07.11.1951
Neðri deild: 24. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (2698)

90. mál, Búnaðarbanki Íslands

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég get að mestu leyti látið nægja að vísa í grg. þessa frv. Eins og nú er háttað störfum Búnaðarbanka Íslands, á hann að geta leyst þarfir landbúnaðarins. Það skortir þó heimild í l., svo að hann geti látið nægja að taka lausafé að veði fyrir lánum.

Ég veit vel, að Búnaðarbankinn er það fjárvana, að hann getur ekki sinnt nema litlu af þeim þörfum, sem óskað er eftir. En til viðbótar við þetta er, að bankinn getur ekki liðsinnt mönnum, sem eru að byrja búskap. Þannig er ástatt með marga þá, sem eru að byrja búskap, að þeir hafa ekkert til að veðsetja fyrir þeim tækjum, sem nauðsynleg eru þegar búskapur er hafinn, nema það, sem þeir geta keypt í upphafi. Þeir, sem hafa jörð, — það getur verið, að sumum standi hún til boða án þess að leggja út mikið fé fyrir henni, — geta veðsett hana fyrir nokkru af kaupverðinu. Þeir, sem verða að leigja jörð, geta ekki sett hana að veði, þó að þeir þurfi að kaupa hús á jörðina. Þó að ástandið sé slíkt með húsakynnin, taka bankarnir þau ekki að veði, og enn síður er hægt að fá lán út á vél eða bústofn, þó að allt þetta sé hverjum byrjanda í búskap nauðsynlegt. Segja má, að án þessa geti enginn hafið búskap í sveit. Tilfinnanlegast ætla ég þó að það atriði sé, sem þetta frv. fjallar um, að menn hafi engin ráð, svo framarlega sem frumbygginn eða þeir, sem að honum standa, geta ekki lagt fram fé til að kaupa verkfæri og bústofn og geta ekki aflað þessa, en þetta er öllum bændum nauðsynlegt, og getur enginn hafið búskap án þeirra. Nú má fyrst geta þess, að þótt aðeins sé tekið það einfaldasta, skiptir það tugum þúsunda, sem byrjandinn þarf að byrja með, þó að búskapurinn sé lítill og fábreytt verkfæri. Það kostar marga tugi þúsunda, þó að ekki sé talið með það, sem kann að þurfa til húsa og fyrir jörð. Vél með sláttuvél kostaði fyrir fáum árum 12 þús. kr., en kostaði í fyrra um 35 þús. kr., og allt er eftir þessu. Ég læt nægja að geta um þetta, en um aðra hluti gildir sama.

Geta má nærri, hvort ungt fólk geti lagt fram tugi þúsunda án þess að fá liðsinni, enda hefur það komið á daginn. Mér er minnisstætt, sem kunningi minn hér í Reykjavík sagði mér í fyrra, vegna þess að mér fannst það átakanlegt dæmi um þetta. Ég veit, að hér eru margir, sem vildu setjast að í sveit, en skortir til þess fjárhagslega getu. Þessi kunningi minn er gamall bóndi ofan úr sveit, sem varð að bregða búi vegna vanheilsu konu sinnar, sem varð að vera undir læknishendi hér í Reykjavík. Hann átti fósturson, ungan mann, alinn upp í sveit, sem var gefinn fyrir sveitastörf og ætlaði að búa í sveit. Hann gekk á bændaskóla og lauk námi. Vorið sem hann lauk námi ætlaði hann að fá jörð í sýslunni, þar sem hann ólst upp. Fóstri hans sá um, að hann fengi jörð, og þurfti hann ekki að leggja mikið af mörkum til þess, en hann þurfti að kaupa lítið eitt af húsum, en aðallega bústofn og áhöld. Það óumflýjanlega nam 45 þús. kr. Fóstri hans og vinir auruðu saman 30 þús. kr., og eftir var því að fá 15 þús. kr. Þeir gengu á milli allra bankanna og þeirra, sem hafa peninga og lána fé. Það var alls staðar sama svarið, að það væri ekki hægt, enda varð þessi piltur að láta sér lynda að setjast að hér. Hann átti konuefni, sem þráði það eitt að lifa lífi sínu í sveit með honum. Þeir, sem þekkja, að mönnum stendur ekki á sama, hvað þeir vinna, sérstaklega ef þeir hafa sett sér takmark meðan þeir eru ungir að vinna að einhverju sérstöku eftir geðþótta, geta farið nærri um, hvernig þessu fólki hefur liðið fyrir ekki meiri ástæðu en hér er. Þetta er ekki svo stórvægilegt, að ekki mætti yfirstíga það, og er illt til þess að vita, að ungt fólk geti ekki unnið eftir sínum geðþótta, þegar ekki vantar meira til.

En það er meira í þessu en þetta. En hitt atriðið er ekki síðra, þó að það komi ekki eins við tilfinningarnar. Viðvíkjandi því, að þjóðin eigi að lifa sínu lífi, hvernig er þá ástatt í atvinnumálum þjóðarinnar í heild? Það þykir örla mjög á því, að fiskimiðin kringum landið séu orðin léleg, sérstaklega fyrir minni báta. Nú seinni árin, einkum í fyrra og hittiðfyrra, var mjög rætt um, að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir fyrir kaupstaði og kauptún úti á landi vegna atvinnuleysis. Þetta stafar fyrst og fremst af því, að fiskimiðin hafa brugðizt, og enginn veit, hve þetta getur staðið lengi. Þess vegna er talað um að gera ráðstafanir fyrir fólkið, svo að það geti lifað. Að sjálfsögðu er ekki hægt að skella skollaeyrum við að sjá fólkinu farborða með einhverju móti, einkum ef framhald verður á því, að fiskimiðin bregðist. Þetta er tilfinnanlegur skaði fyrir þjóðina, og því fólki fjölgar, sem þarf á hallærisráðstöfunum að halda, svo að það geti framfleytt sér. Mér virðist meira en mál til komið, að það opinbera geri sitt til að flýta fyrir byggingu landsins, ræktun og auknum húsakosti, svo að mögulegt sé fyrir fólk að erja jörðina. Við þetta vinnst það, að þjóðin er betur undir það búin að taka við fólki úr kaupstöðunum, ef svo fer, að það getur ekki aflað sér viðurværis þar nema að takmörkuðu leyti. Ég veit, að þjóðin er öruggari, ef landbúnaðurinn er sterkur og fær um að mæta skakkaföllum, ekki aðeins hjá honum, heldur ef á brestur hjá þeim, sem önnur störf stunda. Ég vil því vona, að hv. d. taki þessu máli vel og greiði fyrir því eftir getu. Það er aðeins eitt atriði í þessu frv., sem þarf að greiða fyrir. En samkvæmt l. um Búnaðarbanka Íslands getur hann ekki, ef ekki er séð fyrir nægilegri fjárveitingu, séð landbúnaðinum fyrir nægilegu fjármagni og getur þannig ekki rækt ætlunarverk sitt. Okkur flm. er ljóst, að þetta er aðeins smár vísir að því, er þarf að verða. Við höfum ekki séð önnur ráð til að afla fjár en að ríkið leggi þetta fé fram. Samkvæmt öðrum ákvæðum búnaðarbankalaganna er heimilt að auka þetta með verðbréfasölu. — Ég vil svo leggja til, að málinu verði vísað til hv. landbn.