12.10.1951
Neðri deild: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (2613)

15. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Ég verð að segja það, að ég er ekki vanur að fá svona kveðjur frá hv. 3. landsk. eins og hann nú varpaði til mín í þessari ræðu, en hann talar um afglapahátt, ólund og íhaldssemi. Mér er alveg sama um þetta. Ég hef reynt að gera mönnum ljóst, að ákvæði frv. eru ranglát og svo fráleit, að ekki er hægt að fallast á þetta eins og það er. Og ég held, að hv. 3. landsk. þm. hljóti að skilja það. að ef þetta 18 þús. kr. hámark á að vera á annað borð, þá verður það að gilda um öll hjón, en ekki eingöngu í þeim tilfellum, þegar annað þeirra eða bæði vinna utan heimilis. Það mundi vera mikið ranglæti, eins og ég er búinn að taka fram, að hafa frv. eins og það er, því að það er beinlínis tekið fram í 1. gr., að ef hvort hjónanna um sig vinnur fyrir tekjum yfir 18 þús. kr., þegar bæði vinna utan heimilis, þá á að skattleggja allar tekjurnar hjá hvoru um sig, en í hinu tilfellinu, þar sem hjónin vinna bæði á heimilinu sameiginlega og fá yfir 36 þús. kr. tekjur í heild, þá er gerður sá mismunur, að aðeins eru skattlagðar 18 þús. kr. hjá konunni, en allur afgangurinn hjá manninum. Í þessu er ranglætið fólgið. Ég nefndi áðan dæmi um hjón, sem vinna að iðnaði og hafa 80 þús. kr. tekjur, og önnur hjón, sem vinna hjá ríkinu og hafa jafnmiklar tekjur. Samkv. frv. eiga þau síðarnefndu hvort um sig að telja fram sínar tekjur til skatts, en af tekjum þeirra fyrrnefndu verða 62 þús. kr. skattlagðar hjá manninum, en aðeins 18 þús. hjá konunni. (GÞG: Vill hv. þm. hækka hámarkið?) Ég skal ekkert segja um hámarkið. En ef þetta á að vera svipað eins og í frv., þá verða að gilda sömu reglur um öll hjón, því að annað leiðir til svo mikils ranglætis. Og hv. þm. talar um, að það sé verið að útiloka bóndann eða iðnaðarmanninn frá því að taka konuna sína á laun. Prófessorinn í viðskiptafræði hlýtur að vita, að það er ekki venja bænda að taka konur sínar á föst laun. Hjónin vinna bæði sameiginlega á heimilinu að tekjuöfluninni, og konan verður aldrei á launum hjá bóndanum og ekki bóndinn hjá konunni. Svona má hv. þm. ekki tala vegna þeirrar stöðu, sem hann hefur í þjóðfélaginu. — Ég vona, að hv. þm. sé ljóst, að það eru augljósir gallar á frv., og hann ætti að sjá sóma sinn í því að taka það aftur.