16.11.1951
Neðri deild: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (2488)

102. mál, skipun læknishéraða

Jón Pálmason:

Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir flutning þessa máls inn í þingið, því að það er flutt eftir hans ósk og í samráði við mig. Ástæðan er sú, að það er mjög mikill áhugi í Höfðakaupstað fyrir því að frá sérstakan lækni. Ég skal ekki fara út í orsakir þessa frekar en hv. frsm. hefur gert. Hann skýrði frá því, hvernig málinu væri varið, en tók sérstaklega fram, til þess að hv. þm. sé ljóst, að það eru allir þarna, sem óska eftir að fá nýjan lækni. Samt sem áður skoða þeir sem sjálfsagðan hlut, að sameiginlegt sé sjúkrahús fyrir bæði héruðin, byggt á Blönduósi eins og er í undirbúningi og hefur verið langalengi, enda er þarna svo stutt á milli, að það kemur ekki til mála, að óbreyttum kringumstæðum, að á annan veg verði með það mál farið en að hafa sameiginlegt sjúkrahús fyrir héraðið allt eins og nú er.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um málið, en aðeins segja það varðandi það hús, sem hér er minnzt á og kallað er hið sænska hús, að það er eign ríkisins og þannig til komið, að það er byggt á vegum nýbyggingarnefndar Höfðakaupstaðar. Hins vegar eru allverulega skiptar skoðanir um það, hversu þetta hús hentar sem læknisbústaður og hve mikil viðgerð þyrfti að fara fram á því, til þess að það yrði nothæft sem slíkt. Að öðru leyti veit ég, að heilbr.- og félmn. kynnir sér allar aðstæður í þessu máli, áður en það kemur til 2. umr.