06.11.1951
Neðri deild: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

2. mál, gengisskráning, launabreytingar, stóreignarskattur, framleiðslugj. o. fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forsetl. Hæstv. atvmrh. skildi, að hv. þm. A-Húnv. hafði ekki gert Sjálfstæðisflokknum greiða með flutningi þessarar till. Það sýnir pólitísk hyggindi hans. En sannleikurinn er sá, að þessi till. hv. þm. A-Húnv. er skaðlegri en ég taldi áðan. Ég hef, meðan á umræðunum hefur staðið, reynt að gera mér grein fyrir því, hvað samþykkt hennar mundi þýða, og mér virðist hún fela í sér 425 kr. kauplækkun á mánuði fyrir opinbera starfsmenn, sem hafa 2500 kr. í grunnlaun, eða um 13% kauplækkun. Hæstv. forseti Sþ. leggur til í brtt. við stjfrv., að laun opinberra starfsmanna séu lækkuð um 13% ! Það er ekki að furða, þó að hæstv. atvmrh. teldi þörf á að bjarga heiðri Sjálfstfl.

Það er útúrsnúningur, að ég hafi fagnað till., þá hefði ég ekki andmælt henni. Það, sem ég fagnaði, var, að sézt hefði inn fyrir dyrnar hjá Sjálfstfl., sem telur sig hinn eina sanna málsvara launastéttanna. Ég vil ekki hafa heiður af þeim, er stutt hafa málstað opinberra starfsmanna, ráðh., sem stóðu að brbl., og verulegum hluta Sjálfstfl., en maður veit ekki, hve stór hluti flokksins er fjandsamlegur þessari verðlagsuppbót. Þessi till. hefur sýnt, að sá fjandskapur er fyrir hendi.

Það er rétt hjá hæstv. atvmrh., að opinberir starfsmenn eru ekki öfundsverðir af launum sínum, þess vegna andmælti ég hv. þm. A-Húnv. Við hæstv. atvmrh. erum ekki oft sammála, en nú erum við það. Það fellur nú m.a. í hlut míns flokks að hrinda þessu máli fram, þótt það sé borið fram af ríkisstj. Hæstv. ríkisstj. verður að treysta á Alþfl. og Sósfl. til þess að koma málinu fram og vernda sig gegn vinum sínum. Það er nær einsdæmi.

Í þessu máli hefur það komið í ljós, að allur Alþfl. styður málstað opinberra starfsmanna, en það hefur líka komið í ljós, að hið sama verður ekki sagt um Sjálfstfl.