23.11.1951
Neðri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (2845)

108. mál, útsvör

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þar sem fyrsti flm. þessa frv. er ekki viðstaddur, vil ég geta þess, að þetta frv. hefur verið flutt — að ég ætla — tvisvar áður í þessari deild, en hefur ekki orðið útrætt. Meginefni þessa frv. er breyting á 8. gr. útsvarslaga frá 1945. En í þeirri gr. laganna er kveðið á um það, hvar útsvör skuli leggja á, hvenær leggja megi útsvör á á fleiri stöðum en einum. Nýmæli þessa frv. er, að lagt er til, að ef einhver hafi rekið síldarverkun og verzlun með síldarafurðir utan heimilissveitar, sé heimilt að leggja á hann útsvar þar. Eins og skýrt er frá í grg., þá hagar sums staðar og þá einkum á Norðurlandi þannig til, að þar er rekin síldarsöltun á sumrin. Er þá töluverður fjöldi þessara atvinnurekenda ekki heimilisfastur á staðnum, heldur aðkominn. Hingað til hefur hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórn á þeim stöðum, þar sem söltunin er rekin, ekki haft heimild til að leggja útsvar á söltunina. Hér er lagt til, að heimilað verði að leggja á síldarsöltun á þeim stöðum, þar sem hún er rekin, þótt sá, sem hana rekur, eigi lögheimili annars staðar. Það fyrirkomulag, sem verið hefur, að ekki sé hægt að leggja á þennan atvinnurekstur, sem oft er rekinn á þessum stöðum, er mjög tilfinnanlegt fyrir bæjar- og sveitarfélögin. Verður ekki hægt að telja þetta rétt, m. a. vegna þess, að bæjar- og sveitarfélögin verða að bera mikinn kostnað vegna þessa atvinnurekstrar jafnframt kostnaði, sem á þau fellur af öðrum ástæðum.

Eins og ég hef sagt, þá hefur þetta frv. verið flutt hér á Alþingi áður, en hefur ekki orðið útrætt. Vildi ég mega vænta þess, að það fái afgreiðslu nú, og vil ég sérstaklega mælast til þess við hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hún geri sitt til þess, að svo geti orðið. Er tæplega við það unandi, að svo fari þing eftir þing, að ekki fáist úr því skorið, hvort hv. þm. vilja verða við þeim óskum, sem hér eru fram bornar. — Skal ég svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en legg til, að málinu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.