum og til stórgróða fyrir útgefendur. Hv. menntmn. hefur ekki viljað taka til greina það. sem um þetta mál er sagt í grg. við frv. mitt. Háskólinn hefur ekki heldur viljað taka við þessari tekjulind, sem ég geri ráð fyrir í frv. mínu.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta meir, en ég vonast til, að rökst. dagskráin verði felld og þannig verði búið um þau rit, sem enginn á höfundarrétt að, að allur ágóði af útgáfu þeirra renni til Háskóla Íslands.