19.01.1952
Efri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (2506)

102. mál, skipun læknishéraða

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég mun ekki gerast langorður um þetta mál, en þar sem ég fyrir mína parta get ekki sætt mig við afgreiðslu n. eða till. hennar, þykir mér rétt að segja fáein orð.

Um skiptingu Blönduóshéraðs sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Eins og ég hef litið til þess máls, sýnist mér, að hún hafi við rök að styðjast. En það, sem ég vildi gera að umtalsefni, er sú breyt., sem lagt er til að gerð verði á skipun læknamála á Fljótsdalshéraði.

Fyrir nokkrum árum varð breyting á skipun þessara mála á Héraði. Þar höfðu verið tvö læknishéruð og tveir læknar starfandi og sat annar ofarlega á Héraði, á Brekku, en hinn á Hjaltastað. Sú breyting, sem síðar var gerð, var í því fólgin, að héruðunum var steypt saman í eitt og ákveðið, að læknirinn og aðstoðarlæknirinn skyldu sitja á Egilsstöðum og þar jafnframt komið á laggirnar sjúkrahúsi. Með sameiningunni var hugsað að tryggja sjúkrahúsinu möguleika til að starfa, læknarnir færðir saman og ekki meiningin að hverfa frá því að hafa tvo lækna í Fljótsdalshéraði í framkvæmd, þó að annar væri látinn heita aðstoðarlæknir; það var ekki meiningin, heldur að þeir yrðu þarna tveir í raun og veru, en af því leiddi það hagræði, að þó að annar væri kallaður, væri samt læknir eftir, sem gæti sinnt sjúkrahúsinu.

Það hefur nú orðið æði misbrestasamt um það, að tveir læknar sætu að jafnaði á Egilsstöðum, og hafa verið nokkrir kaflar á milli, sem enginn aðstoðarlæknir hefur verið, og nú í seinni tíð hefur oft alveg vantað aðstoðarlækni. Hafa verið mjög tíð umskipti og komið nýir og nýir, og þetta þykir mönnum heldur til hins verra. Ég ætla, þó að hv. alþm. séu að vísu mismunandi staðkunnugir á landinu, að þeim sé öllum ljóst, hve stórt það hérað er, sem þarna um ræðir. Víðlendi þess og svo sjúkrahúsið krefst þess, að þarna séu að jafnaði tveir fastir læknar. Það liggur hér frammi í þinginu bréf frá oddvitum allra sveitarfélaga á Héraði með áskorun um, að læknishéraðinu verði skipt, og verður ekki annað séð af þessu bréfi en að allir forsvarsmenn sveitarfélaganna þar ásamt stjórn sjúkrahússins séu sammála um að óska þessarar breyt.

Landlæknir er andvígur þessu, eins og fram kemur í nál. Flm. till. um að skipta Egilsstaðahéraði geta ekki fallizt á rök landlæknis gegn þessu, og verð ég að taka þar í sama streng. Þau eru flest á þá leið að lýsa ýmsum agnúum, sem mundu verða á þessu í framkvæmd. Hann vill ganga út frá því gefnu, að ósamkomulag hljóti að verða á milli læknanna um alla hluti, t. d. sjúkrahúsið, störfin úti í héruðunum, læknisbústaðinn o. s. frv. Við höfum ekki getað fallizt á, að þetta séu það veigamikil rök, að ástæða sé til að stöðva málið þess vegna.

Ég skal ekki neitt fjölyrða um þetta, en vildi aðeins draga saman niðurstöðurnar. Það er þá í fyrsta lagi, að víðlendi héraðsins og sjúkrahúsið krefst þess, að tveir læknar séu starfandi þarna. Í öðru lagi hefur orðið mjög áfátt um það undanfarið, að tveir læknar störfuðu þar í framkvæmd, eins og ég hef þegar lítillega lýst. Og í þriðja lagi liggja fyrir mjög einróma óskir úr þessu byggðarlagi um, að þessi breyting nái fram að ganga. Vildi ég því mega vænta þess, að hv. d. felli hina rökst. dagskrá hv. n., en samþ. frv. eins og það liggur fyrir.