23.10.1951
Neðri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2585)

8. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv., sem hér er til umræðu, er flutt af þremur þm. Alþfl. Tveir af flm. voru ráðh. á árunum 1947–49, annar þeirra, hv. 8. landsk. þm., Stefán Jóh. Stefánsson, forsrh. í þáv. ríkisstj., en hinn, hv. þm. Hafnf., Emil Jónsson, viðskmrh. Þegar þessir fyrrv. ráðh. bera nú fram till. á þingi varðandi viðskiptamálin og telja sig mikla siðabótamenn í þeim efnum, þá er ekki óeðlilegt, að menn líti lítið eitt til baka og rifji upp fyrir sér, hvernig ástandið var í verzlunarmálunum fyrir 2–3 árum, þegar þessir menn skipuðu forsæti og sæti viðskmrh. í ríkisstj. Á þeim tíma mátti engar vörur flytja til landsins nema að fengnu innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Leyfum þessum var úthlutað af stjórnskipuðu fimm manna ráði, fjárhagsráði, og undirdeild þess, sem kölluð var viðskiptanefnd. Við skiptingu leyfanna milli innflytjenda var að verulegu leyti farið eftir því, hvað mikið þeir höfðu hver um sig keypt af vörum frá útiöndum fyrr á tímum, en minna litið til þess, hvað almenningi hentaði bezt. Með þessu fyrirkomulagi, sem nefnt hefur verið „kvótakerfið“ og haldið var uppi með samstarfi Sjálfstfl. og Alþfl. í fjárhagsráði og ríkisstj., var verzlunin raunverulega afhent þeim fyrirtækjum, sem höfðu „kvótana“. Hjá þeim varð fólk að kaupa vörurnar, eins fyrir því, þótt mögulegt hefði verið að fá þær með betri kjörum hjá öðrum, sem höfðu lítinn eða engan innflutningsskammt hjá yfirvöldunum. Og verzlunarsamtök almennings, kaupfélögin, voru stórkostlega afskipt við úthlutun innflutningsleyfa á þessu tímabili, svo að samvinnumenn voru tilneyddir að kaupa mikið af vörum hjá öðrum fyrirtækjum. Þá var skömmtun á ýmsum nauðsynjavörum, en þó aðeins að nafninu til. Miklum fjármunum var eytt í það fyrirtæki, skömmtunarskrifstofuna, húsnæði þeirrar stofnunar rúmgott, húsgögn vönduð og mikill sægur af starfsfólki við skömmtunarstarfið. Seðlar voru prentaðir, vandlega taldir og skipt milli landsmanna; svo áttu víst verzlanir að skila innkomnum miðum til skömmtunarskrifstofunnar, og þá voru þeir taldir aftur, og auðvitað voru svo skrifaðar miklar og margbrotnar skýrslur um allt ævintýrið. En það var einn galli á öllu þessu — og hann ekki lítill. Mikið af þeim seðlum, sem þessi ríkisstofnun gaf út og áttu að vera ávísanir á nauðsynlegar vörur, voru falskar ávísanir. Vörurnar komu ekki á markaðinn nema þá á bakdyramarkað og svartan markað. Að vísu mun eitthvað af fólki, sem var aðgangsharðast og hafði beztan tíma til að leita uppi varninginn, eða var í sérstökum kunningsskap við forstöðumenn og starfsmenn verzlana, hafa fengið þann vöruskammt, sem því bar, en allur fjöldinn fékk ekki nema að einhverju leyti, og sumir að mjög litlu leyti, vörur út á sína seðla. Og annað veifið tóku yfirvöldin sig til og ógiltu með einni auglýsingu alla ónotaða seðla í fórum manna. Á þessu tímabili, 1947–49, var líka opinbert verðlagseftirlit. Yfirvöldin gáfu út tilskipanir um hámarksálagningu og hámarksverð á vörum, og margir menn voru á ríkislaunum við verðlagseftirlit. En þrátt fyrir allt þetta umstang og kostnað, sem því var samfara, var rekin hér mikil okurstarfsemi og margar vörur, sem ekki sáust í verzlunarbúðum, seldar á svörtum markaði fyrir geipiverð. Þessi okurverzlun var rekin rétt framan við nefin á öllum ríkislaunuðum verðgæzlumönnum, skömmtunarmönnum og sjálfum hershöfðingjanum yfir öllu því liði, viðskmrh. Alþfl. Og svo voru margir kaupsýslumenn, sem rökuðu að sér gróða eftir ýmsum „löglegum“ krókaleiðum. Ein helzta aðferðin var sú, að þeir, sem fluttu inn vefnaðarvörur, seldu þær til annarra fyrirtækja, sem þeir áttu sjálfir að miklu eða öllu leyti. — Þar voru saumaðar flíkur úr efnunum, sem voru svo aftur seldar til verzlana, sem sami aðili átti, og loks, eftir að vörurnar höfðu gengið á milli nógu margra fyrirtækja, sem hvert um sig tók sinn ágóða, var almenningi gefinn kostur á að kaupa varninginn, oft illa gerðan og óhentugan fatnað fyrir ránverð. Með þessum verzlunarháttum var fólki gert mjög örðugt, og oft ómögulegt, að fá vefnaðarvörur til að vinna úr á heimilunum, þó að þar væri aðstaða til að sauma fatnað handa heimilisfólkinu og spara með því mikil útgjöld. Þetta var orðið mikið vandamál og áhyggjuefni húsmæðra um land allt, og það átti rætur sínar að rekja til þeirrar óstjórnar, sem var á verzlunarmálunum. Kaupfélögin reyndu að bæta úr þessu vandræðaástandi með því að taka upp skömmtun á vefnaðarvörum hvert hjá sér og skipta þeim þannig milli félagsmannanna, því að enginn gat tekið Skömmtunarskrifstofu ríkisins og hennar vefnaðarvörupappíra alvarlega. Þetta var lofsverð viðleitni, en vegna þess að hlutur félaganna var svo mjög fyrir borð borinn við úthlutun innflutningsleyfa fyrir þessum vörum, gátu félagsmennirnir ekki fengið á þennan hátt nema hluta af því vörumagni, sem þeim bar og þeir hefðu fengið, ef sanngirni hefði ráðið við úthlutun leyfanna.

Það var mikil og almenn gremja í hugum manna um land allt yfir ófremdarástandinu í viðskiptamálunum fyrir 2–3 árum — og það ekki að ástæðulausu. Tilraunir voru gerðar til að koma þessum málum í betra horf, en þær báru lítinn árangur. Árið 1947 gerðu fulltrúar Framsfl. í fjárhagsráði till. um það, að skömmtunarseðlarnir væru látnir gilda sem innflutningsheimild fyrir þeim vörum, sem átti að skammta. Með þessu var hægt að tryggja það tvennt, að menn gætu fengið vörur út á seðlana og að þeir gætu keypt þessar vörur hjá þeim verzlunum, sem þeir töldu sér hagkvæmast að skipta við. Sjálfstæðismönnum var strax ákaflega illa við þessa till. Þeir munu hafa óttazt, að ef till. yrði samþ. og framkvæmd, svo að fólk fengi á þann hátt aukið frelsi í viðskiptamálum, mundi það verða til þess að auka viðskipti kaupfélaganna. Og Alþýðuflokksráðh. komu þeim til hjálpar í því máli, eins og oftar. Þá var málið tekið upp á Alþ., og þar var deilt um það á þrem þingum. Sagan endurtók sig í öll skiptin. Alþýðuflokksmenn hjálpuðu sjálfstæðismönnum til að hindra framgang málsins. Þess skal þó getið, að 1. flm. þessa frv., hv. 3. landsk., Gylfi Þ. Gíslason, var í fyrstu stuðningsmaður þess, að viðskiptafrelsi almennings yrði aukið með þessum hætti, og sömuleiðis annar þm. Alþfl., hv. 6. landsk., Hannibal Valdimarsson, sem á sæti í Ed. En síðast þegar málið var hér á þinginu, snerist hv. 3. landsk., Gylfi Þ. Gíslason, frá sinni fyrri stefnu og gekk til liðs við Sjálfstfl. með þeim flokksbræðrum sínum, sem nú flytja þetta frv. með honum, — hvað sem þeim snúningi hans kann að hafa valdið.

Fleiri tilraunir voru gerðar á þessum árum til leiðréttingar á framkvæmd viðskiptamálanna. Má í því sambandi minna á kaupstaðaráðstefnuna, sem svo var nefnd, hér í Reykjavík í febrúarmánuði 1948. Þar mættu fulltrúar frá kaupstöðum og kauptúnum á Vestur-, Norður- og Austurlandi. Til þeirrar ráðstefnu var stofnað vegna þess hörmungarástands í verzlunarmálunum, sem skapazt hafði í þessum landshlutum. Aðalkrafa ráðstefnunnar var sú, að skömmtunarvörum og öðrum venjulegum verzlunarvörum væri skipt niður á landsfjórðunga í hlutfalli við íbúatölu og þarfir hvers fjórðungssvæðis. Þeir fengu engin viðunandi svör hjá viðskiptan. eða fjárhagsráði, og þess vegna fengu þeir nokkra þm. til að flytja málið .á Alþ. Átta alþm. úr öllum þingflokkunum fluttu till. á Alþ. um skiptingu innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta, þar sem teknar voru upp kröfur ráðstefnunnar. Till. var samþ. á Alþ., en samþykktir kaupstaðaráðstefnunnar og ályktun Alþ. um málið var einskis virt af viðskmrh. Alþfl., og engin breyting varð í viðskiptamálunum. Ófrelsið, ranglætið og okrið eins og áður.

Nú getur verið, að þeir, sem stjórnuðu viðskiptamálunum á fyrr nefndu tímabili, reyni að kenna gjaldeyrisskorti um ófremdarástandið í þeim málum. Að vísu var það svo, að gjaldeyrisöflun landsmanna á þeim árum var of lítil til þess, að hægt væri að fullnægja eftirspurninni eftir útlendum gjaldeyri og útlendum vörum. En forráðamenn viðskiptamálanna á þeim tíma geta ekki varið sig og sitt framferði með því, að halli hafi verið á utanríkisviðskiptunum. Þrátt fyrir takmörkun á innflutningi var hægt, ef vilji var fyrir hendi, að haga vöruskömmtuninni þannig, að fólk gæti fengið vörur út á skömmtunarmiðana. Það var hægt, ef vilji var til þess, að veita fólki frelsi til að velja milli verzlana og kaupa vörurnar þar, sem það óskaði helzt. og það var hægt, ef viljann ekki vantaði, að skipta innflutningnum milli landshluta í hlutfalli við fólksfjölda og þarfir landsmanna, þó að ekki væri hægt að fullnægja allri þörfinni. En það vantaði viljann til þess að haga framkvæmdinni í samræmi við almannahag, hitt var metið meira, að þjóna þeim prangaralýð, sem hagnaðist á óstjórninni.

Ég hef lýst hér nokkuð þeim verzlunarháttum, sem landsmenn áttu við að búa fyrir 2–3 árum, þegar tveir af flm. frv., sem hér liggur fyrir, voru og hétu forsrh. og viðskmrh. á Íslandi. En hvaða breytingar eru nú á orðnar í þessum efnum? Í stað þess, að áður þurfti innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir öllum innfluttum vörum, er nú frjáls innflutningur á meira en helmingi af þeim verzlunarvörum, sem keyptar eru til landsins. Þannig er um kornvörur, kaffi og sykur, nauðsynlegustu vefnaðarvörur og margar aðrar vörur, sem almenningur þarf að nota, svo og flestar helztu rekstrarvörur til atvinnuveganna. Þessar vörur getur hver sem er flutt til landsins, án afskipta yfirvaldanna. Menn geta því fengið þessar frjálsu vörur hjá þeim verzlunum, sem þeir telja sér hagkvæmast að skipta við. Þeir, sem vilja hafa viðskipti sín hjá kaupfélögunum, af því að þeir telja sér hagkvæmast að hafa vörukaup og vörusölu þannig hjá sínum eigin fyrirtækjum, geta nú fengið þessar vörur þar. Og hinir, sem kjósa að skipta við kaupmannaverzlanir, geta keypt vörurnar þar. Þetta frjálsræði í viðskiptum þurfa menn að hafa. Þeir, sem vilja hafa viðskipti sín hjá kaupmönnum, eiga að hafa frelsi til þess að verzla við þá. Hinir, sem vilja vera þátttakendur í kaupfélögum og hafa viðskipti sín þar, eiga líka að hafa frelsi til þess, óáreittir af yfirvöldunum og öllum öðrum. Það er ekki eingöngu fjárhagslegt hagsmunamál fyrir menn að njóta slíks frelsis, það er einnig og ekki síður mannréttindamál.

Það eru mikil viðbrigði fyrir menn að njóta nú þessa frelsis í viðskiptalífinu við kaup á mörgum helztu nauðsynjavörunum, sem þeir þurfa að nota, í staðinn fyrir vistina í því svartholl ófrelsis og verzlunaránauðar, sem menn urðu að þola fyrir skömmu síðan. Fólkið víðs vegar úti um land getur fengið helztu nauðsynjar sínar hjá verzlunum heima í héruðunum, en þarf ekki að leita að þeim í öðrum landshlutum eins og áður. Biðraðirnar við búðirnar í Reykjavík eru úr sögunni. Svartamarkaðsprangararnir hafa orðið fyrir atvinnutjóni. Skömmtunarskrifstofan er orðin svipur hjá sjón, þó að enn séu einhverjir að sýsla við að skammta smjör og smjörlíki. Og hæstv. fjmrh. sagði frá því í framsöguræðu um fjárlfrv. á dögunum, að starfsmönnum þess opinbera við eftirlit með viðskiptum og vörudreifingu hefði verið fækkað um 40. Það munar um minna en launagreiðslur handa þeim hóp, — sem nú sparast. Fyrr á þessu ári var afnumið ríkiseftirlit með verðlagi á frjálsu vörunum, þ. e. þeim vörum, sem þá voru komnar á frílista og öllum var leyfilegt að flytja til landsins. Verðlagseftirlit var ekki heldur á svo nefndum bátagjaldeyrisvörum, en þær vörur eru tiltölulega lítill hluti af heildarvöruflutningi til landsins.

Það hefur komið í ljós, að sumir kaupsýslumenn hafa misnotað á mjög ósæmilegan hátt það frjálsræði, sem þeim var veitt með afnámi verðlagsákvæðanna. Einkum hafa þeir okrað á bátagjaldeyrisvörunum, svo nefndu. Í grg. með frv., sem hér liggur fyrir, er skýrt frá mikilli álagningu á ávaxtasultu, niðursoðna ávexti, þvottavélar, rakvélablöð, döðlur. silkiblúndur o. fl.

Það mun hafa verið þannig með bátagjaldeyrinn, að einstakir heildsalar hafa orðið fyrstir til að ná í eitthvað af honum og flytja inn vörur, sem heimilt er að kaupa fyrir þann gjaldeyri. Hins vegar munu aðrir, sem selja útflutningsvörur frá bátaútveginum, þar á meðal samvinnufélögin, ekki hafa fengið þær afurðir til sölu fyrr en lengra var liðið á árið. Hefur því dregizt nokkuð, að þau fyrirtæki hefðu bátagjaldeyri til ráðstöfunar og keyptu inn vörur fyrir hann. En um þessar mundir eða mjög fljótlega munu þeir aðilar flytja inn bátagjaldeyrisvörur, og geta menn þá náð í slíkar vörur án þess að kaupa þær með okurálagningu.

Það mátti vitanlega alltaf búast við því, að einstakir menn reyndu nú eins og áður að féfletta viðskiptamenn sína, því að það hafa alltaf verið til kaupsýslumenn á öllum öldum, sem hafa stundað þá iðju. Svo var um hörmangara á þeirra tíð, þegar þeir höfðu Íslandsverzlunina á leigu. Þetta gerðu dönsku selstöðukaupmennirnir síðar. Þeir reistu hallir í Kaupmannahöfn fyrir gróða af Íslandsverzlun, og eftir þeirra daga hér hefur jafnan verið eitthvað af innlendum kaupsýslumönnum, sem hafa fetað dyggilega í fótspor gömlu okurkarlanna, hvenær sem færi gafst. Ég hef áður lýst því nokkuð hér, hvernig þeir komu sér fyrir með fjárplógsstarfsemi sína fyrir 2–3 árum þrátt fyrir allt verðlagseftirlit, sem þá var. Og á þessu ári hafa slíkir karlar okrað á útlendri sultu, ávöxtum og ýmsum fleiri vörum, einkum þeim, sem hafa verið keyptar fyrir bátagjaldeyri.

Það er því eðlilegt, að rætt sé um það, hvað nú sé helzt til ráða til þess að forða almenningi frá áframhaldandi féflettingu slíkra manna. Þegar um þetta er hugsað og talað, þá held ég, að menn hafi gott af því að litast um á spjöldum sögunnar og kynnast því, með hvaða aðferðum fyrri tíma menn hér á landi reyndu að verjast fégráðugum kaupmöngurum. Á tímum gömlu einokunarverzlunarinnar var ekki hægt um vik, þá voru landsmenn neyddir til að skipta við þau félög, sem höfðu verzlunina á leigu, hvernig sem þau hegðuðu sér. En eftir að verzlunarfrelsið var fengið um miðbik síðustu aldar, breyttist viðhorfið. Þá komu menn auga á þann möguleika að komast fram hjá okrurunum og taka verzlunina í eigin hendur. Vitrir menn og framsýnir beittu sér þá fyrir stofnun verzlunarfélaga með almennri þátttöku til þess að koma í veg fyrir, að einstakir menn söfnuðu auði og ístru með óhóflegri álagningu á verzlunarvörur. Verzlunarsamtök þessi voru að vísu nokkuð laus í sniðum í fyrstu, en þau komust í fast form á síðustu áratugum 19. aldarinnar, þegar kaupfélögin risu á legg í mörgum byggðarlögum landsins. Það voru bændurnir, sem stofnuðu til þessara verzlunarsamtaka. Aðstaða þeirra til slíkra framkvæmda var margfalt erfiðari en þeirra manna, sem nú eru uppi. Þá var engin reynsla fengin af þess konar almennum verzlunarfélögum, og forgöngumennirnir höfðu enga menntun í viðskiptafræðum. Þetta var löngu áður en Verzlunarskólinn og Samvinnuskólinn voru stofnaðir. Þá var ekki til háskóli hér á landi, með hagfræði- og viðskiptadeild, eins og nú er, þar sem margir ungir menn fá árlega uppfræðslu í vísindum viðskiptalífsins undir handleiðslu prófessora og doktora í þeim greinum. En þó að upphafsmenn samvinnuhreyfingarinnar hér á landi skorti þessa uppfræðslu, þá höfðu þeir annað, sem ekki var minna um vert og dugði þeim í stríðinu við yfirgangssama kaupsýslumenn. Þeir höfðu mikið af heilbrigðri skynsemi, metnaði, manndómi og dugnaði til þess að ganga á hólm við erfiðleikana og sigrast á þeim.

Þeir tóku ekki þann kostinn að bera fram kröfur við löggjafarþingið eða ráðherra Íslandsmála suður í Kaupmannahöfn og heimta nýja embættismenn til þess að líta eftir verðlaginu hjá dönsku kaupmönnunum. Nei, þeim þótti viturlegra að nota sér verzlunarfrelsið, sem þjóðin hafði fengið, til þess að stofna sjálfir verzlanir margir saman í félagi, sem þeir nefndu kaupfélög. Með þessu gerðu þeir það, sem kaupmönnunum kom verst af öllu, þeir hættu að verzla við þá. Starfsemi kaupfélaganna fór vaxandi með ári hverju, svo að Íslendingar eru nú meðal fremstu samvinnuþjóða í heiminum, og á síðustu áratugum hefur sá mannfjöldi, sem tekur þátt í samvinnufélagsskapnum í sveitum og kaupstöðum landsins, hagnazt um milljónatugi á því að hafa viðskipti í sínum eigin búðum.

En til hverra ráða er nú gripið á því herrans ári 1951 gegn okurkörlum nútímans? Þm. Alþfl. heimta ríkisákvarðanir um verðlag á öllum vörum og ríkiseftirlit með verðlaginu. Það er þeirra úrræði. Þeir trúa svo mjög á embættismenn og opinbera forsjón í flestum efnum. Ef til vill þekkja þeir Alþfl-menn líka eitthvað af mönnum, sem væru fáanlegir til að vinna hjá því opinbera við verðgæzlustörf. En það eru vissulega til önnur úrræði í viðskiptamálunum, margfalt hagkvæmari fyrir almenning, en að varpa öllum nútímans áhyggjum upp á ríkisvaldið og embættismenn þess. Eins og ég hef áður minnzt á, hefur nú verið losað svo um viðskiptahöftin, að mikið af þeim útlendu vörum, sem menn almennt þurfa að nota, getur nú hver sem er keypt til landsins án leyfis yfirvaldanna. Og það liggur í augum uppi, að engin skynsamleg ástæða er til að krefjast þess að ríkið haldi uppi eftirliti með verði á vörum, sem öllum er frjálst að flytja til landsins. Eða í hverra þágu væri slíkt eftirlit? Ekki þurfa kaupfélagsmenn á því að halda. Þeir eru eigendur félaganna, og þeir setja þeim sjálfir starfsreglur, að því leyti sem þær eru ekki ákveðnar í landslögum. Sé álagning á vöruverðið hjá kaupfélagi einhvern tíma meiri en óhjákvæmilegt er til að borga kostnað við rekstur þess og lögákveðin framlög í varasjóð, þá fá kaupfélagsmennirnir afganginn endurgreiddan um hver áramót. Samvinnumenn um land allt fagna því, að nú hefur verið losað svo um viðskiptahöftin, að þeir geta fengið hjá kaupfélögunum mikið af þeim vörum, sem þeir þurfa að nota, en félögunum var neitað um af yfirvöldunum á tímum haftanna. Og þeir óska þess, að sem fyrst verði hægt að leysa þau viðskiptabönd, sem enn eru eftir, svo að samvinnufélögin geti útvegað félagsmönnum sínum allar þær vörur, sem þeir þurfa að nota og hafa aðstöðu til að kaupa. En kaupfélagsmenn þurfa ekki á neinu eftirliti að halda með verðlagi í sínum eigin félögum, enda óska þeir ekki eftir því, en kjósa að vera lausir við slík afskipti óviðkomandi aðila.

Vil ég í þessu sambandi skýra frá ályktun um viðskipta- og verðlagsmálin, sem samþykkt var á aðalfundi S. Í. S. í júnímánuði 1950. Á þeim fundi var lögð fram till. um verðlagsmál, en flm. hennar voru Sigfús Sigurhjartarson, formaður KRON, og kaupfélagsstjórarnir Ísleifur Högnason, Hjörtur Hjartar og Egill Thorarensen. Till. þeirra var svo hljóðandi (með leyfi hæstv. forseta):

„Aðalfundur S. Í. S., haldinn í Reykjavík 20.–22. júní 1950, lýsir því yfir, að hann telur, að verðlagseftirlitinu hafi ætíð verið og sé bezt borgið í höndum kaupfélaganna. Hann telur því, að afskipti ríkisvaldsins af þessum málum hafi ekki náð tilgangi sínum, og skorar á ríkisstj. að fella niður opinbert verðlagseftirlit með smásöluverzlun.“

Allmiklar umræður urðu um málið á fundinum, og undir þeim kom fram önnur till., svo hljóðandi:

„Fundurinn felur stjórn S. Í. S. að taka til rækilegrar athugunar hið allra fyrsta, hvort eigi muni framkvæmanlegt og heppilegast, að þegar á þessu ári verði aflétt þeim hömlum, sem nú eru á viðskiptafrelsi landsmanna, og komist sambandsstjórnin að þeirri niðurstöðu, að svo sé, felur fundurinn stjórninni að gera kröfur til Alþingis og ríkisstjórnarinnar um afnám viðskiptahaftanna og opinberra afskipta af verðlagsmálunum.“

Flm. fyrri till. féllust á að taka sína till. til baka, þar sem þeir voru samþykkir síðari till., og var hún samþ. á fundinum með samhljóða atkv. Alþfl: menn á fundinum höfðu enga sérstöðu í máli þessu.

Í þessari ályktun var skýrt mörkuð afstaða S. Í. S. og kaupfélaganna í þessum málum. Eins og þar kemur fram, leit aðalfundurinn svo á, að viðskiptahöftin ætti að nema burt, strax þegar mögulegt væri, og um leið opinber afskipti af verðlagsmálunum.

Þess má geta, að bæði S. Í. S. og einstök kaupfélög hafa oft á undanförnum árum haft lægri álagningu á ýmsum vörum en ákveðin var af yfirvöldunum sem hámarksálagning. Þannig hefur S. Í. S. t. d. ekki notað nema að nokkru leyti heimildina til álagningar á kornvöru, kaffi og sykur, svo að miklu munar, og nú, eftir að verðlagseftirlit er afnumið á þessum vörum, er álagning S. Í. S. á þær aðeins 3%. Þessi litla álagning Sambandsins kemur kaupfélögunum og öllum félagsmönnum þeirra til hagnaðar í lægra vöruverði en annars mundi vera.

Samvinnumenn hafa enga þörf fyrir verðlagseftirlit, ef þeir geta fengið þær vörur, sem þeir kaupa, hjá sinum eigin fyrirtækjum, kaupfélögunum. Ef einhverjir kaupfélagsmenn óskuðu eftir ríkiseftirliti með álagningu á þær vörur, sem þeir fá hjá sínu eigin kaupfélagi, eða m. ö. o. kaupa í sinum eigin búðum, þá væri það alveg hliðstætt því, að einhver kaupmaður óskaði eftir ríkiseftirliti með verði á vörum, sem hann sjálfur tæki úr sinni eigin verzlun til nota á sínu eigin heimili. Slíkt væri vitanlega hlægileg vitleysa, og ríkið hefur annað þarfara með fé sitt að gera en að eyða því í launagreiðslur til starfsmanna við þess konar eftirlit.

En er þá þörf á verðlagseftirliti vegna þeirra manna, sem verzla við kaupmennina? Þegar um er að ræða vörur, sem öllum er frjálst að flytja til landsins og verzla með, þá er heldur engin ástæða til þess fyrir ríkisvaldið að kosta eftirlit með verðlagi á þeim vörum vegna þeirra manna, sem af frjálsum vilja kaupa þær hjá kaupmönnunum. Þeir geta sjálfir kynnt sér vöruverð og vörugæði hjá kaupmannaverzlunum, gert kaupin þar, sem þau eru bezt, eða þá að þeir beina viðskiptum sínum til þeirra kaupmanna, sem þeir þekkja og treysta til að sýna sanngirni í viðskiptum. Hér ber því að sama brunni. Það er engin skynsamleg ástæða til að krefjast ríkiseftirlits með verðlagi á þeim vörum, sem frjálst er að flytja til landsins, hvorki vegna kaupfélaganna né hinna, sem skipta við kaupmannaverzlanir. Öðru máli gegnir vitanlega um þær vörur, sem takmarkaður er innflutningur á. Þar er ástæða til að beita verðlagseftirliti. a. m. k. ef úthlutun innflutningsleyfa fyrir vörunum er þannig hagað, að ekki sé tryggt, að notendur þeirra geti ráðið því, hjá hvaða fyrirtækjum þeir kaupa vörurnar. Hér eru líka í gildi verðlagsákvæði og haldið uppi verðlagseftirliti á þess konar vörum, svo sem t. d. byggingarefni, vélum, stærri verkfærum o. fl. En æskilegast væri vitanlega, að sem fyrst mætti takast að létta innflutningshömlum einnig af þeim vörum, svo að verðlagseftirlitið yrði þar óþarft.

Það úrræði, sem Alþfl. bendir á í þessu frv., er opinberar verðlagsákvarðanir og verðlagseftirlit á öllum vörum, líka þeim, sem öllum er nú leyfilegt að flytja til landsins. Þegar þetta er borið saman við þær djarfmannlegu og róttæku athafnir, sem stofnendur kaupfélaganna réðust í fyrir 3 aldarfjórðungum í viðureigninni við prangara þeirra tíma, þá sést bezt, hvað lítill glæsibragur er á þessu viðbragði Alþfl. Ef einhverjir okra á okkur í viðskiptum, þá er lítill manndómur í því að vola framan í ríkisvaldið og biðja það um nýja embættismenn til að gæta okkar fyrir okurkörlunum, en halda svo áfram að skipta við þá eftir sem áður, þó að enginn nauður reki okkur til þess. Reynslan hefur margsýnt, að okurkarlarnir eru leiknir í að komast fram hjá verðgæzlumönnum þess opinbera, hvað margir og hvað víða sem þeir eru. Meira verðlagseftirlit er allt of mild refsing handa pröngurunum. Þeir verðskulda aðra meiri. Í staðinn fyrir þetta ætti fólk að vera vel samtaka um að hætta öllum viðskiptum við þá og segja við þá einum rómi: Nú skuluð þið, karlarnir, setjast að snæðingi og borða alla ykkar sultu sjálfir, það sem þið eigið óselt af henni og allt það, sem þið kunnið að eignast af þeirri vöru hér eftir. Við höfum ekki lyst á þeirri vöru, ef þið hafið komið nálægt henni, og við ætlum ekki heldur að kaupa neinar aðrar vörur hjá ykkur hér eftir. — Og það er ekki nóg að segja þetta, heldur þarf að fylgja því eftir í verki.

Ef til vill hafa þeir heildsalar, sem fyrstir fluttu inn bátagjaldeyrisvörur og settu á þær óhæfilega hátt verð, flekað einhverjar smásöluverzlanir utan Rvíkur til að kaupa eitthvað af þeim. En okur þeirra mun þó fyrst og fremst hafa bitnað á Reykvíkingum. Ber þar margt til. Þangað komu þessar vörur fyrst, og innflytjendurnir hafa því byrjað á að fylla markaðinn þar. Fólkið var orðið vant því á haftatímunum að flýta sér að ná í nýjar vörur, strax þegar þær komu á markaðinn, af ótta við, að þær gengju fljótt til þurrðar, og gættu þess því ekki að afla sér upplýsinga hjá heiðarlegum fyrirtækjum um það, hvað væri skaplegt verð á vörunum, áður en það gerði kaupin. Enn kemur það hér til, að Reykvíkingar eru á eftir íbúum flestra annarra landshluta í því að nota sér úrræði samvinnustefnunnar í verzlunarmálum. En sá árekstur, sem þeir hafa hér orðið fyrir, mætti vel verða til þess að kenna þeim að gæta sín betur hér eftir og kaupa ekki framboðinn varning umhugsunarlaust á næsta götuhorni.

Fyrsti flm. þessa frv. er hv. 3. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, prófessor í viðskiptafræðum við Háskóla Íslands. Vissulega væri það hæfilegra verkefni fyrir mann með hans menntun og hæfileika að beita sér fyrir úrræðum í verzlunarmálunum, sem gætu haft raunhæfari þýðingu fyrir samborgara hans hér í höfuðstaðnum en það verðlagsfrv., sem hann og flokksbræður hans bera hér fram. Hann ætti að beita sér fyrir því, að fólk notaði sér það viðskiptafrelsi, sem nú hefur fengizt, á þann hátt að auka samvinnuverzlun í bænum og tryggja sér með því hagkvæmari viðskiptakjör en allur þorri bæjarbúa býr nú við. Sé hann í nokkrum vafa um það, hvert gagn mætti gera með slíkum félagssamtökum um viðskiptamálin, þá ætti hann að leita upplýsinga hjá einhverjum flokksbræðrum sínum, sem hafa reynslu í þeim efnum. Það eru til Alþýðuflokksmenn, sem hafa verið góðir liðsmenn í samvinnufélögunum og sumir þar í hópi forustumanna. Hv. 3. landsk. hefði vafalaust gott af því að bæta dálitlu við námsferil sinn og afla sér fræðslu hjá þessum mönnum, sem eru lærðir í skóla reynslunnar. Þeir gætu fært honum heim sanninn um gagnsemi kaupfélagsskaparins, og hann gæti fengið hjá þeim góðar ráðleggingar um það, hvernig ætti að vinna að þeim málum, svo að sem mestu og almennustu gagni kæmi. Og ef hv. 3. landsk. beitti áhrifum sínum með góðum árangri til þess að hvetja menn til félagslegra úrræða í viðskiptamálunum, þá væri það miklu gagnlegra almenningi, en um leið meira hrís á okurkarlana en verðlagsfrv. Alþýðuflokksþm. þriggja.