17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2562)

131. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Mér þykir mikið fyrir því, ef hæstv. dómsmrh. leggur þann skilning í þau orð mín, sem ég viðhafði um lagaprófessora, að ég væri að lítilsvirða þá. Það er nú eitthvað annað en ég beri ekki fulla virðingu fyrir lagaprófessorum. Ég hef aldrei verið kunnur að því að segja um þá nokkurt misjafnt orð. Það væri í raun og veru alveg óþarft fyrir mig að vitna um þá stétt, sem ég hef hvorki lagt til í orði né verki, ef hæstv. dómsmrh. hefði ekki gert sig líklegan til að hengja hér bakara fyrir smið. En ég tel það undirbúning að því að hengja bakara fyrir smið, ef till. mín um prófessorsembætti í röntgenfræðum á að valda því, að það hefur verið látið undir höfuð leggjast að skipa lagaprófessora undanfarið. En orsök þess, að lagaprófessorum við háskólann hefur fækkað, er kannske eðlileg. Við vitum, að hæstv. dómsmrh. hefur verið prófessor við háskólann, og einn þm., sem var lagaprófessor við háskólann, gegnir nú öðru embætti. En það er deildarmannanna að sjá fyrir fjölgun á prófessorum í deildinni, þegar fækkun verður, en ekki láta það koma niður á öðrum nauðsynlegum embættum.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að eini tilgangur minn með þessari till. væri að fá hækkuð laun yfirlæknis röntgendeildar landsspítalans. Það er að vísu rétt, svo langt sem það nær. Ég vil láta hann fá þau laun, sem hann vinnur fyrir eða honum er gefið tækifæri til að vinna fyrir, en það er langt frá því, að eini tilgangurinn með flutningi þessarar till. sé að hækka laun þessa manns, án þess að hann vinni fyrir þeim. Það er í raun og veru ekki ég, sem er höfuðvitnið í þessu máli. Það eru allt önnur vitni. Það er heilbrmrh., landlæknir og stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur, sem eru vitnin. Þó að hæstv. dómsmrh. geri það að gamni sínu að gera mér aðrar hvatir en liggja hér til grundvallar, þá leyfir hann sér ekki að halda slíku fram um „kollega“ sinn, heilbrmrh., og um landlækni, svo að ég tali nú ekki um stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur. Þetta eru vitni, sem eru svo skýr, að allt, sem ég segi, væri hjóm og einskis virði, ef ég hefði ekki þann grundvöll til að standa á. Ég vil ekki þreyta hæstv. dómsmrh. og hv. d. á því að lesa bréfið frá stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur upp í þriðja sinn, þó að hæstv. ráðh. eigi það fyllilega skilið. Í bréfi frá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur frá 28. des. 1951 er gefið yfirlit yfir viðtal við hæstv. menntmrh. 19. des. Þar segir, að hann hafi óskað eftir skriflegri grg. Segir þar svo. með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni viðtals okkar við hæstv. menntmrh. 19. þ. m., þar sem hann óskaði skriflegrar greinargerðar, þykir stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur hlýða að skýra sjónarmið félagsins varðandi aukna kennslu í röntgenfræðum við háskólann.

Í lögum félagsins segir: „Tilgangur félagsins er að styðja í hvívetna baráttu gegn krabbameini“. Þessum tilgangi hyggst félagið ná m. a. með því: „að stuðla að aukinni menntun lækna í greiningu og meðferð krabbameins; að stuðla að útvegun eða kaupum á fullkomnustu lækningatækjum á hverjum tíma og nægu sjúkrarúmi fyrir krabbameinssjúklinga; að hjálpa krabbameinssjúklingum til þess að fá fullkomnustu sjúkrameðferð, sem völ er á innanlands og utan.“ — Af þessu er ljóst, að félagið hefur áhuga fyrir aukinni menntun lækna og læknaefna í greiningu og meðferð krabbameins. Það er eitt meginatriði í raunhæfri baráttu gegn krabbameini, að læknar og læknanemar eigi kost sem fullkomnastrar fræðslu um þennan sjúkdóm og meðferð hans.

Yfirlæknir röntgendeildar landsspítalans annast kennslu í röntgenfræðum við háskólann, og telur hann þeirri kennslu ábótavant eins og er. Má sérstaklega benda á, að ekki eru haldnir neinir fyrirlestrar í geislalækningum (röntgen- og radiumtherapi), en það er þó önnur aðalgrein röntgenfræðinnar og varðar mjög greiningu og meðferð illkynjaðra meinsemda, enda eru geislalækningar auk skurðlækninga aðalmeðferðin við þeim. Það er því sérstaklega áríðandi, að kennslan sé aukin í þessum efnum.

Stjórn Krabbameinsfélagsins leggur höfuðáherzlu á, að bætt verði hið fyrsta úr þessari kennsluþörf, og metur mikils góðan skilning hæstv. ráðh. á þeirri þörf, eins og fram kom í fyrrgreindu viðtali. Telur félagsstjórnin æskilegast og eðlilegast, að stofnað verði prófessorsembætti í röntgenfræðum. Landsspítalinn er háskólasjúkrahús og kennslustofnun. Á röntgendeild hans stunda læknaefni nám, og þar eiga læknar kost á framhaldsmenntun. Enn fremur eru læknar sérmenntaðir þar í röntgenfræðum, og þar eð þessi deild spítalans hefur starfað frá stofnun hans og býr því yfir mikilli reynslu. ætti hún að vera jafnrétthá lyflæknis- og handlæknisdeildum. Húsrými deildarinnar er nú verið að auka, og ný geislalækningatæki verða tekin þar í notkun eftir fáar vikur. Vonandi dregst ekki lengi úr þessu, að deildin fái nokkur sjúkrarúm fyrir rúmliggjandi geislasjúklinga, enda er á því brýn þörf. Þessi atriði virðast öll mæla með því, að yfirlæknir röntgendeildarinnar sé jafnframt prófessor við háskólann.

Nauðsynleg aukning á kennslu í röntgenfræðum hlýtur að hafa nokkurn kostnað í för með sér. Nái sú aukning fram að ganga, væri hún eðlilegust og ódýrust í sambandi við stofnun prófessorsembættis í þessari grein og í fyllsta samræmi við óskir háskólans og heilbrigðisstjórnarinnar.“

Þetta er skrifað í nafni Krabbameinsfélags Reykjavíkur, og það er ekki annar læknir en Alfreð Gíslason sjálfur, sem undirritar þetta bréf. Er langt frá því, að hér sé verið að reyna að bæta nokkrum krónum við laun eins læknis. En það er sannmæli, að um leið og læknar eins og t. d. prófessor Jóhann Sæmundsson og prófessor Guðmundur Thoroddsen leggja á sig mikla kennslu í háskólanum auk síns starfs á landsspítalanum, þá fer með þá eins og hvern annan, að verkamaðurinn er verður launanna.

Ég skal svo fúslega við það kannast, að það féll í minn hlut þann stutta tíma, sem ég gegndi störfum heilbrmrh. í þessu landi, að setja ákvæði um það. að þessir tveir mætu læknar fengju hálf prófessorslaun fyrir það, að þeir tækju á sig kennslu við háskólann. Svo mundi það verða með lækna í fleiri greinum, sem yrðu einnig prófessorar. Ég taldi mig vinna þarna rétt verk, enda var það í fyllsta samræmi við álit heilbrigðisstjórnarinnar að öllu leyti.

Ég hjó eftir því í ræðu menntmrh. í gær, að það stæði til, að aukin yrði kennslan, en það er eins og hann hafi tekið það í höfuðið, að yfirlæknir röntgendeildarinnar megi alls ekki heita prófessor. Ég veit ekki, hvaða sparnaðarráðstöfun það er. Það er vitað, að þörf er á þessari kennslu, en úr þeirri þörf verður ekki bætt með skipun lagaprófessors. En það er vissa fyrir því, að þörf er fyrir aukna kennslu, og mun því vera brýn nauðsyn að fá færan prófessor skipaðan, eins og gögn þessara mætu manna sýna fram á.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að mér væri lagið að gera mikið úr litlu. Er ekki nema gott um það að segja, að maður geti haldið svo á því, sem maður hefur milli handa. En hæstv. dómsmrh. má gæta þess að iðka ekki aðra hættulegri list, sem er að gera lítið úr miklu. Mér virtist af því, sem hann lagði hér til málanna, að hann hefði allsterka tilhneigingu til þess að gera lítið úr þessari till. og telja hana fram komna af allt öðrum ástæðum en rétt er og gera á þann hátt lítið úr henni. Ég hef aldrei haldið því fram, að ég væri að vinna neitt stórverk í þessu efni, en ég sagði áðan, að hér væri áreiðanlega verið að stíga spor í rétta átt. En úr þessu máli á ekki að gera neinn hégóma, eins og mér virtist hæstv. dómsmrh. hafa nokkra tilhneigingu til að gera.