23.10.1951
Neðri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2581)

8. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Frummælanda Alþfl. þótti hlýða að bera það fram hér við þessa umr., að ég hefði gert ítrekaða tilraun til að hindra, að upplýsingar verðgæzlustjóra um álagningu kæmu fram í dagsljósið. Ég geri ráð fyrir, að þessi lítilmannlega og ósanna fullyrðing hans sé komin frá framkvæmdastjóra Alþýðusambandsins, sem hljóp með skýrsluna í Alþýðublaðið, til þess að blað hans gæti birt fréttina á undan öðrum blöðum og notað hana til pólitískra árása. Ef honum var annt um að birta skýrsluna, hvers vegna lét hann þá ekki öll blöðin hafa hana? Skýrslan var ekki send honum, heldur n., sem hann er formaður fyrir. Hann fékk ekki leyfi n., enda hefði hún ekki getað gefið slíkt leyfi, þar sem plöggin voru send henni sem trúnaðarmál á ábyrgð verðgæzlustjóra.

Jón Sigurðsson hefur reynt að afsaka trúnaðarbrot sitt með því, að honum hafi ekki verið afhent plöggin sem trúnaðarmál. En samkvæmt lögum má verðlagseftirlitið ekki afhenda neinum óviðkomandi upplýsingar, sem það fær í starfi sínu. Það hlaut því að liggja í hlutarins eðli, að verðgæzlustjóri gat ekki látið n. í té upplýsingarnar nema sem trúnaðarmál.

Háttvirtur ræðumaður talaði um það sem niðurlægingu fyrir Íslendinga að taka við fé frá Marshallhjálpinni. Hv. þm. virðist hafa gleymt því, að flestar vestrænar þjóðir hafa tekið við slíku fé kinnroðalaust. Hér er þetta fé notað til að koma á stofn stórvirkum atvinnutækjum til að búa í haginn fyrir framtíðina.

Hv. þm. talaði mikið um, hversu ómöguleg ríkisstj. væri og að hliðstæðu hennar væri ekki að finna nema í Asíu og Afríku. Þeim sárnar í Alþfl. um þessar mundir að hafa engan mann í ráðherrastól.

Hann ásakaði einnig ríkisstj. fyrir atvinnuleysið, sem þó hefur ekki borið neitt á undanfarið, og sérstaklega kenndi hann ríkisstj. atvinnuleysið á Siglufirði, sem sprottið hefur af aflabresti á síldarvertíðum undanfarin ár. Flest er nú orðið ríkisstj. að kenna.

Síðan 1931 hafa verið hér verzlunarhöft. Í mörg ár hefur verið hér verðlagseftirlit og skömmtun á vörum. Fyrst á þessu ári, tveimur áratugum eftir að höftin hófust, hefur verið gerð einbeitt tilraun til að losa þjóðina úr þessum viðjum og koma hér á frjálsri verzlun. Kostum frjálsrar verzlunar fyrir þjóðfélagið í heild ætla ég ekki að lýsa hér. En þeir, sem séð hafa ástandið í einræðislöndunum, þar sem fullkomin ríkiseinokun er á allri verzlun, og bera það saman við lönd, þar sem viðskiptin eru að mestu frjáls, þeir vita hver himinhrópandi munur er á kjörum fólksins.

Á þessum tveimur áratugum, sem höftin hafa staðið hér, hefur verið leitazt við að láta haftakerfið ná tilgangi sínum með sífelldum breytingum í framkvæmdinni. Á þessu tímabili hafa margar nafnabreytingar orðið á þeim stofnunum, sem séð hafa um framkvæmdina. Þessar breytingar hafa bætt úr í svip, en svo hefur jafnan sótt í sama horfið. Takmarkið var jafnan fjarlægt, en óánægja fólksins fylgdi þessum ráðstöfunum eins og skuggi.

Kerfið átti að tryggja það, að ekki væri meira flutt inn en hægt var að greiða. Á því hefur orðið mikill misbrestur fyrr og síðar. Það átti að sjá um sanngjarna skiptingu innflutningsins milli þeirra, sem verzluðu í landinu. Þetta hefur tekizt svo, að aldrei hefur linnt gagnrýninni í tvo áratugi og hatrammar pólitískar deilur hafa spunnizt af þessu. — Kerfið átti að tryggja almenningi hæfilega skömmtun og síðast en ekki sízt rétt verð. Hvorugt þetta hefur tekizt. Skömmtunin reyndist að ýmsu leyti skrípaleikur, er ákvað fólkinu skammt, sem það fékk ekki. Verðlagseftirlitið var vanmegnugt að sinna hlutverki sínu á þann hátt, sem upphaflega var til ætlazt. Ýmis óheilbrigð starfsemi þreifst í skjóli þess, eins og vill verða, þegar menn mega ekkert gera nema samkvæmt opinberum fyrirmælum.

Reynslan hefur og hvarvetna verið sú í heiminum, að engar opinberar ráðstafanir geta tryggt rétt verð, ef þurrð er á vörum. Þá myndast svartur markaður, og við þann markað hefur engin þjóð getað ráðið, sem býr við vöruskort. Í tíð þeirrar stj., sem Alþfl. veitti forstöðu, þreifst svartur markaður betur en nokkru sinni fyrr eða síðar. Vörurnar hurfu unnvörpum úr umferð og voru seldar með leynd fyrir margfalt verð. Ekkert verðlagseftirlit náði yfir þessi viðskipti. Fatnaðarefnin hurfu úr búðunum, og húsmæðurnar gátu ekki keypt algengustu efni til sauma, svo að þær gætu sparað sér að kaupa vinnuna. En efnin komu fram síðar í tilbúnum fatnaði, sem seldur var á háu verði og farið hafði um margar hendur. Margar vörur voru ófáanlegar nema á svörtum markaði fyrir afar hátt verð, og það verð kom ekki fram í vísitölunni.

Þannig var nú umhorfs í verðlagsmálunum, þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum af stjórn Alþfl. Hið fyrsta, sem stjórnin þurfti að gera til þess að bægja frá þessu ófremdarástandi, var að undirbúa jarðveginn fyrir frjálsa verzlun og bæta úr þeirri vöruþurrð, sem fóðraði svarta markaðinn. Þetta var gert. Byrjað var á því að afnema skömmtunina, þrátt fyrir hrakspár Alþfl. Um leið og þessar hömlur voru niður felldar, hætti fólkið að hamstra og biðraðirnar hurfu eins og mjöll á vordegi. Alþýðublaðið hafði spáð því, að nú mundu hinir ríku kaupa allt, sem eftir væri í búðunum. Það brást. Þetta var ekki af því, að meiri vörur væru í búðunum, heldur af því, að menn tóku nú ekki lengur sinn skammt, ef þeir þurftu ekki á honum að halda. Menn voru nú frjálsir og höguðu sér eftir því. Stjórnin gerði sérstakar ráðstafanir til að auka innflutning á neyzluvörum almennings. Jafnframt gerði hún fyrstu tilraunina að gefa innflutningsverzlunina frjálsa. Fyrsti frílistinn var gefinn út 4. ágúst 1950. Hinn 7. apríl 1951 var gefinn út frílisti, sem gaf frjálsan innflutning á nærri helmingi þess vörumagns, sem venjulega er flutt til landsins.

Skoðanir Alþfl. voru í fullri andstöðu við þessar ráðstafanir. Hann heimtar, að verzlunarhöftin verði sett á aftur. Og ekki eru nema þrjár vikur síðan frsm. flokksins í kvöld, Gylfi Þ. Gíslason, lýsti yfir því ásamt fleirum á fulltrúaráðsfundi flokksins, skv. frásögn Alþýðublaðsins, að til væri aðeins ein rétt leið í verzlunarmálunum, og hún væri landsverzlun. — Ég spyr: Er þessum mönnum ekki nokkur vorkunn? Og er nokkur furða, þótt hugsjónir þeirra fylli ekki lýðinn með eldlegum áhuga?

Um leið og verzlunin var gefin frjáls að verulegu leyti, streymdu neyzluvörurnar inn í landið. Svarti markaðurinn minnkaði og visnaði eins og jurt, sem fær hvorki ljós né næringu. Þessi vágestur, sem alla stjórnartíð Alþfl. hvíldi eins og svartur skuggi yfir viðskiptunum, hvarf um leið og fólkið fékk meira frjálsræði í verzluninni. Húsmæðurnar þurftu ekki lengur að sæta óhagstæðum kaupum á tilbúnum flíkum. Nú gátu þær keypt efnin og saumað á sig og börnin sín fyrir lítið brot af því, sem tilbúnu flíkurnar kostuðu áður. Á allt þetta hefur Alþfl. horft með ólund og reynt að gera það tortryggilegt á allan hátt. En fólkið sjálft er ekki í vafa um, hvað hér hefur verið að gerast, því að það verður þess vart á degi hverjum.

Um leið og vöruhungrið hvarf og markaðurinn fór að fyllast af ýmiss konar neyzluvörum almennings, lá næst fyrir að leitast við að mynda frjálst verðlag, sem gæti tryggt almenningi heilbrigt verð í frjálsri samkeppni. Til þess þurfti að koma verzluninni á þann grundvöll, að afkoma hvers innflytjanda og hvers kaupmanns væri undir því komin, að þeir gætu gert hin hagkvæmustu innkaup og tryggt sér hið lægsta verð. Í tíð hafta og hámarksverðs hefur ástandið verið þannig, að því hærra verði sem vörurnar hafa verið keyptar, því meiri hagnaður var að selja þær. Ástandið nam bókstaflega á brott alla hvöt til að kaupa vörurnar á lægsta verði. Hámarksverðið tryggði það, að hagnaðurinn var mestur af dýrustu vörunum, og vöruskorturinn sá fyrir því, að vörurnar seldust, hversu dýrar sem þær voru. — Er nú ekki nokkuð gefandi fyrir það að komast úr slíku öfugstreymi og gefa mönnum í staðinn hvötina og þörfina til að kaupa vörurnar við lægsta verði? Verðlagið var að verulegu leyti gefið frjálst fyrir þremur mánuðum til þess að leitast við að binda endi á það ástand, sem ég nú hef lýst, og koma á frjálsri samkeppni í vöruverði í landinu. Náist það að koma á óhindraðri, frjálsri samkeppni, er enga ráðstöfun aðra hægt að gera, sem betur tryggir hagsmuni neytendanna í sambandi við vöruverðið í landinu.

Eins og sakir standa, og að því er snertir allar helztu neyzluvörur almennings, er enginn lengur verndaður með höftum, hámarksverði og vöruþurrð, eins og í stjórnartíð Alþfl., og þeir, sem nú bjóða of dýrar vörur, geta ekki selt þær. Þetta sannar reynslan nú daglega. En ástæðan til þess, að Alþfl. heimtar nú að ræða þetta mál frammi fyrir allri þjóðinni í útvarpinu, er sú, að hann heldur, að hann geti sannað, að þessi tilraun hafi mistekizt vegna misnotkunar, sem komið hefur í ljós á hinu frjálsa verðlagi á byrjunarstiginu. Ég gerði þessa misnotkun að umræðuefni í útvarpsræðu, er ég flutti 28. sept. En vegna þess, að margir af þeim, sem nú hlusta á þessar umræður, munu ekki hafa heyrt þá ræðu, verð ég málinu til skýringar að endurtaka nokkuð af því, sem ég sagði þá.

Það varð mitt hlutverk 1943 að fá sett lög um verðlagseftirlit, sem strangari voru en áður hafði tíðkazt og náðu til allra vara og þjónustu. Eins og ég var sannfærður um á stríðsárinu 1943, að strangt verðlagseftirlit gæti gert gagn, eins og þá stóðu sakir, eins er ég sannfærður um, að verðlagseftirlitið gerir nú ekki gagn, eftir þá reynslu, sem á því hefur fengizt. Þegar verðlagið var gefið frjálst (enn þá voru þó margir vöruflokkar háðir verðlagsákvæðum), var flestum ljóst, sem nokkuð þekktu til verzlunar, að álagningin hafði með ákvæðunum verið lækkuð svo mjög, að kaupmenn og kaupfélög gátu ekki risið undir dreifingarkostnaðinum með óbreyttri álagningu. Óhætt er að fullyrða, að álagning hafi verið orðin miklu lægri hér en í nokkru nálægu landi. Það var því búizt við, að álagning mundi þurfa eitthvað að hækka. Hitt er svo annað mál, þótt álagningin þyrfti einhverrar leiðréttingar við, að út frá því var að sjálfsögðu gengið, að álagning yrði eðlileg og hófleg, þótt hún væri frjáls.

Ég skal þessu til frekari skýringar koma með lítinn samanburð á hámarksálagningu hér og í Danmörku á nokkrum vörutegundum. Verðlagsákvæði hér hafa yfirleitt miðazt við hámarksálagningu, en í Danmörku er á mörgum vörum ákveðið hámarksverð og samanburður því ekki mögulegur á þeim.

Heimiluð heildsöluálagning hér á bómullarefni, kvenkjóla úr bómull, barnaföt úr ull og skyrtur var 6½ %. Í Danmörku er heimiluð heildsöluálagning á þessar vörur 15–20%, misjafnt eftir vörutegundum. Smásöluálagning í Danmörku á kvenkjóla og barnaföt, sem keypt er beint frá útlöndum, er 48%. Hér var heimiluð raunveruleg álagning á sömu vörur 28%. Í Danmörku er leyfð heildsöluálagning á leir- og glervörur 35–40%, en hér 17%. Í smásölu má leggja í Danmörku á þessa vöru 70–80%, en hér 32–42%.

Þessi fáu dæmi ættu að nægja til að sýna, að varla er hægt að búast við því, að hægt sé að reka verzlun hér í fámennu landi með helmingi minni verzlunarálagningu í ýmsum greinum en í Danmörku. Og þegar verzlunin hefur verið skorin svo inn í kviku með álagninguna eins og hér hefur verið gert, er varla við öðru að búast en að álagningin hækki eitthvað. Þegar slíkar ráðstafanir sem þessar eru felldar úr gildi, eftir að hafa staðið í mörg ár, er naumast hægt að búast við öðru en að einhver truflun komist á verðlagið fyrst í stað og að einhverjir séu til í fjölmennri stétt, sem nota sér frjálsræðið á óverðugan hátt. Sú hefur líka reynslan orðið hér. En það er engin sönnun þess, að ráðstafanirnar séu rangar og muni ekki ná tilgangi sínum.

Frjálst verðlag hefur ekki staðið hér nema þrjá mánuði og þessi reynslutími er svo stuttur að það er bæði óvarlegt og óskynsamlegt að kveða upp dóm yfir því að svo stöddu, eins og Alþfl. vill nú gera með frv., sem hann hefur lagt fram í þinginu og nú er til umræðu. Verðlagið þarf nokkra mánuði enn til að ná jafnvægi og almenningur þarf enn tíma til að átta sig á því, að verðlagseftirlitið er nú að miklu leyti í höndum hans.

Eins og nú standa sakir, er hlutverk verðlagseftirlitsins aðallega það að kynna sér verðlagið og athuga, hvort álagningin er óhófleg. Undanfarið hefur lausleg athugun verið gerð á nokkrum vöruflokkum. Árangurinn er sá, sem búast mátti við, að álagningin hefur hækkað nokkuð og talsvert misjafnlega. Því miður hefur misnotkun á frjálsræðinu átt sér stað, en það væri rangt og ósanngjarnt að segja, að verzlunarstéttin yfirleitt eigi sök á því. Dæmin um óhóflega álagningu eru tiltölulega fá, en þau sýna að innan stéttarinnar eru menn, sem eru henni til lítils sóma og koma fram eins og vargar í véum gagnvart stétt sinni og einu viðkvæmasta áhugamáli hennar.

Vegna þess að frsm. Alþfl. hér í kvöld hefur dregið fram þau dæmin, sem ljótust eru, og lítið hirt um að geta þess, sem hóflegt er, kemst ég ekki hjá að gera grein fyrir því, hvernig málið horfir við, ef það er athugað öfgalaust.

Samkvæmt skýrslum, sem fyrir lágu í september, má segja, að álagningin á matvörur megi teljast hófleg. Á vefnaðarvörur er hún einnig yfirleitt hófleg, en nokkuð misjöfn. Hjá mörgum er hún mjög hófleg, bæði í heildsölu og smásölu, en hjá öðrum er hún hærri en hún ætti að vera og hjá nokkrum fáum fer hún fram úr hófi. Misnotkunin á hinu frjálsa verðlagi kemur mest fram í sambandi við B-listavörurnar, sem keyptar eru fyrir hinn svokallaða bátagjaldeyri. Augljóst er, að nokkrir innflytjendur hafa lagt óhæfilega á sumar vörusendingar og notað sér tækifærið að koma með sjaldséðar vörur meðan markaðurinn var tómur. Þótt þessir menn verði ekki sóttir að lögum, dylst engum, að heiðarlegri verzlunarstétt er enginn höfuðburður að því að hafa þá innan vébanda sinna. Dæmin um óhóflega álagningu eru þó fá í samanburði við þau, sem hófleg eru, og það verður til lítils gagns fyrir Alþfl. að reyna að fá dæmdar eftir þeim ráðstafanir ríkisstj. í þessum málum.

Til viðbótar þeim skýrslum, sem lágu fyrir í september, hafa nú komið skýrslur um smásöluverð á matvörum utan Reykjavíkur, á Suðvesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi, teknar úr nokkrum helztu bæjum og þorpum.

Ég verð að segja það, að þessi skýrsla sýnir lofsverða hófsemi í álagningunni bæði hjá kaupmönnum og kaupfélögum. Að vísu eru hér nokkrar undantekningar, og helzt ber á því á Austfjörðum, að um óþarflega háa álagningu er að ræða sums staðar.

Gagnrýni þeirri, sem komið hefur fram undanfarið vegna of mikillar álagningar, hefur aðeins verið beint gegn einstaklingsverzluninni. Hefur því jafnframt verið haldið fram, að kaupfélögin eigi samkvæmt hlutarins eðli að gæta hagsmuna neytandans og tryggja heilbrigt verð. Við athugun á þessum skýrslum hefur mér því þótt eðlilegt að bera saman verð og álagningu hjá kaupfélögum og kaupmönnum á hverjum stað. Þó að hér sé um nokkuð þreytandi upptalningu að ræða, kemst ég ekki hjá að gera stutta grein fyrir nokkrum liðum, sem sýna, hvernig ástandið er.

Ég ætla að byrja á bæ einum við Faxaflóa. Níu verzlanir, sem selja hveiti, selja vöruna án nokkurrar hækkunar á álagningu. Kaupfélag og 3 kaupmenn selja hveitið 7–10 aurum lægra hvert kg nú en þeim var heimilt áður skv. hámarksálagningunni. Á sama stað er strásykur seldur af kaupfélagi á kr. 5,25, eða 10 aurum hærra en hámarksákvæði. Kaupmaður selur á 5.20 og er 10 aurum undir hámarki. Annar selur á 5.60 og er nákvæmlega í hámarki. Þetta sýnir að sjálfsögðu mismunandi innkaup, en það sýnir líka, að þessir menn hafa ekki hækkað álagningu sína. Á sama stað selur kaupfélag rúgmjöl 10 aura á kíló og kaupmaður 25 aura undir ákvæðum.

Í stórum bæ á Norðurlandi selur kaupfélag hveiti án nokkurrar hækkunar á álagningu og á sama stað tveir kaupmenn, sem leggja nú 2–3% minna á þessa vöru en hámarksálagning heimilaði. — Strásykur hefur verið athugaður hjá 9 verzlunum, og selja 4 verzlanir á 5 kr. kíló, þar af eru 2 kaupfélög. Hækkun álagningar hjá þeim er 3%, en álagning hjá 2 kaupmönnum, sem selja sama verði, lækkar um 3%. Þetta sýnir mismunandi innkaup. Hjá hinum er verðið 5.10, og álagningin lækkar þó lítils háttar. Einn selur á 5.25 og hækkar álagninguna um 2.6%. Matbaunir voru athugaðar á sama stað. Hjá kaupfélaginu nam lækkun álagningarinnar 2.8%. Hjá 3 kaupmönnum nam lækkunin 2–4%. Hjá einum kaupmanni var hækkunin 7.6%.

Á Norðaustur- og Austurlandi virðist álagningin vera meiri og talsvert mismunandi. Athugað hefur verið hveitiverð hjá 5 verzlunum. Af þeim eru 3 kaupfélög. Verðið hjá þeim er kr. 4.00, 4.10 og 4,22 hvert kíló og hækkun álagningar 5–10%. Hjá tveimur kaupmönnum er verðið kr. 4.00 og hækkunin 2–3%.

Strásykurverð hefur verið athugað hjá fimm verzlunum. Hjá kaupfélagi er verðið kr. 5.70 og hækkun álagningar 14½%. Hjá einum kaupmanni er verðið kr. 4.75 og lækkun álagningar 2%, en hjá þremur er verðið kr. 5.00 til 5,40 og hækkun álagningarinnar 4–8%.

Rúgmjölsverð hefur verið athugað hjá einu kaupfélagi og einum kaupmanni. Báðar verzlanir seldu á kr. 3.40. Hækkun álagningar kaupfélagsins var 7.8%, en kaupmannsins 2.9%.

Á óbrenndu kaffi var hækkun álagningar hjá 4 kaupfélögum 4–13% og hjá einum kaupmanni 10.3%.

Dæmin, sem ég hef nú getið um frá kauptúnum við Faxaflóa og á Norðurlandi, sýna einmitt það, sem verið er að keppa að með afnámi verðlagsákvæðanna, að með heilbrigðri samkeppni og heiðarlegum verzlunarháttum getur álagningin jafnvel lækkað niður fyrir það, sem verðlagsákvæðin heimiluðu. Kemur nokkrum til hugar, að þetta hefði gerzt, ef hámarksálagning hefði verið í gildi?

Með tilliti til þess, að haldið hefur verið fram, að samtök um vöruverð væru meðal kaupmanna, hefur í Reykjavík verið athugað 15. þ. m. smásöluverð á nokkrum helztu matvörutegundum hjá um 50 verzlunum. Vöruverðið í verzlunum er yfirleitt talsvert mismunandi, sem sýnir, að ekki eru samtök um verðið. Ég ætla hér að minnast á nokkrar vörutegundir og bera verðið saman hjá kaupfélaginu og kaupmönnum.

Rúgmjöl. Kaupfélagið kr. 3.05 kíló. 32 kaupmannaverzlanir selja á lægra verði, eða 2,90–3.00. Fimm verzlanir selja á 3.10–3.50. — Hveiti er hjá kaupfélaginu kr. 3.00, hjá kaupmönnum yfirleitt 3.30. — Rís. Hjá kaupfélaginu 4.95 kg, hjá 15 kaupmannaverzlunum 4.75, hjá fjórum 5.00 og hjá fimm 5.10. Ýmsar búðirnar seldu ekki þessa vöru. — Sago. Kaupfélagið 6,20, kaupmenn frá 6.40 til 7.45. — Haframjöl. Kaupfélagið 4.20. Allar kaupmannaverzlanir lægri, frá 3.65 upp í 4.00. — Baunir. Kaupfélagið 3.35, kaupmenn frá 3.45 upp í 3.90. — Melis. Kaupfélagið 5.35, kaupmenn frá 5.20 upp i 5.80.

Verður ekki af þessu séð, að um samtök sé að ræða til að halda uppi vöruverðinu. Kemur nú fram í þessum umr., eins og oft vill verða, þegar mál eru notuð til pólitísks áróðurs, að þá er básúnað það, sem miður fer, og öll tækni notuð til að gera hólinn að fjalli.

Alþfl. á um þessar mundir fárra kosta völ, enda grípur hann nú hvert hálmstrá til þess að bera sig uppi. Þegar upplýsingarnar komu um misnotkun verðlagsins, eygði hann ekki hálmstrá, sem hann hefur gripið til undanfarið, heldur tré, sem hann gæti ef til vill flotið á og náð landi, áður en allt væri um seinan. Slíkt moldviðri stóryrða, hótana, rangfærslu og blekkinga, sem blað flokksins hefur þyrlað upp um þetta mál, er nærri einsdæmi og hefur yfirgengið allar fyrri tilraunir flokksins til að láta almenning vita, að hann væri til. Jafnframt gleymir ekki blað þeirra við hvert tækifæri að minna almenning á það, hvílíkur „gangster“ viðskmrh. landsins sé, sem ekki hugsi um neitt annað en að ríða net spillingarinnar, þrengja kosti alþýðunnar, hjálpa blóðsugum þjóðfélagsins og láta að sér kveða sem bölvaldur almennings. Mikið virðist nú við liggja fyrir þennan flokk og þá menn, sem að honum standa, að láta nú ekki þann pólitíska bita falla úr munni sér, sem þeir hafa tuggið undanfarnar vikur. En vel gæti farið fyrir þeim eins og hrafninum með ostbitann í nefinu. Hann freistaðist til að syngja of hátt, og um leið féll osturinn úr nefi hans.

Alþfl. stritast við að telja mönnum trú um, að hann einn og engir aðrir fordæmi óhóflega álagningu. Menn brosa nú yfirleitt að slíkum einfeldningshætti. Ég veit engan, sem mælir bót óhóflegri álagningu. Ríkisstj. lýsti yfir því, þegar verðlagið var gefið frjálst, að hún mundi ekki þola það til lengdar, að það verði misnotað. Hún hefur ekki þokað frá þeirri ákvörðun sinni og mun gera sínar ráðstafanir, þegar henni þykir tími til kominn og hún telur þess þörf.

Ráðleggingar eða forusta Alþfl. í verzlunarmálum hefur sjaldan verið til heilla, og svo mun enn reynast. Hann heimtar nú skömmtun. Hann heimtar verðlagseftirlit, og hann heimtar innflutningshöft. Ég spyr nú: Langar nokkurn til að hverfa aftur til þess tímabils, er Alþfl. hafði forustuna, þess tímabils, er höftin voru í algleymingi og allir voru þústaðir af skriffinnsku og nefndavaldi? Þess tímabils, er vörurnar voru skammtaðar, en fengust ekki vegna vöruhallæris. Þess tímabils, er hámarksverð var á öllum hlutum, en menn neyddust til þess að kaupa margar nauðsynjavörur á svörtum markaði fyrir tvöfalt verð. Það er ekki þetta tímabil, eða leiðsaga Alþfl., sem þjóðin þarfnast. Hún þarfnast frjálsra viðskipta, frjálsrar samkeppni og frjálsrar hugsunar og framtaks. Mistök og misnotkun í byrjun er hægt að leiðrétta, en sé athafnalíf fólksins hneppt i fjötra af þröngsýnum stefnum, getur slíkt ófrelsi haldizt frá einni kynslóð til annarrar.